Lestin um NATATORIUM: Flagð undir fögru skinni

Kolbeinn Rastrick, kvikmyndagagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1 segir um Natatorium Helenu Stefánsdóttur að henni takist að halda athygli áhorfenda þrátt fyrir ákveðna vankanta á handritinu.

Kolbeinn Rastrick skrifar:

Natatorium er íslensk-finnsk framleiðsla og fyrsta mynd Helenu Stefánsdóttur í fullri lengd en hún hefur áður gefið út fjöldann allan af stuttmyndum.

Natatorium fjallar um eina fjölskyldu. Amma Áróra og afi Grímur, leikin af Elínu Petersdóttur og Val Frey Einarssyni, eiga heima í gömlu húsi í Reykjavík. Þau eiga börnin Magnús, Völu og Kalla, leikin af Arnari Dan Kristjánssyni, Stefaníu Berndsen og Jónasi Alfreð Birkissyni. Magnús á dótturina Lilju, leikna af Ilmi Maríu Arnarsdóttur, en hana dreymir um að verða fjöllistakona. Hún er komin til Reykjavíkur til þess að taka þátt í áheyrnarprufum og fær að gista hjá ömmu sinni og afa í gamla ættaróðalinu. Gömlu hjónin eru himinlifandi yfir að hafa hana hjá sér en ekki líður á löngu þar til að í ljós kemur að bæði Vala og Magnús hafa óbeit á því að Lilja gisti í húsinu. Magnús reynir að fá Lilju til þess að flytja aftur út sem fyrst en hann virðist síður en svo vilja koma og sækja hana og eiga þá á hættu á að stíga fæti aftur í hús foreldra sinna. Hann biður því Völu systur sína um að mæta til þeirra og hafa auga með Lilju. Vala er treg til en samþykkir þó að heimsækja heimilið ogí leiðinni fær hún þá að hitta bróður sinn Kalla. Kalli er nefnilega rúmfastur á heimilinu og hefur verið um árabil. Hann er með lungnasjúkdóm og getur varla stigið úr rúminu en móðir hans Áróra sér alfarið um hann. Lækningaaðferðir Áróru virðast þó frekar snúast um að halda Kalla veikum og þurfandi. Undir hlýlegu yfirborði ömmu Áróru er nefnilega eitthvað myrkt og skemmt.

Titill myndarinnar Natatorium gefur vísbendingu um bæði sjónræna og hljóðræna vinnslu myndarinnar, auk þess að vísa í áfallið sem fjölskyldan hefur reynt að gleyma og grafa. Orðið er komið úr latínu og merkir sundhöll. Í kjallara heimilisins er sundlaug sem Áróra heimsækir öll kvöld. Virðist hún vera heltekin af vatninu en í gegnum myndina er gefið til kynna að áfallið hafi eitthvað að gera með óheilbrigða þráhyggju hennar fyrir því. Lilja kemst að því að frænka sín, sem bar einnig nafnið Lilja og var dóttir Áróru og Gríms, lét lífið ung að aldri. Fylgjumst við með því, hvernig koma Lilju, hinnar yngri, inn á heimilið verður til þess að gömul leyndarmál eru grafin upp og fjölskyldusár opnuð að nýju.

Þessi frásögn er ef til vill ekkert alltof nýstárleg hvað varðar efnistök en það sem skilur hana frá öðrum íslenskum kvikmyndum um fjölskylduerjur og áföll, er hljóð- og myndheimur hennar. Það er augljóst að mikil vinna hefur farið í leikmyndina og er heimili fjölskyldunnar eitt fallegasta hús sem ég hef séð í kvikmynd. Alls staðar ráða bláir vatnstónar ríkjum og virðist sem húsið sjálft liggi á hafsbotni. Á veggjunum dansa ljós líkt og þau endurkastist af yfirborði stöðuvatns. Á hljóðrásinni heyrum við í vatni renna og í dropum falla. Tónlistin er hugljúf og róandi en á sama tíma virðist hún gefa til kynna einhverja djúpa sorg. Það sem einkennir Natatorium er hvað hún er falleg og sefjandi. Eins og hafmeyjusöngur þjónar þessi fegurð þó þeim tilgangi að fá persónur sögunnar til þess að ganga, dáleiddar af töfrum hennar, út í opinn dauðann. Það býr flagð undir fögru skinni.

Lilja er ekki meðvituð um fortíð ömmu sinnar en við sem áhorfendur gerum okkur nokkuð fljótt grein fyrir því hvað átti sér stað og í hvað stefnir. Um miðbik myndar eru vísbendingarnar orðnar nógu margar til þess að hægt sé að búast við því hver lokaniðurstaðan muni verða. Í stað þess að spila með væntingar áhorfenda heldur Natatorium sínu striki og verður miðhluti myndarinnar því nokkuð langdreginn. Við fáum að vita hitt og þetta sem dregur upp skýrari mynd af því sem átti sér stað en það vísar þó allt í sama atburðinn. Ráðgátan er leyst en myndin virðist ekki átta sig á því sjálf.

Myndin nær sér þó aftur á strik í atriðinu þegar fjölskyldan hittist öll í mat á æskuheimilinu. Tilefnið er að fagna því hve vel Lilja stóð sig í áheyrnarprufunni. Er þetta í fyrsta skipti sem við sjáum Magnús, föður Lilju, en hann mætir ásamt óléttri konu sinni Írenu, leikinni af Kristínu Pétursdóttur. Um leið er augljóst hvað honum þykir óþægilegt að vera kominn aftur í hús æsku sinnar. Spennan er nær áþreifanleg þegar fjölskyldan sest saman að borða. Í gegnum allt atriðið er spennan byggð upp og þetta óbærilega stóra og áhrifamikla leyndarmál fortíðarinnar virðist ætla að brjóta sér leið upp á yfirborðið. Því er athyglisvert þegar það gerist ekki. Minniháttar rifrildi brýst að vísu út en er ekkert nærri því jafn berskjaldandi og virðist stefna í. Enn er haldið í ráðgátu sem við og allir í fjölskyldunni vitum hver er en hvorki við né þau fáum útrás fyrir að tala um eða horfast í augu við.

Þetta er hægt að túlka sem svo að áfallið sitji enn of djúpt í fjölskyldunni til þess að hægt sé að kafa dýpra í það. Það sem truflar þó er hversu ósamkvæmar sjálfum sér persónur sögunnar virðast stundum vera. Þær virðast stundum taka ákvarðanir í samskiptum við aðrar persónur sem þjóna einungis þeim tilgangi að búa til aðstæður sem henta sögunni, frekar en að það sé í samræmi við hvernig persónan er búin að haga sér hingað til. Það er líka áberandi því þessar manneskjur virðast öðrum stundum vera svo vel mótaðar persónur. Grímur og börn hans, Magnús, Vala og Kalli, reyna öll á mismunandi hátt að hlífa sér við sársauka fortíðarinnar. Við fáum tilfinningu fyrir því að við þekkjum þau og skiljum hvernig þau myndu takast á við krefjandi aðstæður. Sökum þess er svo áberandi þegar þau haga sér á hátt sem jafnframt á ekki við þau og hefur þær beinu afleiðingar að sagan getur farið á dramatískari slóðir. Þetta misræmi ýtir enn frekar undir þá tilfinningu að myndin ætli sér að enda á ákveðinn hátt, sem í raun er búið að kjafta frá um miðbik myndarinnar. Og viti menn, myndin endar á þann veg. Í samhengi skringilegrar hegðunar persónanna er líka vert að taka fram viðbrögð einnar persónunnar í lokin sem er vitni að atburðinum. Eru þau viðbrögð síður en svo trúverðug, og jafnvel stórundarleg, og þjóna þau því svo augljóslega þeim tilgangi að láta lokaskot myndarinnar ganga upp.

Vert er þó að taka fram að leikurinn í myndinni er virkilega sannfærandi og þrátt fyrir að persónusköpunin gangi ekki alltaf upp tekst leikendum að gera þær að trúverðugum manneskjum. Elín Petersdóttir stendur sérstaklega upp úr. Með hálf ósannfærandi brosum og augnaráði sem kemur stundum upp um þann gríðarlega sársauka sem er á bak við það, tekst henni að vera bæði hlýleg og hættuleg á sama tíma. Henni tekst að túlka og leika persónu sína á hátt sem fellur ekki inn í klisjukennda birtingarmynd „geðveiku konunnar.“

Hinn sjónræni líkamshryllingur sem birtist í myndinni er einnig virkilega vel nýttur til þess að vekju upp óhug áhorfenda. Með því að nota hann sparlega verður hann áhrifaríkari þar sem að áhorfendur eru þá óviðbúnir undir hann. Eins og aðrar vísbendingar innan myndarinnar ýjar hann einungis að þeim óhugnaði sem leynist innan veggja heimilisins, óhugnaði sem er umvafinn fegurð þess.

Natatorium tekst því, þrátt fyrir ákveðna vankanta á handritinu, að halda athygli áhorfenda í gegnum myndina. Rétt eins og í tilfelli fyrrnefnds hafmeyjusöngs leiðir hún okkur áfram í gegnum söguna með fegurð og dáleiðandi hughrifum sem narrar okkur undir öldurnar og ofan í djúpið. Það líður þó ekki á löngu þar til við komumst að því að fegurðin breiðir yfir eitthvað sem er ekki allt með felldu. Spurningin verður þá bara hvort við séum tilbúin að njóta fegurðinnar og fljóta með þrátt fyrir það, eða ekki.

HEIMILDRÚV
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR