Kvikmyndaráðgjafi úrskurðaður vanhæfur vegna hagsmunatengsla, ákvörðun um synjun styrks felld úr gildi

Í kjölfar kæru úrskurðaði mennta- og menningarmálaráðuneytið árið 2020 að ákvörðun Kvikmyndamiðstöðvar um að synja framleiðanda kvikmyndar um eftirvinnslustyrk árið 2018 skyldi felld úr gildi. Einnig var kvikmyndaráðgjafi verkefnisins úrskurðaður vanhæfur á grundvelli stjórnsýslulaga. Úrskurðurinn var fyrst opinberaður á dögunum og má lesa hér í heild sinni.

RÚV greinir frá málinu:

Mennta- og menningamálaráðuneytið úrskurðaði kvikmyndaráðgjafa Kvikmyndamiðstöðvar vanhæfan vegna fjárhagslegra hagsmuna til þess að sýsla með ákvörðun tengda beiðni um eftirvinnslustyrk kvikmyndar sem var framleidd hér á landi. Þá var synjun Kvikmyndamiðstöðvarinnar snúið við, meðal annars vegna þess að ekkert benti til þess að forstöðumaður sjóðsins hefði komið að ákvörðuninni.

Úrskurðurinn féll árið 2020 en var birtur opinberlega í upphafi mánaðarins.

Forsvarsmenn myndarinnar, sem er ekki nefnd á nafn í úrskurðinum, kærðu ákvörðun kvikmyndasjóðs um synjun á eftirvinnslustyrk Kvikmyndasjóðs árið 2017 [2018], en slíkir styrkir geta numið umtalsverðum upphæðum.

Fóru forsvarsmenn myndarinnar annarsvegar fram á að úrskurðurinn um synjun væri felld úr gildi og svo að kvikmyndaáðgjafinn yrði úrskurðaður vanhæfur.

Forstöðumann hvergi að finna

Þegar kom að fyrra kæruefninu féllst úrskurðarnefnd á að fella úr gildi synjunina, meðal annars á þeim forsendum að í gögnum málsins var hvergi að sjá að forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar hefði tekið ákvörðun um synjun á umsókn framleiðandanna.

Þá segir orðrétt í úrskurðinum: „Forstöðumaður Kvikmyndamiðstöðvar skrifar ekki undir ákvörðun um synjun og kemur nafn forstöðumanns hvergi fyrir í bréfi til kæranda“.

Nokkru síðar má finna eftirfarandi klausu: „Eðli málsins samkvæmt er það lágmarkskrafa að forstöðumaður sem taka á endanlega ákvörðun skrifi undir ákvarðanir á grundvelli stöðu sinnar og umboðs. Aðili máls hefur að öðrum kosti enga leið að vita að forstöðumaður hafi tekið hina endanlegu ákvörðun og lögum verið fylgt“.

Kvikmyndaráðgjafinn ekki hrifinn

Þá er ekki síst áhugaverð sú niðurstaða að úrskurða kvikmyndaráðgjafa Kvikmyndamiðstöðvar vanhæfan. Svo virðist sem Kvikmyndaráðgjafinn hafi ekki þótt mikið til umræddrar kvikmyndar og sagði meðal annars um myndina í umsögn sinni að höfundum hafi ekki tekist að skapa sannfærandi og sjálfstæðan söguheim. Né hafi höfundi að mati ráðgjafans tekist að sýna þróun eða dýpt í samskiptum lykilpersóna. Þá sagði ennfremur að efnistök myndarinnar væru talin ófrumleg og staðfærslan hvorki nógu sannfærandi eða nýstárleg og verkefnið ekki talið til þess fallið að jafna hlut kynjanna.

Í vörnum Kvikmyndamiðstöðvar er upplýst að kvikmyndaráðgjafinn sé í fyrirsvari fyrir félögin Sumarmál ehf. og Ljósband ehf. og eigi helmingshlut í því síðarnefnda.

Kvikmyndaráðgjafinn hafði hagsmuni að gæta

Í úrskurðinum kemur fram að kvikmyndaráðgjafinn sé skráður stjórnarformaður tveggja félaga innan kvikmyndaiðnarins. Annað fyrirtækjanna hafði fengið kyningarstyrk frá Kvikmyndasjóði auk þess sem annar fyrirsvarsaðili félaganna tveggja og fyrrum aðalframleiðandi tveggja kvikmynda við hlið kvikmyndaráðgjafans – fékk þróunarstyrk og vilyrði fyrir eftirvinnslustyrk fyrir eitt verkefna sinna á meðan umsókn kæranda var til meðferðar.

Í úrskurðinum segir að með hliðsjón af gögnum málsins, ákvæðum reglugerðar um Kvikmyndasjóð og stjórnsýslulögum verður að telja hagsmuni og tengsl kvikmyndaráðgjafans það veigamikil að þau leiði til þess að hann teljist vanhæfur.

Var því ákveðið að snúa ákvörðunini, og synjun Kvikmyndamiðstöðvar felld úr gildi.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR