spot_img

Maya Anand hjá Focus Features: SNERTING hefur beint sjónum að Íslandi og því hæfileikafólki sem þar starfar

Kvikmynd Baltasars Kormáks, Snerting eða Touch eins og hún heitir á ensku, hefur fengið frábærar viðtökur gagnrýnenda og áhorfenda í Bandaríkjunum, þar sem myndinni er dreift á vegum Focus Features sem hefur um árabil verið eitt virtasta kvikmyndaver í Hollywood. Myndin er nú á leið í dreifingu um allan heim.

Snerting hefur verið sýnd í rúmlega 300 kvikmyndahúsum í Bandaríkjunum. Hún er nú fáanleg á efnisveitum um öll Bandaríkin, bæði til kaups og leigu. Hún verður síðan fáanleg á áskriftarstreymisveitunni Peacock sem er með 33 milljónir áskrifenda.

Utan Bandaríkjanna mun Universal Pictures dreifa myndinni um allan heim næstu mánuði. Fyrir nokkru var hún frumsýnd í Ástralíu við afar góðar viðtökur og í júlí var hún sýnd í Þýskalandi. Myndin opnaði í Bretlandi um síðustu helgi og fékk mjög góða dóma hjá gagnrýnanda The Guardian eins og Klapptré skýrði frá fyrir skemmstu.

Focus Features ánægð með viðtökur myndarinnar

Í fréttatilkynningu frá Reykjavik Studios er haft eftir Maya Anand, framkvæmdastjóra hjá Focus Features sem sér meðal annars um verðlaunamyndir fyrirtækisins, að þau séu gífurlega ánægð með viðtökurnar. Focus Features er í eigu Universal Pictures. Síðustu 22 ár hafa myndir Focus Features hlotið 155 tilnefningar til Óskarsverðlauna og unnið fjölda þeirra – auk margvíslegra annarra viðurkenninga.

„Við höfum fundið fyrir sterkum viðbrögðum hjá lykil gagnrýnendum, fjölmiðlafólki og áhrifafólki í kvikmyndaiðnaðinum. Við erum líka í skýjunum yfir dómunum sem Snerting hefur fengið hjá virtustu blöðum og tímaritum, svo sem The New York Times, The Los Angeles Times, TIME, Variety og The Hollywood Reporter. Það er til marks um velgengni Snertingar að hún er með 92% skor á Rotten Tomatoes – og það ekki bara hjá gagnrýnendum heldur almennum áhorfendum líka. Þetta er einstakur árangur.“

Snerting hefur verið kölluð „meistaraverk“ og „ein besta mynd ársins “ í Bandaríkjunum. Sumir gagnrýnendur hafa einnig talað um að hún sé besta mynd Baltasars Kormáks. Leikarar myndarinnar, ekki síst Egill Ólafsson, hafa fengið afbragðsdóma og það sama má segja um aðra sem koma að myndinni. Bergsteinn Björgúlfsson hefur til dæmis verið rómaður fyrir kvikmyndatöku, Sunneva Weisshappel fyrir leikmynd, Högni Egilsson fyrir tónlist og Margrét Einarsdóttir fyrir búninga.

Hefur beint sjónum að Íslandi

„Snerting hefur beint sjónum að Íslandi og því hæfileikafólki sem þar starfar við kvikmyndagerð,“ segir Anand og bætir við að myndin hafi skírskotun um allan heim. „Við höfum verið með sýningar fyrir áhrifafólk í kvikmyndaiðnaðinum og munum fylgja henni eftir af krafti. Það er stórkostlegt fyrir okkur og Ísland að geta státað af mynd í þessum gæðaflokki – sem hrífur ekki bara gagnrýnendur heldur svo til alla sem sjá hana.“

Snerting hefur verið tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs og er nú tekjuhæsta bíómynd ársins hér á landi.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR