Baldvin Kári Sveinbjörnsson, Eva Maria Daniels, Helga Brekkan og Ottó Geir Borg hafa verið ráðin sem kvikmyndaráðgjafar hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands og hafa þegar hafið störf.
Alls fylla þau tvö og hálft stöðugildi sem ólíkir ráðgjafar hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Davíð Kjartan Gestsson hefur verið ráðinn í starf sérfræðings í miðlun og stafrænni þróun og hefur störf um miðjan mars. Þá hefur Steven Meyers, sem gegnt hefur starfi ráðgjafa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands, látið af störfum.
Að auki auglýsir Kvikmyndamiðstöð Íslands starf sérfræðings í myndlæsi og stafrænni miðlun kvikmynda. Hagvangur annast móttöku umsókna og umsóknarfrestur er 27. febrúar.
Baldvin Kári Sveinbjörnsson
Baldvin Kári er kvikmyndagerðarmaður með reynslu af ýmsum störfum á sviði kvikmyndagerðar. Undanfarið hefur hann starfað sem háskólakennari í handritaskrifum í Bandaríkjunum og sem sjálfstætt starfandi handritarágjafi og höfundur. Baldvin er með háskólamenntun í handritaskrifum og leikstjórn.
Eva Maria Daniels
Eva Maria lærði kvikmyndaframleiðslu í Kaupmannahöfn. Hún hefur starfað sem kvikmyndaframleiðandi og rekið sitt eigið framleiðslufyrirtæki erlendis í rúmlega áratug, lengst af í London, New York og Los Angeles. Hún hefur mikla reynslu af því að meta hugmyndir og handrit og þróa ný handrit í samvinnu við fjárfesta og kvikmyndaver.
Helga Brekkan
Helga Brekkan er kvikmyndagerðarkona, en hún hefur m.a. starfað sem leikstjóri, framleiðandi, handritshöfundur og við kvikmyndatöku og klippingar. Helga þekkir einna best til heimildamyndagerðar í gegnum leikstjórn og handritsgerð. Hún starfaði erlendis í rúmlega 30 ár, lengst af í Stokkhólmi og Berlín, en er nú búsett á Íslandi.
Ottó Geir Borg
Ottó Geir Borg er handritshöfundur og hefur starfað við handritsráðgjöf á íslenskum kvikmyndum í rúmlega 20 ár. Hann starfaði sem yfirmaður þróunarsviðs Zik Zak kvikmynda á árunum 2007-2014, og hefur síðan þá starfað sjálfstætt við handritsráðgjöf. Einnig hefur hann kennt námskeið í handritsskrifum og kvikmyndalæsi hjá Kvikmyndaskóla Íslands.
Davíð Kjartan Gestsson
Davíð Kjartan er með B.A. gráðu í Almennri bókmenntafræði og M.A. gráðu í Hagnýtri ritstjórn og útgáfu frá Háskóla Íslands. Frá árinu 2014 hefur Davíð starfað sem vefritstjóri hjá RÚV, þar sem hann hefur umsjón með menningarumfjöllun og framleiðslu menningarefnis fyrir vef- og samfélagsmiðla RÚV. Áður starfaði Davíð sem verkefnastjóri í vefumsjón og samfélagsmiðlun við verkefnið Reykjavík bókmenntaborg, auk þess sem hann var vefritstóri Sögueyjunnar Ísland.
Starf sérfræðings í myndlæsi og stafrænni miðlun
Kvikmyndamiðstöð Íslands óskar eftir að ráða sérfræðing í myndlæsi og stafrænni miðlun kvikmynda. Meðal hlutverka sérfræðings er að marka stefnu og áætlanir varðandi aukið mynd- og miðlalæsi almennings og þróa stafræn námsgögn fyrir öll skólastig, að erlendri fyrirmynd, í samstarfi við kvikmyndagerðarmenn og hlutaðeigandi menntastofnanir. Sérfræðingur markar stefnu um að auka aðgengi fagfólks og almennings að alls kyns íslensku myndefni á alþjóða vettvangi.
Umsóknarfrestur er 27. febrúar og nánari upplýsingar má finna á vef Hagvangs.