Morgunblaðið um LJÓSBROT: Kynnast ung dauðanum

Jóna Gréta Hilmarsdóttir skrifar um Ljósbrot Rúnars Rúnarssonar í Morgunblaðið og segir hana meðal annars sjónrænt meistaraverk þó stundum sé fagurfræðin talin mikilvægari en handritið.

Jóna Gréta skrifar:

Áhorfendur taka andköf þegar þeir sjá opnunarskotið í Ljósbroti. Aðalpersónan Una (Elín Hall) situr úti á Granda og horfir á sólsetrið. Tökuvélinni er stillt upp fyrir aftan persónuna þannig að áhorfendur sjá ekki andlitið á Unu. Áhorfendur beina sjónum sínum því að fallegu birtunni sem kemur frá sólsetrinu og umvefur Unu. Það verður strax ljóst að myndin er skotin á filmu en það væri erfitt að fá sömu niðurstöðu ef sama atriði yrði skotið með stafrænni vél. Skotið er ótrúlega fallegt og gefur tóninn fyrir alla myndina þar sem fagurfræðin fær mikið vægi og eiga leikstjórinn Rúnar Rúnarsson og kvikmyndatökumaðurinn Sophia Olsson mikið hrós skilið.

Hins vegar þurfa sögupersónurnar í atriðinu, þ.e. Una og Diddi (Baldur Einarsson), því miður að byrja að tala. Samtalið er tilgerðarlegt og ósannfærandi, í því gerir Diddi grín að Unu fyrir að vera freðin og svo byrja þau að tala um kynlíf. Það er ekki óalgengt að atriði sem eru skrifuð af fullorðnum einstaklingum um unglinga eða ungt fólk séu á þessa vegu, þ.e. að umræðuefnið sé dóp og kynlíf. Áhorfendur fylgja parinu upp í rúm til Didda þar sem parið á aðeins eðlilegra samtal. Áhorfendur fá að vita að Diddi er að fara vestur á land til að segja upp kærustunni sinni, Klöru (Katla Njálsdóttir), svo hann geti verið með Unu og þau geti hætt þessum feluleik. Þetta er í síðasta skipti sem áhorfendur og sögupersónurnar sjá Didda en hann ferst stuttu eftir í sprengingu í Hvalfjarðargöngunum.

Stærsti hluti myndarinnar fylgir Unu og æskuvinum Didda á meðan og eftir að þau frétta að Diddi hafi verið einn þeirra sem lést í sprengingunni og kynnast þannig í fyrsta skipti dauðanum. Góður vinur Unu og Didda, Gunni (Mikael Kaaber), tekur þetta skiljanlega mjög nærri sér. Leikaranum Mikael Kaaber tekst vel að koma til skila þessum mjúka og viðkvæma karlmanni sem Gunni er og framkalla þannig raunverulega samkennd meðal áhorfenda sem langar helst bara að faðma hann. Gunni er eins konar límið í hópnum, Diddi og Gunni eru báðir að vestan og Gunni þekkir því Klöru og aðra æskuvini Didda. Þau koma öll saman í bæinn til að syrgja Didda með því að djamma og dansa. Strákarnir Bassi (Ágúst Wigum) og Siggi (Gunnar Hrafn Kristjánsson) eru fyrst kynntir fyrir Unu og á meðan eru áhorfendur að bíða eftir því að Klara láti sjá sig. Leikarinn Ágúst Wigum fær því miður lítið að gera í myndinni í hlutverki Bassa og virðist fyrst og fremst eiga að fylla rýmið. Aftur á móti fær leikarinn Gunnar Hrafn aðeins stærra hlutverk en hann leikur Sigga sem er mjög ófyrirsjáanleg og hvatvís persóna og skemmtileg viðbót við vinahópinn auk þess sem það er ótrúlega gaman að fylgjast með Gunnari Hrafni dansa.

Sagan verður hins vegar fyrst almennilega spennandi þegar Klara mætir á svæðið og kemur Unu í uppnám af því Una neyðist þá til að leika leikrit fyrir framan Klöru til að vernda tilfinningar hennar. Una, eins og hún segir sjálf, öfundar Klöru af þeirri athygli sem hún fær fyrir að hafa misst kærasta sinn og fyrir að eiga mestan rétt á því að syrgja. Það er mjög auðvelt að setja sig í spor hennar af því að þó þessar tilfinningar séu mjög órökréttar þá eru þær svo mannlegar og það er hið mannlega sem er svo spennandi viðfangsefni.

Hvernig þessu er komið til skila er einfaldlega til fyrirmyndar hjá Rúnari Rúnarssyni og leikkonunum Elínu Hall og Kötlu Njálsdóttur. Í raun væri hægt að segja að þessi mynd fjalli ekkert síður um samband stúlknanna sem er ótrúlega flókið en fallegt í senn. Þessi sorglegi atburður virðist leiða þær saman og þær ná að mynda sérstaka tengingu enda elskuðu þær sama manninn og misstu hann báðar. Af því að leikurinn er svo sterkur langar áhorfendur að sjá meira af sambandi þeirra, kafa enn dýpra og það hefði alveg verið rými til þess af því að atriðin á milli þeirra eru frekar fá og myndin er mjög stutt og sett saman af fáum löngum og stundum fullhægum skotum. Hins vegar er lokaskotið af Unu og Klöru fullkominn endir á sögu þeirra. Myndin hefst í lok sumarnætur og endar þar líka en áhorfendur fá aldrei að sjá sólina setjast sem er mjög táknrænt og getur átt að þýða að Diddi lifi áfram nema nú aðeins í minningum vina sinna.

Ljósbrot er fjórða kvikmynd Rúnars Rúnarssonar í fullri lengd og jafnframt fjórða mynd hans sem valin er á kvikmyndahátíðina í Cannes, en Ljósbrot var opnunarmyndin á hátíðinni í ár og fékk góðar viðtökur. Það kemur ekki á óvart að Ljósbrot hafi komist inn á virta hátíð eins og Cannes enda um sjónrænt meistaraverk að ræða og leikurinn, sérstaklega hjá Elínu Hall og Kötlu Njálsdóttur, er til fyrirmyndar. Hins vegar eru nokkur augnablik í myndinni sem virka tilgerðarleg og það er greinilegt að fagurfræðin er talin mikilvægari en sjálft handritið. Þegar enn eitt atriðið þar sem persónan horfir út í tómið og reykir hefst fer áhorfendum aðeins að leiðast en Rúnar virðist þá taka sig aðeins of hátíðlega.

Svo eru önnur mjög fyndin og skrítin atriði þar sem hann virðist bara vera að leika sér eins og bráðfyndna gjörningaatriðið í Listaháskóla Íslands og hvernig hann gerir létt grín að listaspírum Íslands. Öll þessi séríslensku atriði bæta kannski ekki miklu við fyrir erlenda áhorfendur en íslenskir áhorfendur kunna að meta þau. Íslendingar horfa líklega líka öðruvísi á myndina en þeir sjá strax stærri söguna, því jafnvel þó við fylgjum aðeins þessum eina vinahóp þá miðlar Ljósbrot mun stærri harmleik. Áhorfendur hefðu líklega þekkt einhvern af þessum Íslendingum sem létust í sprengingunni hefði þetta gerst í alvörunni en sú tilhugsun gerir myndina ennþá þýðingarmeiri og sterkari. Atriðið sem varð til þess að rýnir fékk hroll um allan líkamann er þegar Una gengur fram hjá konu sem er að draga fána í hálfa stöng fyrir framan ráðhúsið.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR