Volaða land eftir Hlyn Pálmason hlaut í gær tilnefningu til Film Independent Spirit verðlaunanna í Bandaríkjunum í flokki erlendra mynda ársins. Þetta er í fyrsta sinn sem íslensk kvikmynd er tilnefnd til þessara eftirsóttu verðlauna.
Meðal annarra tilnefndra mynda í flokki erlendra mynda eru Anatomy of a Fall eftir Justine Triet, sem hlaut Gullpálmann í vor og er nú sýnd í Bíó Paradís og The Zone of Interest eftir Jonathan Glazer, sem er nýútkomin og hefur verið að fá frábæra dóma.
Verðlaun verða veitt í Los Angeles þann 25. febrúar næstkomandi.
Lista yfir allar tilnefningar má sjá hér.
Þá hefur Volaða land verið að birtast að undanförnu á mörgun listum ýmissa bandarískra fjölmiðla yfir bestu kvikmyndir ársins og má þar meðal annars nefna Indiewire, The New York Times, Vanity Fair og The Hollywood Reporter.