Napóleonsskjölin var frumsýnd á föstudag og er í fyrsta sæti á aðsóknarlista FRÍSK. Villibráð kemur fast á eftir.
5,192 gestir sáu Napóleonsskjölin um helgina, en alls 6,692 með forsýningum. Þetta er ögn minni opnun en hjá Villibráð í upphafi árs. Á opnunarhelgi síðustu bíómyndar Óskars Þórs, Ég man þig (2017) komu 6,203 gestir (7,728 með forsýningum). Ekki er ólíklegt að Napóleonsskjölin nái 40 þúsund gesta markinu.
Villibráð er enn á fullri siglingu eftir fimmtu helgi. 7,237 gestir sáu myndina í vikunni (3,662 um helgina), en alls nemur heildarfjöldi gesta 39,571 eftir fimmtu sýningarhelgi. Líklegt verður að teljast að myndin nái langleiðina að 50 þúsund gestum þegar upp er staðið.
Afar sjaldgæft er að íslensk aðsóknarmynd komi í kjölfar annarrar slíkrar. Þó gerðist það 2020, þegar Amma Hófí tók við af Síðustu veiðiferðinni, en báðar fengu mjög góða aðsókn.
Glöggir lesendur taka sjálfsagt eftir því að heildaraðsókn á Villibráð er hærri en á Napóleonsskjölin, en það skýrist af því að FRÍSK raðar á listann eftir tekjum helgar meðan Klapptré raðar eftir aðsókn vikunnar.
Aðsókn á íslenskar myndir 30. jan. – 5. feb. 2023
VIKUR | MYND | AÐSÓKN (SÍÐAST) | ALLS (SÍÐAST) |
5 | Villibráð | 7,237 (8,140) | 39,571 (32,334) |
Ný | Napóleonsskjölin | 5,192 (helgin) | 6,692 (með forsýningum) |
(Heimild: FRISK – Theatrical Box Office Reports Iceland)