Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson verður heimsfrumsýnd á Tallinn Black Nights hátíðinni í Eistlandi 19. nóvember. Frumsýning á Íslandi verður í febrúar næstkomandi.
Þegar móðir Jóns og hans mesti áhrifavaldur fellur frá verða alger umskipti í lífi hans. Með uppáklætt líkið í aftursætinu og hundinn Brésnef við hlið sér tekst hann á hendur ferð þvert yfir landið til að heiðra hennar síðustu ósk. En mamma hefur ekki sagt sitt síðasta.
Myndin er íslensk/eistnesk samframleiðsla og með aðalhlutverk fara Þröstur Leó Gunnarsson, Kristbjörg Kjeld, Hera Hilmarsdóttir og Tómas Lemarquis.
Hlín Jóhannesdóttir framleiðir fyrir Ursus Parvus en meðframleiðandi er Marianne Ostra fyrir Alexandra Film í Eistlandi.
Alief selur myndina á heimsvísu.