Nýtt líf eftir Þráinn Bertelsson hefur fengið nýtt líf í formi nýrrar stafrænnar endurvinnslu. Hún kemur aftur í kvikmyndahús 30. nóvember.
Nýtt líf var frumsýnd 1983 og náði gríðarlegum vinsældum á sínum tíma. Myndin hefur verið landsmönnum hjartfólgin síðan og nýjar kynslóðir hafa kynnst henni gegnum myndbandstæki og sýningar í sjónvarpi. Sá galli hefur þó fylgt að upprunaleg yfirfærsla á myndband er löngu úr sér gengin og var kannski aldrei neitt sérlega góð. Þráinn hefur til dæmis mótmælt sýningum á myndinni, meðal annars vegna þessa. En nú hefur verið úr því bætt.
Í Nýju lífi sigla Þór og Danni (Karl Ágúst Úlfsson og Eggert Þorleifsson) undir fölsku flaggi og ráða sig í vinnu hjá stærsta fiskvinnslufyrirtækinu í Eyjum. Þar kynnast þeir skrautlegum karakterum eins og Víglundi verkstjóra („Þú ert kallaður „Lundi“ er það ekki?“), bónusvíkingnum Axel, ungfrú Snæfells- og Hnappadalssýslu, Maríu Lundadóttur, skipstjóranum hjátrúarfulla og fjölmörgum öðrum ógleymanlegum persónum.
Myndin er sýnd í Bíó Paradís í nýrri stafrænni útgáfu á vegum Bíóteks Kvikmyndasafns Íslands. Sérstök hátíðarsýning verður 30. nóvember kl. 19, en myndin fer síðan í almennar sýningar.