spot_img

SNERTING tilnefnd til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs

Norræni kvikmynda- og sjónvarpssjóðurinn tilkynnti í dag um tilnefningar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs. Tilnefningarnar voru opinberaðar á Alþjóðlegu norsku kvikmyndahátíðinni í Haugesund.

Fjórar leiknar myndir og tvær heimildarmyndir í fullri lengd hljóta tilnefningar til  Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024. Bíó Paradís mun sýna allar tilnefndar kvikmyndir dagana 9.-14. október.

Tilnefningarnar eru:

Danmörk: The Son and the Moon – Leikstýrt af Roja Pakari og Emilie Adelina Monies, handritshöfundar Roja Pakari og Denniz Göl Bertelsen, framleiðandi Sara Stockmann fyrir Sonntag Pictures

Finnland: Fallen Leaves – Leikstjóri og handritshöfundur Aki Kaurismäki, framleiðendur Aki Kaurismäki, Misha Jaari og Mark Lwoff fyrir Sputnik Oy og Bufo

Grænland: Twice Colonized – Leikstýrt af Lin Alluna, handritshöfundar Aaju Peter og Lin Alluna, framleiðandi Emile Hertling Péronard fyrir Ánorâk Film

Ísland: Snerting – Leikstýrt af Baltasar Kormáki, handritshöfundar Ólafur Jóhann Ólafsson og Baltasar Kormákur, framleiðendur Agnes Johansen og Baltasar Kormákur fyrir RVK Studios

Noregur: Sex – Leikstjóri og handritshöfundur Dag Johan Haugerud, framleiðendur Yngve Sæther og Hege Hauff Hvattum fyrir Motlys

Svíþjóð: Crossing – Leikstjóri og handritshöfundur Levan Akin, framleiðandi Mathilde Dedye fyrir French Quarter Film

Dómnefndir hvers lands fyrir sig hafa tilnefnt eina mynd frá sínu landi. Til að hafa þátttökurétt þurfa myndir að hafa verið frumsýndar á tímabilinu 1. júlí 2023 til 30. júní 2024, auk þess að uppfylla sérstök skilyrði Ráðsins. Jóna Finnsdóttir, Guðrún Helga Jónasdóttir og Björn Þór Vilhjálmsson sátu í íslensku dómnefndinni að þessu sinni. Þau segja um Snertingu:

Í þessari spennandi ástarsögu segir Baltasar Kormákur frá manni sem leitar löngu glataðrar ástar og leggur upp í tilfinningaþrungið ferðalag sem ber hann aftur í tímann til mikils mótunartímabils á ævi hans, sem og yfir hálfan hnöttinn. Gegnum markvissa listræna stjórnun, sterka myndrænu og frábæra myndatöku tekst leikstjóranum að endurskapa Lundúnir sjöunda áratugarins með sannfærandi hætti, samhliða Íslandi og Japan nútímans. Lágstemmd tónlistin styður við frábæra frammistöðu leikaranna á áhrifaríkan og næman hátt og greiðir fyrir framvindu sögunnar, þar sem við kynnumst smám saman mætti æskuástarinnar og því hvernig sársauki fortíðar getur ógnað hinu viðkvæma upphafsstigi nýkviknaðs ástarsambands. Þó að hér sé sögð harmræn saga af mannlegri reynslu tekst Baltasar að skilja þannig við áhorfendur að þeir finna til vonar og eru – líkt og titillinn gefur vísbendingu um – snortnir.

Norrænu kvikmyndaverðlaunin voru fyrst veitt Aki Kaurismäki 2002 fyrir meistaraverk hans The Man Without a Past. Íslenskar kvikmyndir sem hlotið hafa hin eftirsóttu verðlaun eru Dýrið í leikstjórn Valdimars Jóhannsonar, Hross í oss og Kona fer í stríð í leikstjórn Benedikts Erlingssonar og Fúsi í leikstjórn Dags Kára.

Viðurkenningin og verðlaunafjárhæðin, DKK 300,000 (rúmar sex milljónir ISK), deilist jafnt á milli leikstjóra, handritshöfundar og framleiðanda.

Handhafi Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2024 verður opinberaður 22. október 2024 á þingi Norðurlandaráðs í Reykjavík.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR