Fréttablaðið skrifar um 35% endurgreiðsluna og niðurskurð Kvikmyndasjóðs

„Vonandi verður hægt að finna gistingu handa öllum,“ segir Garðar Örn Úlfarsson í leiðara Fréttablaðsins um fyrirhugað kvikmyndastórverkefni og hækkun á endurgreiðslu. Hann bætir við: „Að minnsta kosti verða kvikmyndagerðarmenn sem eru að taka upp íslenskt efni ekki að þvælast jafn mikið fyrir og áður því framlag ríkisins í Kvikmyndasjóð til þeirra verður lækkað um 433 milljónir króna á næsta ári og verður 1.095 milljónir.“

Garðar skrifar:

Vasar ríkissjóðs standa nú opnir því sem næst hverjum þeim kvikmyndaframleiðanda sem nennir að gera bíó á Íslandi. Kaupi hann vörur og þjónustu hér á landi fær hann allt að 35 prósenta afslátt af öllum þeim viðskiptum – í boði íslenskra skattgreiðenda. Þetta fyrirkomulag þýðir til að mynda að vegna gerðar nýrra bandarískra glæpaþátta, sem reyndar eiga að gerast í Alaska en verða teknir upp hér, mun hið erlenda fyrirtæki geta sent reikning upp á 3.150 milljónir króna til íslensku þjóðarinnar. Sú upphæð er 35 prósent af 9 milljörðum sem Bandaríkjamennirnir eru sagðir áætla að eyða í okkar gjafmilda landi.

Þakklæti kvikmyndagerðarmanna er mikið enda keppast þeir við að mæra stjórnvisku valdhafanna. Með þessari risavöxnu vítamínsprautu segja þeir atvinnugreinina munu stóreflast.

Sú þáttagerð sem fyrr var nefnd er sögð munu skapa allt að 400 störf fyrir Íslendinga á meðan á verkefninu stendur. Þetta fólk muni greiða skatta af sínum launum og ríkissjóður bólgna út. Það er þakkarvert að þessi hópur greiði launaskatta eins og allir aðrir en betra væri þó ef til vill að allt það fé rynni ekki margfalt aftur í vasa þeirra sem borguðu launin upphaflega.

Hinar hressilegu niðurgreiðslur á Íslandi eiga sem sagt að efla kvikmyndaiðnaðinn hér til framtíðar í samkeppni við aðrar þjóðir. Er að heyra að tekist hafi að skapa eilífðarvél sem þarf enga utanaðkomandi orku – nema náttúrlega þetta lítilræði úr ríkissjóði. Rúsínan í pylsuendanum er þó landkynningin er sagt. Erlendar stórstjörnur muni tala hlýlega um Ísland í vinsælum spjallþáttum úti í löndum og náttúran auðvitað selja sig sjálf á sjónvarpsskjáum um víða veröld. Enn fleiri útlendingar muni flykkjast hingað til að sjá Íslendingum bregða fyrir á túnbleðlum eins og álfum út úr hól.

Vonandi verður hægt að finna gistingu handa öllum. Að minnsta kosti verða kvikmyndagerðarmenn sem eru að taka upp íslenskt efni ekki að þvælast jafn mikið fyrir og áður því framlag ríkisins í Kvikmyndasjóð til þeirra verður lækkað um 433 milljónir króna á næsta ári og verður 1.095 milljónir.

Allt mun þetta fjárhættuspil jafnvel blessast þótt enginn viti það svo sem enn auðvitað. Það kemur kannski í ljós er óháður aðili á vegum menningarmálaráðherra mun skila úttekt á hagrænum áhrifum og samfélagslegum ávinningi af dæminu. Sú niðurstaða á að liggja fyrir að rúmum tveimur árum liðnum og að horfnum óvissum fjölda milljarða króna úr sameiginlegum sjóðum þjóðarinnar.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR