Líkt og venjulega koma heimildamyndirnar á Skjaldborgarhátíðinni úr öllum áttum og því sjaldan hægt að tala um að tiltekið þema sé ríkjandi. Nú brá hinsvegar svo við að verk sem byggja á safnaefni voru nokkuð áberandi, en nálgun var á ýmsa vegu.
Nelly & Nadine
Skapandi meðferð safnaefnis var til dæmis ráðandi í myndum heiðursgestsins, hins sænska Magnus Gertten. Mynd hans Nelly & Nadine var opnunarmynd hátíðarinnar. Þar er rakin ástarsaga samnefndra kvenna sem felldu hugi saman á aðfangadag árið 1944 í Ravensbrück útrýmingarbúðunum. Eftir aðskilnað og að stríði loknu hittast þær aftur og eru saman það sem eftir er ævinnar. Þetta er afar áhugaverð saga, ekki síst vegna töluverðs 8mm myndefnis af persónulegum toga sem og ljósmynda, auk frábærrar opnunarsenu þar sem stór hópur fólks úr útrýmingarbúðum kemur með skipi til Svíþjóðar. Myndin er afar áferðarfalleg. Gertten velur hinsvegar að láta dótturdóttur Nellyar vera í framlínu framvindunnar, hún er að rifja upp þessa sögu sem og glugga í ýmiskonar skjöl sem hún hefur hingað til verið treg að skoða af tilfinningalegum ástæðum. Vandinn er að mest af þessu er ekki ýkja áhugavert í samanburði við dramatíska og heillandi sögu Nellyar og Nadine. Saga þeirra er hið stóra drama og afar forvitnileg, en er aðeins um þriðjungur verksins eða svo. Myndin er því of löng og ekki bætir úr skák að hún virðist enda a.m.k. þrisvar, eða kannski var það bara ég að bíða eftir kreditlistanum.
Safnefni er einnig útgangspunktur í annarri mynd Gertten, Every Face Has a Name, sem sýnd var á hátíðinni en ég missti því miður af. Segir í kynningu hátíðarinnar um myndina:
Þann 28. apríl 1945 stigu hátt í tvö þúsund manns á land í Malmö eftir dvöl í útrýmingarbúðum nasista. Fest var á filmu þegar skipin lögðu að höfn og fólkið steig á land í nýfundið frelsið. Um borð voru liðsmenn úr norsku andspyrnuhreyfingunni, pólskar mæður með hvítvoðunga, breskir njósnarar og gyðingar, börn, ungmenni og roskið fólk. Í verkinu leggur Magnus Gertten upp í þá vegferð að finna fólkið á myndunum, ljá þeim rödd og tengja við persónu nafnlausra andlitanna. Þegar fólkið horfir á myndefnið í fyrsta sinn upplifir það aftur tilfinninguna um frelsið, óöryggið, ringulreiðina og hamingjuna á þessum örlagaríka degi í lífi þeirra. Sögum þeirra er skeytt saman við hliðstæðar sögur nafnlausra flóttamanna okkar tíma sem koma að landi á Sikiley árið 2014.
Börn kvótakerfisins
Myndin samanstendur af vídeóuptökum tveggja unglingsstúlkna, Bjargar Sveinbjörnsdóttur og Kolbrúnar Schmidt, sem ræddu við jafnaldra sína um stemmninguna á Suðureyri í Súgandafirði í febrúar 1995. 27 árum síðar hefur Björg klippt úr þessu stutta og snaggaralega mynd sem er allt í senn, hversdagsleg, fyndin og hugljúf. Flestir krakkanna eru bara nokkuð sátt við lífið í plássinu, en mörgum finnst ekki mikið til félagslífsins koma. Einhverjir vilja alls ekki láta taka við sig viðtal en kvikmyndagerðarkonurnar láta þau ekki komast upp með neitt múður. Helstu stofnanir bæjarins eru teknar út og einn og einn fullorðinn slæðist með. Kvótakerfið kemur ekki beinlínis við sögu en er yfir og allt um kring, þetta er svona fylgimynd við Verbúðina.
Flökkustjarna
Þessi stutta heimildamynd Ara Allanssonar byggir einnig á notkun safnefnis að einhverju leyti. Hún byggir á hugleiðingum Elsa Izquierdo stjörnuspekings í París, þar sem Ari hefur búið og starfað um árabil. Noktun safnefnis sem og eigin efnis býr til ágætis hughrif um leið og Izquierdo ræðir leyndardóma stjörnuspekinnar, sem gerir ráð fyrir að stjörnur, plánetur, og önnur fyrirbæri himingeimsins, hafi merkingu og áhrif á líf fólks og viðburði á jörðu.
Ísland á filmu
Kvikmyndasafnið var með sterka nærveru á hátíðinni og þaðan voru mætt Ester Bíbí Ásgeirsdóttir, Jón Stefánsson og Gunnar Tómas Kristófersson. Þau kynntu vefinn Ísland á filmu, þar sem finna má margskonar efni úr fórum safnsins og einnig sýndu þau gamalt efni frá Patreksfirði og nágrenni sem tekið var upp af ýmsum forgöngumönnum heimildamyndagerðar á Íslandi, meðal annars Kjartani Ó. Bjarnasyni, Hannesi Pálssyni og Vigfúsi Sigurgeirssyni. Allt var þetta bæði fróðlegt og skemmtilegt.
Fjársjóðir á filmu með Ara Eldjárn
Ari Eldjárn sýndi ýmiskonar efni af filmu úr sarpi sínum, en hann hefur um árabil haft mikla ástríðu fyrir bæði filmuupptökum sem hann framkallar sjálfur sem og söfnun efnis. Þarna voru bæði hans eigin fjölskyldumyndir sem og efni sem hann hafði fundið og átti að henda. Reyndist þar komið bakvið tjöldin efni frá gerð auglýsinga fyrir Auglýsingastofu Kristínar á níunda áratuginum sem og skot úr sömu auglýsingum, mest frá Mjólkursamsölunni. Ari var sjálfur sögumaður yfir hljóðlausu efninu og hríslaðist nostalgían um áhorfendur milli hlátraskalla. Ari slúttaði einnig hátíðinni með gargandi fyndnu uppistandi.
Hvunndagshetjur
Ein þeirra þriggja mynda sem frumsýndar voru í fyrra en ákveðið var að sýna nú vegna þess að hátíðin 2021 féll niður vegna Covid. Magnea Björk Valdimarsdóttir fær fjórar konur frá Bosníu, Jamaíku, Póllandi og Tyrklandi, sem eiga það sameiginlegt að hafa búið á Íslandi í tuttugu ár, til að segja sögu sína. Þetta er ágætt fyrir sinn hatt, konurnar hafa allar frá einhverju að segja, en þessi viðtalsmynd nær ekki að hefja sig til flugs, jafnvel þó ein þeirra lýsi stuttlega reynslu sinni af stríðinu í Bosníu. Hefði verið fínt innslag í sjónvarpsþætti eins og til dæmis Landanum en skortir slagkraft sem sjálfstætt verk.
Sundlaugasögur
Öðru máli gegnir um þessa mynd Jóns Karls Helgasonar, sem einmitt fjallar um afar hversdagslegt efni, sundlaugar og fólkið sem sækir þær víðsvegar um landið. Jón Karl nær í gegnum skýrt hugsaða myndræna frásögn, sem heldur sér mjög vel þrátt fyrir að tökur hafi farið fram á sjö ára tímabili, að segja sögu um afar hvunndagslegan þátt í lífi margra Íslendinga sem grípur mann bæði í endurtekningunni en um leið í fjölbreyttri nálgun. Í fyrstu spyr maður sig um aðferðina og afhverju verið er að segja þessa sögu, en smám saman nær frásögnin valdi yfir manni. Hinn reglubundni taktur heillar og fram sprettur fjölbreytilegt fólk í sinni morgunandakt eða annarri styrkingu yfir daginn. Hann nær líka að draga fram fegurð sundlauganna, ekki síst með hnitmiðaðri notkun á loftmyndum, þannig að þær teiknast upp sem einskonar vinjar eða uppspretta kraftbirtingar gegn öllu því sem lífið kastar framan í okkur. Tvímælalaust ein áhugaverðasta mynd hátíðarinnar.
Móses í mynd
Moses Hightower er mikil ágætis hljómsveit. Hér hefur Helgi Jóhannsson dókumenterað þá félaga og músiksköpun þeirra, að undirlagi hljómsveitarinnar. Mest ræða þeir sjálfa sig og hvorn annan, en spjalla einnig um tónlistina, áhrif og einstök lög. Inn á milli sjáum við þá spila og allt er það ljómandi fínt. Myndin líður hinsvegar nokkuð fyrir skort á sjálfstæðri sýn höfundar, virkar dálítið eins og prómó efni sem útgáfan (hljómsveitin) hefur pantað. Útkoman er dálítið flöt.
Thinking About the Weather
Garðar Þór Þorkelsson er nýútskrifaður úr heimildamyndadeild The National Film and TV School í Bretlandi og þetta er útskriftarverk hans. Garðar velur áhættusama aðferð, að setja sjálfan sig í miðju frásagnar sem sögumann með afgerandi skoðun. Hann hefur áhyggjur af loftslagsmálum og yfirvofandi katastrófu. En það er húmorískur tónn í þessu hjá honum. Hann fer til marflatrar eyju á Orkneyjum og spyr eyjarskeggja hvort þeir séu ekki áhyggjufullir yfir ástandinu þar sem eyjan hljóti að fara í kaf hvað úr hverju. Eyjarskeggjar eru ekki svo stressaðir, þó full ástæða virðist til. Í Wales hittir hann fólk sem hefur orðið að hörfa aðeins frá ströndinni vegna ágangs sjávar. Þau eru aðallega pirruð yfir því að vera kölluð loftslagsflóttamenn og finnst að sér vegið. Loks finnur hann ungt fólk sem mótmælir ástandinu og vill breytingar strax. Í mótmælahasar hittir hann konu sem hefur límt sig á götuna og fer mikinn. Heildarupplifunin af myndinni er nokkurnveginn þessi: Er allt að fara til andskotans? -Já. Er einhver von um að þetta reddist? – Kannski. Og þó. Myndin hlaut hvatningarverðlaun dómnefndar, sem sagði um verkið: “Myndin nær að kjarna viðfangsefnið á fyndinn, skapandi, einstakan, og jafnframt absúrd máta. Hér er á ferðinni sterk höfundarrödd og dómnefndin vill hvetja þessa rödd til frekari verka.” Sammála.
Tídægra
Ein þeirra þriggja mynda sem frumsýndar voru í fyrra en ákveðið var að sýna nú vegna þess að hátíðin 2021 féll niður vegna Covid. Sá þessa mynd Andra Snæs Magnasonar og Anníar Ólafsdóttur í fyrra. Einhverskonar tilraun til að grípa stemmninguna í heimsfaraldrinum, hvað þýðir svona ástand og hvernig getur mannskepnan brugðist við? Listamenn velta vöngum yfir stöðunni og sumir performera, einnig birtast heimspekingar með sín sjónarmið. Allt eru þetta ágætar pælingar út af fyrir sig og ýmis myndskeið grípandi, en þegar upp er staðið er þetta dálítið eintóna og flatt.
Hækkum rána
Ein þeirra þriggja mynda sem frumsýndar voru í fyrra en ákveðið var að sýna nú vegna þess að hátíðin 2021 féll niður vegna Covid. Guðjón (Jonni) Ragnarsson hefur hér gert mikla stemmningsmynd. Körfuboltaþjálfarinn Brynjar þjálfar ungar stúlkur á aldrinum 8-13 ára. Útgangspunktur hans er að blása þeim baráttuanda í brjóst með því að kenna þeim að takast á við veikleika sína, hvort heldur líkamlega eða hvað varðar hugarfar, í stað þess að gefa eftir eða jafnvel gefast upp fyrir þeim. Hann getur verið harður en maður skilur hversvegna – og skynjar einnig að stelpurnar skilja hvað hann er að fara. Dramað hverfist í kringum þá hugmynd að þær eigi að fá að keppa við stráka, út frá því að stelpur og strákar hafi svipað líkamlegt atgervi fram til unglingsára. Hugmyndinni er fálega tekið hjá ráðamönnum körfuboltans. En Brynjar og stelpurnar eru ekki hættar. Þegar þær vinna Íslandsmeistaratitilinn í sínum flokki heldur ein þeirra mótmælaræðu og síðan fjarlægja þær verðlaunapeninga sína allar sem ein. Uppi verður fótur og fit hjá foreldrum sumra. Þetta er haganlega samansett frásögn með skýrri uppbyggingu og mörgum sterkum sjónrænum augnablikum. Ein sterkasta mynd hátíðarinnnar og hlaut dómnefndarverðlaunin, Ljóskastarann.
Velkominn Árni
Þessi afar krúttlega og hjartnæma mynd eftir Viktoríu Hermannsdóttur og Allan Sigurðsson byggir á klassísku sagnaminni, leitinni að upprunanum. Íslensk fjölmiðlakona (Viktoría) kemst að því að Bandaríkjamaður á besta aldri leitar mögulegs hálfbróðurs síns á Íslandi, enda var faðir mannsins hér á stríðsárunum. Eftir smá eftirgrennslan finnst hálfbróðirinn, Árni Jón, kominn á áttræðisaldur. Færist þá frásögnin yfir til hans, við fáum að kynnast lífi hans sem er fábreytt og dálítið einmanalegt, þó Árni virðist sæmilega sáttur við sitt hlutskipti. Hann tekur tíðindunum með ró og ameríski bróðirinn, David, kemur í heimsókn ásamt eiginmanni sínum. Verða fagnaðarfundir og er Árna síðan boðið til San Fransisco að hitta nýju fjölskylduna. Þar er honum tekið með kostum og kynjum. Allt er þetta leikandi ljúft en smá babb kemur í bátinn þegar fyrstu niðurstöður erfðarannsóknar sýna mikla óvissu um tengsl þeirra Árna og David. Til að spilla ekki dramatíkinni fyrir þeim sem eiga eftir að horfa skal þráðurinn ekki rakinn lengra. Fín frásögn um afar elskulegt fólk, smá kökkur kemur í hálsinn og höfundar finna húmor og gleði í smáum augnablikum. Hefði mátt vera aðeins styttri en það kemur ekki mjög að sök. Myndin bræddi hjörtu áhorfenda á Skjaldborg og hlaut áhorfendaverðlaunin, Einarinn.
Takk fyrir mig!
Skjaldborg er mikilvægur og fallegur hluti í flóru íslenskrar kvikmyndamenningar. Þetta er eina hátíðin sem snýst um frumsýningar nýrra íslenskra kvikmynda og þarna koma saman vel á annað hundrað manns og brjóta brauð eina langa helgi á Patreksfirði. Fyrir utan kirkjuna sjálfa, Skjaldborgarbíóið og myndamessuna þar, eru aðrar helgiathafnir til dæmis liðurinn Verk í vinnslu, plokkfiskveisla kvenfélagsins Sifjar, fiskiveisla sem að þessu sinni fór fram á veitingastaðnum Flak og skrúðganga frá bíói til félagsheimilis sem er allnokkur spölur. Patreksfirðingar fá kærar þakkir fyrir góðar móttökur, nú sem áður. Stjórnendur Skjaldborgar, Kristín Andrea Þórðardóttir og Karna Sigurðardóttir héldu snöfurmannlega utan um keyrslu dagskrár og stemmningar ásamt teymi sínu. Leyfi mér að stinga auðmjúklega uppá að útbúin verði einhverskonar setustofa við bíóið næst, til að melta, hugsa og sósíalísera milli mynda. Það er allt partur af pakkanum.