Svar við bréfi Helgu eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur var valin besta myndin á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Montreal. Myndin fékk einnig verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku, klippingu og tónlist.
Myndin var frumsýnd hér á landi í september 2022. Hún hefur síðan verið sýnd á fjölda hátíða víða um heim, þar á meðal Tallinn Black Nights í Eistlandi, á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Santa Barbara í Bandaríkjunum og á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu í Rúmeníu.
Svar við bréfi Helgu gerist í afskekktum firði á 5. áratug síðustu aldar og segir frá því þegar ástir takast með ungum bónda og konunni á næsta bæ. Þau hefja ástríðufullt, forboðið ástarsamband, og brátt fara tilfinningarnar að flæða jafn hömlulaust og hafið sem umkringir þau. Myndin byggir á samnefndri skáldsögu Bergsveins Birgissonar, sem sló í gegn árið 2010.