Ný Edduverðlaun á næsta ári, opnað fyrir innsendingar

Opnað hefur verið fyrir innsendingar til Eddunnar, íslensku kvikmyndaverðlaunanna 2024. Á næstu Edduhátíð verða eingöngu kvikmyndir verðlaunaðar.  Gert er ráð fyrir að sjónvarpsverðlaun verði veitt haustið 2024.

Í tilkynningu frá stjórn Íslensku kvikmynda- og sjónvarpsakademíunnar segir:

BREYTINGAR Á FYRIRKOMULAGI EDDUVERÐLAUNANNA

Fyrir ári síðan tilkynnti stjórn ÍKSA að breytingar yrðu gerðar á Eddunni í þá veru að kvikmyndaverðlaun og sjónvarpsverðlaun yrðu frá og með 2024 afhent í sitt hvoru lagi.

Eddan, íslensku kvikmyndaverðlaunin 2024, mun því eingöngu verðlauna kvikmyndir (bíómyndir, heimildamyndir og stuttmyndir) og þá einstaklinga sem að þeim koma.

Fyrirkomulag sjónvarpsverðlauna verður kynnt innan tíðar, en gert er ráð fyrir að sú verðlaunaafhending fari fram haustið 2024.

Starfsreglur Eddunnar hafa verið uppfærðar og má lesa á slóðinni https://eddan.is/starfsreglur/.

Allir verðlaunaflokkar sem tengjast sjónvarpi munu færast yfir til sjónvarpsverðlaunanna.

NÝIR FLOKKAR

Nýir flokkar eru Heimildastuttmynd ársins, Erlend kvikmynd ársins og Uppgötvun ársins.

Skilgreiningu fyrir Barna- og unglingamynd ársins hefur verið breytt. Verk sem ætluð eru ungum áhorfendum og eru minnst 5 mínútur að lengd. Verkið þarf að vera stakt og getur verið kvikmynd, teiknimynd eða heimildamynd.

Í flokknum Heimildastuttmynd ársins eru heimildamyndir undir 40 mínútum að lengd. Í flokknum Erlend kvikmynd ársins eru þær leiknu kvikmyndir eða heimildamyndir í fullri lengd, 40 mínútur eða lengri sem hafa verið sýndar í íslensku kvikmyndahúsi þar sem almenningi hefur gefist kostur á að mæta að lágmarki í 7 daga. Í flokknum Uppgötvun ársins verða þeir einstaklingar sem ekki hafa hlotið tilnefningu áður í viðkomandi fagverðlaunaflokki. Viðkomandi hafa vakið sérstaka athygli fyrir framúrskarandi framlag á árinu. Stjórn ÍKSA velur tilnefningar hverju sinni líkt og með Heiðursverðlaun ÍKSA.

Reglan um innsendingar til fagverðlauna í verki sem telst erlent hefur verið tekin út þar sem ný regla segir að öll verk sem tilnefnd eru til fagverðlauna verða að vera að meirihluta framleidd af íslenskum fyrirtækjum eða uppfylla skilyrði þeirra samframleiðslusamninga sem Ísland er aðili að (íslenskt framleiðslufyrirtæki minnihluta samframleiðandi).

Þá er framleiðendum nú gert að senda inn “fyrir og eftir” brot vegna innsendinga í flokkinn Brellur ársins. Einnig má nefna varðandi flokkinn Tónlist ársins að frumsamin tónlist verður að nema að minnsta kosti 35% af allri tónlist verksins.

OPIÐ FYRIR INNSENDINGAR TIL EDDUNNAR, ÍSLENSKU KVIKMYNDAVERÐLAUNANNA 2024

Opnað hefur verið fyrir innsendingar kvikmyndaverka fyrir Edduna 2024. Gjaldgeng eru verk sem frumsýnd voru opinberlega á tímabilinu 1. janúar til 31. desember 2023.

Innsendingarferlið er að fullu rafrænt á innsendingarvef Eddunnar. Framleiðslufyrirtæki fylla þar út upplýsingar um viðeigandi verk, greiða innsendingargjald og hlaða verkum upp fyrir Edduvarpið.

Innsendingargjöld eru sem hér segir:

  • Barna- og unglingamynd ársins, Erlend kvikmynd ársins og Kvikmynd ársins er kr. 30.000.
  • Heimildamynd ársins er kr. 20.000.
  • Stuttmynd ársins og Heimildastuttmynd ársins er kr.10.000.
  • Til fagverðlauna er kr. 6.000.

Öll verð eru án vsk.

Frestur til að senda inn verk rennur út á miðnætti mánudaginn 8. janúar, 2024. Strax í kjölfarið hefja valnefndir Eddunnar störf.

Tilnefningar til Eddunnar 2024 verða kynntar 9. febrúar 2024.

Senda inn verk til Eddunnar 2024: http://innsending.eddan.is

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR