Kjartan Þór Þórðarson forstjóri Sagafilm Nordic, ræðir niðurskurðinn á Kvikmyndasjóði á Fésbókarsíðu sinni og er ómyrkur í máli.
Kjartan skrifar:
Það er afar ánægjulegt að sjá að stjórnvöld á Íslandi geri sér ferð til Hollywood að kynna eflingu á skapandi greinum á Íslandi. Það skýtur þó skökku við að á sama tíma og ráðherra menningarmála Lilja D. Alfreðsdottir kynnir þessi góðu tíðindi fyrir erlendum kaupendum þá kynnti fjármálaráðherra Bjarni Benediktsson fjárlög fyrir 2023 þar sem grunnstoð íslenskrar sjónvarps og kvikmyndagerðar er skorin niður um þriðjung, þvert á ný birta Kvikmyndastefnu ráðuneytisins til ársins 2030.
Ef þessi grunnstoð er ekki fyrir hendi þá verður enginn kvikmyndaiðnaður til að takast á við verkefni eins og greinin hér fyrir neðan fjallar um. Sigurður Ingi Jóhannsson formaður Framsóknarflokksins talaði um í kosningabaráttu sinni að hægt væri að fimmfalda kvikmyndaiðnaðinn á Íslandi á næstu 5 árum, það er rétt hjá Sigurði Inga og iðnaðurinn er tilbúinn til að byggja upp og láta þessa spá verða að veruleika með því að fjárfesta í kvikmyndaverum og öðrum innviðum til þess að einfaldlega geta tekist á við verkefni af þeirri stærðargráðu sem greinin fjallar um, en það verður klárlega ekki gert með þriðjungs niðurskurði á Kvikmyndasjóði sem er grunnstoð iðnaðarins og skapar ALLAR aðrar tekjur iðnaðarins.
Ég treysti því og trúi að ríkisstjórn Íslands muni leiðrétta þessa hörmulegu aðgerð og koma í veg fyrir algert hrun á framleiðslu íslensks efnis á íslensku. Enginn iðnaður getur þrifist ef fólkið sem í honum starfar þarf að berjast fyrir tilverurétti sínum á hverju ári sem stjórnvöld birta fjárlög, því miður hefur þetta verið raunin í tilfelli kvikmyndaiðnaðarins svo lengi sem ég hef í honum starfað eða í yfir 30 ár, ég er enn og aftur miður mín vegna þess skilningsleysis sem okkur er sýnt ár eftir ár.