Hjónin Gaukur Úlfarsson leikstjóri og Guðrún Olsen framleiðandi heimildamyndarinnar Soviet Barbara ræddu á dögunum við Sigurlaugu Jónasdóttur í þættinum Segðu mér um verkið.
Segir á vef RÚV:
Heimildarmyndin Soviet Barbara: The Story of Ragnar Kjartansson in Moscow var frumsýnd nýverið. Eins og nafnið gefur til kynna er myndlistarmanninum Ragnari Kjartanssyni fylgt til Moskvu þar sem hann opnar yfirlitssýningu í nýju samtímalistasafni. Á safninu frumsýnir hann að auki nýtt verk þar sem sápuóperan Santa Barbara er endursköpuð og flutt af hópi leikara inni á listasafninu. Til stóð að sýningin yrði opin í 100 daga og á hverjum degi yrði heill þáttur tekinn upp en vegna innrásar Rússa inn í Úkraínu var henni hætt fyrr en áætlað var.
Gaukur og Guðrún ræddu dvölina í Moskvu, heimildarmyndina og viðbrögð við henni.
Lengi langað til að gera mynd um Ragga Kjartans
Hjónin Gaukur og Guðrún kynntust á unglingsaldri en samband þeirra hófst ekki fyrr en mörgum árum síðar. Þau reka saman framleiðslufyrirtækið Ofvitann sem framleiddi heimildarmyndina Soviet Barbara: Sagan af Ragnari Kjartanssyni í Moskvu. „Ég var auðvitað búinn að hafa það á bak við eyrað að það væri æðislega gaman að gera mynd um Ragga,“ segir Gaukur.
Þegar hann frétti að til stæði að setja sýningu Ragnars upp í Moskvu stóðst hann ekki mátið. „Svo kemur þetta tækifæri upp. Hann fer á þetta svæði og er þessi ótrúlega frjálsi, létti, hjartahlýi og fyndni listamaður. Það gerir hann stórkostlegan.“ Hann áttaði sig á því að togstreitan milli listamannsins og stjórnvalda í Rússlandi yrði spennandi viðfangsefni í heimildarmynd. „Ég held að Ragga finnist ekkert jafn skemmtilegt og svona krefjandi verkefni þar sem hann þarf að tala í dulmáli. Rússneskir listamenn hafa þurft að gera það og eru meistarar í þessu dulmáli.“
Yndislegt fólk en undirliggjandi samfélagsspenna
Gaukur dvaldi í mánuð í Moskvu með Ragnari, sýningarstjóra hans og meðframleiðendum myndarinnar. Guðrún var með þeim í fimm daga. „Þetta er bara yndislegasta borg sem ég hef komið til,“ segir hún. „Fólkið sem við kynntumst var svo yndislegt og fallegt.“
Þau fundu þó bæði fyrir undirliggjandi spennu í samfélaginu. „Mér finnst ofsalega gaman þegar ég er erlendis að kveikja á ríkissjónvarpinu í því landi eða flakka um sjónvarpið,“ segir Gaukur. „Það var ótrúlegt. Þar byrjuðum við að spotta það pínulítið,“ segir hann. Þótt þau skildu ekki rússnesku töluðu myndirnar sínu máli. „Maður fann að tónninn var að það væri verið að leiðrétta söguna pínulítið.“
Vopnaðir hermenn stóðu vörð um Pútín í heimsókn á listasafn
Sýning Ragnars var opnunarsýning nýs samtímalistasafns í Moskvu í aldargömlu orkuveri sem hefur verið umbreytt í menningarmiðstöð. Vladimir Pútín, forseti Rússlands, heimsótti safnið fyrir opnun þess og skoðaði meðal annars sýningu Ragnars. „Það var mjög sérstök upplifun,“ segir Guðrún. „Það var búið að loka ákveðnum svæðum og hermenn með byssur utan á sér. Fyrir Íslending er þetta svo óvanalegt að maður kann ekkert á þetta.“
„Fyrir okkur Íslendinga er þetta svo brjálæðislega skrítið,“ segir Gaukur. „Alveg sama þótt þú sért þjóðarleiðtogi. Að það sé ritskoðað hvað þú sérð, að það sé fólk í vinnu við að ákveða það. Þetta er skrítinn heimur að búa við.“
Pakkaði öllu saman þegar innrásin hófst
Sum verka Ragnars voru fjarlægð og myndbönd stöðvuð og þannig stýrt hvað Pútín sá á safninu. „Það er svolítið söguþráður myndarinnar að stóru leyti,“ segir Gaukur. Ragnar kom til Rússlands til að setja upp myndlistarsýningu sem spenna í samfélaginu setur sinn svip á. Vinskapur myndast til dæmis á milli Ragnars og félaga í gjörningahópnum Pussy Riot sem hafa búið við ofsóknir rússneskra yfirvalda og fengu nýverið íslenskan ríkisborgararétt.
Um þremur mánuðum eftir að Gaukur og Guðrún komu heim frá Moskvu vöknuðu þau við þær fréttir að Rússar hefðu ráðist inn í Úkraínu. „Um leið og sú atburðarás byrjar er maður mjög fljótur að aðgreina þá sem taka þessar ákvarðanir og það fólk sem maður kynntist,“ segir Gaukur. Daginn sem innrásin hófst ákvað Ragnar að hætta með sýningu sína í Moskvu. „Bara nokkrum klukkutímum seinna var öllu pakkað saman.“
Sterk viðbrögð við myndinni
Viðtökurnar við heimildarmyndinni hafa verið vonum framar. Hún var frumsýnd á heimildarmyndahátíðinni Hot Docs í Toronto í Kanada, sem er stærsta hátíð sinnar tegundar í Norður-Ameríku. „Alltaf þegar ég sit í bíósal og sýni fólki þessa mynd held ég að það standi upp og fari heim,“ segir Gaukur. „En svo situr fólk bara límt og vill fá að vita allt og drekkur þetta í sig.“
„Það eru rosalega sterk viðbrögð eftir að fólk er búið að horfa,“ samsinnir Guðrún. „Þetta er svo marglaga saga að þú getur farið inn í mismunandi lög og verið að pæla.“ Sú spurning sem stendur upp úr hjá flestum varðar fólkið sem kemur fram í myndinni. „Það eru margir að pæla hvort það sé í lagi með allt fólkið. Umhyggja og hugulsemi,“ segir hún.