Morgunblaðið hefur birt klippu þar sem sýnt er frá tökum á kvikmyndinni Villibráð.
Segir á mbl.is:
Kvikmyndin Villibráð hefur heldur betur slegið í gegn frá því hún var frumsýnd í upphafi árs og mikið smjattað á henni á kaffistofum landsins. Kvikmyndin var tekin upp í fyrra á 30 dögum og eins og gengur og gerist við tökur á kvikmyndum er eitt og annað sem kemur upp á við gerð þeirra.
Leikmynd kvikmyndarinnar hefur þegar vakið mikla athygli en Smartland fjallaði ítarlega um hönnun og gerð hennar á dögunum. Nú er skyggnst enn betur á bakvið tjöldin í þessari umtöluðustu mynd ársins 2023 en Heimir Sverrisson gerði leikmyndina ásamt fleirum.
Elsa María Jakobsdóttir leikstýrði myndinni og skrifaði handritið ásamt Tyrfingi Tyrfingssyni leikskáldi. Með stærstu hlutverk fara Aníta Briem, Björn Hlynur Haraldsson, Gísli Örn Garðarsson, Hilmar Guðjónsson, Hilmir Snær Guðnason, Nína Dögg Filippusdóttir og Þuríður Blær Jóhannsdóttir.
Myndin er framleidd af Þóri Snæ Sigurjónssyni, Ragnheiði Erlingsdóttur og Arnari Benjamín Kristjánssyni fyrir Zik Zak kvikmyndir í samstarfi við Scanbox Entertainment. Villibráð er endurgerð af ítölsku verðlaunakvikmyndinni Perfetti Sconoscuti eða Perfect Strangers, sem kom út árið 2016. Myndin hefur verið endurgerð átján sinnum og komst hún því í Heimsmetabók Guinness.