Morgunblaðið um NATATORIUM: Eins og mjög fallegt púsluspil sem vantar nokkur púsl í

„Áhorfendur bíða svo alla myndina eftir því að flett sé af dulúðinni en það er aldrei gert. Í staðinn sitja þeir eftir jafn undrandi og í byrjun myndarinnar af því að of margir lausir þræðir eru skildir eftir til túlkunar,“ skrifar Jóna Gréta Hilmarsdóttir meðal annars í Morgunblaðið um Natatorium eftir Helenu Stefánsdóttur.

Jóna Gréta skrifar:

Fyrsta kvikmynd Helenu Stefánsdóttur ber nafnið Natatorium, en það er fengið úr latínu og merkir sundhöll, sem er mjög viðeigandi, enda fjallar myndin um fjölskyldu sem er öll að drukkna í meðvirkni.

Kvikmyndin fylgir Lilju (Ilmur María Arnarsdóttir), sem fær að gista hjá ömmu sinni, Áróru (Elin Petersdottir), og afa, Grími (Valur Freyr Einarsson), í Reykjavík á meðan hún þreytir inntökupróf í listhóp. Faðir Lilju, Magnús (Arnar Dan Kristjánsson), er hins vegar ekki samþykkur þessu og sannfærir systur sína Völu (Stefania Berndsen) um að hafa auga með henni.

Eftir fyrsta erfiða símtal þeirra systkina byrja áhorfendur að leita að vísbendingum um að eitthvað sé ekki eins og það á að vera á heimili Áróru og Gríms. Fyrsta stóra vísbendingin er Kalli (Jónas Alfreð Birkisson), föðurbróðir Lilju, sem er greinilega mjög veikur og ætti að liggja á spítala en er í staðinn undir umsjá Áróru og virðist ekki vera að batna. Önnur vísbendingin er lát föðursystur Lilju sem hét einnig Lilja, en hún drukknaði þegar hún var mjög ung, og þriðja vísbendingin er svo sundlaugin í kjallaranum, sem virðist af einhverjum ástæðum vera feimnismál á heimilinu.

Áhorfendur bíða svo alla myndina eftir því að flett sé af dulúðinni en það er aldrei gert. Í staðinn sitja þeir eftir jafn undrandi og í byrjun myndarinnar af því að of margir lausir þræðir eru skildir eftir til túlkunar. Það er til dæmis erfitt að átta sig á því hvort Áróra er ofbeldismaður eða hvort hún er að fylla einhverja blætisþörf hjá Kalla. Þetta þarf ekki endilega að vera ókostur en er það í þessu tilfelli af því að myndin svarar of fáum spurningum. Það er allt í lagi að skilja eftir einhverja dulúð en þegar áhorfendur eru engu nær því að skilja myndina þegar henni er lokið hefur leikstjóranum mistekist að koma sögunni til skila. Ástæðan fyrir því er líklega að Helena reynir að segja of mikið á of litlum tíma. Það bætir til dæmis engu við söguþráðinn að nýjasta stjúpmóðir Lilju, Írena (Kristín Pétursdóttir), sé ólétt og eigi að vera mikið yngri en faðir Lilju. Það er líka einfaldlega erfitt að trúa því, þar sem það eru aðeins fjögur ár á milli leikaranna sem leika parið. Einnig er erfitt að trúa því að Magnús sé pabbi Lilju og að hann sé elstur af þeim systkinum af sömu ástæðu. Eflaust finnst einhverjum undirrituð vera að hengja sig hér í smáatriði en þessi atriði skipta máli af því að þau geta kippt áhorfendum úr söguþræðinum.

Það er greinilegt að Helena er að reyna að halda mörgum boltum á lofti, sem gerir það að verkum að hún getur ekki sinnt þeim öllum jafn vel. Miðað við hversu mikil vinna er lögð í að skapa söguheiminn með leikmynd og búningum er leitt að sjá að aðrir þættir fá ekki jafn mikla aðhlynningu, handritið fellur til dæmis í skugga myndheildarinnar (f. mise en scène). Helena reynir ekki einungis að ná yfir of mikið af efni á stuttum tíma heldur eru samtölin mörg frekar óþjál og tilgerðarleg, sem þjónar ekki leikurunum. Leikkonan Elin Petersdottir, sem leikur ömmu Lilju, er til dæmis sterkust þegar hún þarf ekki að flytja neinn texta, af því að textaflutningur hennar getur virkað frekar tilgerðarlegur. Elin er hins vegar mjög ógnvænleg í myndinni og góð í því hlutverki, enda snillingur í að segja það sem þarf að segja án þess að segja stakt orð. En það vantar oft ákveðið flæði í samtölin og það verður stundum augljóst að um sé að ræða fyrirframákveðið samtal eða handrit. Þetta á oft við þegar verið er að semja texta fyrir unglinga í bíómyndum en það á ekki við um þessa mynd. Ilmur María, sem leikur aðalhlutverkið Lilju, er sannfærandi persóna og flytur texta sinn vel.

Ferðalag persónanna kemst heldur ekki til skila af því að það vantar stundum brýr á milli atriða. Í einu atriði missir til dæmis Vala stjórn á skapi sínu þegar hún er að rífast við móður sína en beint eftir það fer hún upp í herbergi til Lilju og þær dansa saman. Það er erfitt að skilja hvernig hún fór frá því að vera svo ótrúlega reið yfir í að vera brosandi og hlæjandi með Lilju. Áhorfendur sjá ekki þetta tilfinningalega ferðalag og það verður svo greinilegt að um er að ræða atriði sem tekin voru í sitthvoru lagi en ekki í kjölfar hvort annars. Vala minnist á rifrildið við Lilju í atriðinu en það er ekkert í leiknum sem gefur það til kynna að rétt á undan hafi Vala átt mjög erfitt samtal við móður sína; eitt sterkt grátbroslegt bros hefði til dæmis bætt miklu við það atriði. Það er oft eins og það vanti hluta af sögunni, eins og einhver atriði hafi ekki fengið að vera hluti af lokaklippinu. Faðir Lilju, Magnús, segir til dæmis oft að það sé ekki möguleiki á að hann geti dregið dóttur sína út úr þessu húsi, þ.e. frá ömmu og afa, og að hann hafi enga stjórn á henni en áhorfendur hafa aldrei séð hann reyna almennilega. Það er líka ítrekað minnst á að Lilja sé óþekk en hún virðist nú vera heilsteyptasta manneskjan í allri myndinni. Kannski er þetta allt með vilja gert hjá Helenu og á að sýna hversu miklar ranghugmyndir fjölskyldan hefur gagnvart hvort öðru en þetta virkar frekar eins og að það vanti eitthvað í söguna, eins og áhorfendum sé haldið fyrir utan.

Natatorium er ólík öllum þeim íslensku myndum sem undirrituð hefur séð og það er greinilegt að Helena hefur mjög sterkan stíl. Öll myndheildin er vel úthugsuð og nátengd sögunni, en nánast öll myndin gerist á heimili ömmu og afa Lilju, sem er sterk ákvörðun hjá leikstjóra. Leikmyndahönnuðurinn Snorri Freyr Hilmarsson á mikið hrós skilið fyrir leikmyndina, en heimilið er mjög kalt og drungalegt og það endurspeglar einmitt stemninguna innan fjölskyldunnar og styrkir þannig söguna. Blár er áberandi litur í bæði leikmyndinni og búningunum, sem er mjög viðeigandi enda, eins og áður hefur verið nefnt, er öll fjölskyldan að drukkna í meðvirkni. Í einu herberginu er líka fiskabúr með tveimur fiskum í; yfirleitt myndi slíkt ekki þjóna miklu hlutverki en fiskabúrið í Natatorium er hlaðið merkingu eins og allir leikmunirnir í húsinu. Kvikmyndatakan er líkt og myndheildin mjög tilraunakennd en undirritaðri fannst sérstaklega skemmtilegt þegar kvikmyndatökumaðurinn, Kerttu Hakkarainen, skaut atriði úr mjög háum vinklum. Þessi skot beindust niður á við og voru tekin upp með mjög víðri linsu, sem gerði það að verkum að allt rýmið sást og glæsileg leikmyndin fékk þar af leiðandi að njóta sín.

Búningarnir hjá búningahönnuðinum eru líka mjög sterkir og það er ekki hægt að fjalla um þessa mynd án þess að tala um búninginn sem Lilja er í þegar hún þreytir inntökuprófið í listahópinn, en hún lítur út eins og gullfalleg blá geimvera sem grætur glitrandi, bláum tárum. Hægt er að færa rök fyrir því að búningurinn og förðunin, hjá Tinnu Ingimarsdóttur, í því atriði þjóni sem eins konar fyrirboði fyrir það sem koma skal. Persónan Kalli er líka oftar en ekki í mjög táknrænum búningum og þar er einn mjög eftirminnilegur, en það er þegar hann er klæddur hvítum kjól og er með blómakrans um höfuðið. Þá líkist hann óneitanlega Jesú Kristi, en þeir eiga margt sameiginlegt, eins og til dæmis að rísa upp frá dauðum.

Á heildina litið er Natatorium mjög fín frumraun hjá Helenu Stefánsdóttur en myndin er ekki gallalaus. Helena leggur of mikla áherslu á útlit myndarinnar, eins og til dæmis búninga og leikmynd, en grunnurinn eða kjarni myndarinnar, þ.e. handritið, er hins vegar ekki nógu skýrt, eða skilar sér í það minnsta ekki í lokaklippinu. Það má því segja að Natatorium sé eins og mjög fallegt púsluspil sem vantar nokkur púsl í.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR