Í nýframlögðu fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023 er gert ráð fyrir miklum niðurskurði á framlögum til kvikmyndagerðar frá fyrra ári. Þá virðist ekki gert ráð fyrir mikilli aukningu í endurgreiðslum á næsta ári.
Í tilkynningu frá Kvikmyndamiðstöð Íslands segir:
Í fjárlagafrumvarpi fyrir árið 2023, sem fjármála- og efnahagsráðherra kynnti 12. september, er boðaður niðurskurður á fjárheimildum til bæði Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóðs.
Fjárhæðir í m.kr. | ||||
2022 | 2023 | Mism | Mism% | |
Kvikmyndamiðstöð | 151,5 | 101,0 | -50,5 | -33,3% |
Kvikmyndasjóður | 1.527,0 | 1.093,9 | -433,1 | -28,4% |
Til ráðstöfunar | 1.678,5 | 1.194,9 | -483,6 | -28,8% |
Samkvæmt frumvarpinu lækkar fjárheimild Kvikmyndamiðstöðvar og Kvikmyndasjóðs alls um 483,6 m.kr milli ára, sem er niðurskurður um 28,8% samanborið við framlög 2022.
Fjárlagafrumvarpið gerir ráð fyrir 1.093,9 m.kr. framlögum til Kvikmyndasjóðs árið 2023. Það er 433,1 m.kr. lækkun frá fyrra ári þegar fjárheimildir numu 1.527,0 m.kr.
Gert er ráð fyrir 101,0 m.kr. framlagi til reksturs Kvikmyndamiðstöðvar 2023, það er lækkun um 50,5 m.kr. miðað við fyrra ár, þar sem gert var ráð fyrir 151,5 m.kr.
Þvert á kvikmyndastefnu 2020-30
í Kvikmyndastefnu 2020-30, sem lögð var fram fyrir tveimur árum, stendur eftirfarandi á bls 15:
Aðgerð 1. Sterkara sjóðakerfi sem styður við fjölbreyttari kvikmyndaverk
a. Kvikmyndasjóður efldur
Fjárframlag til sjóðsins hækki með áherslu á stuðning við handritsgerð og fjölbreytni í þróun og framleiðslu kvikmyndaðs efnis svo sem stutt- og heimildamynda, listrænna og sögulegra kvikmynda og kvikmyndaðs efnis fyrir börn og unglinga. Úthlutunarrammi Kvikmyndasjóðs verði skilgreindur árið 2020 og úthlutað á grundvelli nýrra viðmiða frá vorinu 2021.
Ábyrgð: Mennta og menningarmálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Tímaáætlun: Vorið 2021.
b. Nýr fjárfestingarsjóður sjónvarpsefnis
Fjárfestingarsjóður er ný leið í sjóðakerfi menningar og skapandi greina á Íslandi og kemur til móts við nýja tíma sem einkennast af hröðu þróunar- og fjármögnunarferli verkefna. Sjóðurinn verður rekinn að fyrirmynd Norræna kvikmynda- og sjónvarpssjóðsins og honum er ætlað að ýta undir framleiðslu, sölu og dreifingu leikinna sjónvarpsþáttaraða. Arður af endurgreiðslum verður nýttur til frekari fjárfestinga á þessu sviði. Gert er ráð fyrir að sjóðurinn fjárfesti í allt að þremur þáttaröðum á ári fyrst um sinn, en í náinni framtíð gæti framleiðslugetan orðið allt að tíu til tólf þáttaraðir á ári.
Ábyrgð: Mennta- og menningarmálaráðuneyti og Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Tímaáætlun: Vorið 2021.
Endurgreiðslan fær lítilsháttar hækkun
Fyrir fáeinum dögum kynnti menningarmálaráðherra á vef Stjórnarráðsins að væntanleg væri hingað stór þáttaröð á vegum HBO sem myndi koma með um níu milljarða króna inn í landið. Hin nýframkomna og skilyrta 35% endurgreiðsla af þeirri upphæð nemur 3.150 milljónum króna. Í fjárlagafrumvarpinu er gert ráð fyrir að endurgreiðslur vegna kvikmyndagerðar verði 1.724 mkr. á næsta ári.
Ljóst er að skilyrðin varðandi 35% endurgreiðslu eru miðuð við stærri verkefni (yfir 350 milljónum króna). Meirihluti innlendra kvikmyndaverkefna nær ekki að uppfylla þessi skilyrði og verða því áfram í 25% endurgreiðslunni.
Heimildir Klapptrés herma að kvikmyndaframleiðendum sé tjáð þessa dagana að fjármagn vegna endurgreiðslna 2022 sé uppurið og greiðslur verði að bíða. Óvissa ríkir um hvenær greiðslur verði inntar af hendi. Fylgir að ýmsir séu að lenda í aukakostnaði og tilheyrandi vandræðum vegna þessa.
Hér að neðan eru tölur úr fjárlagafrumvarpinu um þá þætti sem lúta að stuðningi við kvikmyndagerð. Sjá má að flest sætir verulegum niðurskurði.