Hulda Rós Guðnadóttir, listakona, kvikmyndagerðakona og hönnuður, hafði betur í máli sínu gegn Reykjavíkurborg í máli sem varðaði skaðabætur fyrir heimildarlausa notkun borgarinnar á myndefni úr kvikmyndinni Keep Frozen á Sjóminjasafni Reykjavíkur.
Þetta kemur fram á DV.is og þar segir ennfremur:
Hulda greinir þó frá því á Facebook að sigurinn hafi verið ljúfsár þar sem skaðabæturnar námu aðeins 200.000 krónum og mun Hulda því sitja uppi með fjárhagslegan skaða.
„Í dag féll dómur í höfundaréttamáli mínu gagnvart Reykjavíkurborg (vegna notkunar á myndefni í Sjóminjasafninu). Dómurinn féll okkur í hag og vil ég þakka stjórn Myndstef fyrir fjárhagslegan stuðning og Aðalheiði Dögg Finnsdóttur Helland, Hörpu Fönn Sigurjónsdóttur og Önnu Finnbogadóttur hjá Myndstef fyrir móralskan og lögfræðilegan stuðning og ráðgjöf og síðast en ekki síst lögmönnum hjá Rétti, sérstaklega Auði Tinnu Aðalbjarnardóttur og Védísi Evu Guðmundsdóttur fyrir vönduð og fagleg vinnubrögð.“
Hulda segir það mikið ánægjuefni að hafa unnið málið og vonandi muni hann bæta stöðu myndhöfunda til frambúðar með fordæmisgildi sínu. Hins vegar hafi bætur aðeins numið 200 þúsund krónum fyrir 2ja ára heimildarlausa notkun, en það sé mun lægra en tíðkist annars staðar í heiminum.
„Mér var sagt í upphafi þessa ferðalags, bæði af aðilum í Myndstefi og Sambandi íslenskra myndlistarmanna, að svona höfundaréttabrot væru algeng og að höfundar leituðu sjaldan réttar síns vegna þess að kostnaður væri mikill og sama hvernig dæmt yrði bæru höfundar yfirleitt fjárhagslegan skaða af. Svo er það einnig í þessu máli. Það er í skjóli þess sem þetta viðgengst.“
Hulda segir að henni hafi skilist af lögmanni sínum að bæturnar séu svona lágar þar sem höfundaréttarbrot hafi verið lítið metin til að byrja með og þar með hafi skapast dómvenja fyrir lágum bótum.
„Þó svo við höfum fengið dóm sem féll okkur í hag þá skaðast ég fjárhagslega. Upphæðir bóta verða að breytast og vera í takt við heiminn sem við búum í. Til þess að það gerist þyrfti að breyta löggjöf um höfundaréttabrot. Tel ég brýnt að viðeigandi hagsmunasamtök beiti sér fyrir því.“
Sjóminjasafn Reykjavíkur nýtti um tveggja ára skeið myndskeið úr kvikmyndinni Kepp Frozen á sýningu á safninu.
Enginn hafði nokkurn tíman samband við Huldu til að spyrja um leyfi fyrir notkuninni og spilun myndskeiðsins var án vitundar hennar. Hulda er ekki búsett á Íslandi og vissi ekki af notkuninn fyrr en hún fór í heimsókn á safnið í mars 2020 og sá þá fyrir tilviljun myndir eftir hana sjálfa uppi á vegg.
Dómurinn hefur verið birtur á vefsíðu dómstóla. Þar kemur fram að Hulda hafi farið fram á milljón í skaðabætur fyrir heimildarlausa notkun á þriggja mínútna myndskeiði úr kvikmyndinni Keep Frozen. Hins vegar taldi dómari ekki sannað að Hulda persónulega væri handhafi þeirra fjárhagslegu réttinda sem fylgdu vinnu handritshöfunda í myndinni en sannað væri að hún væri handhafi fjárhagslegra réttinda sem leikstjóri. Hulda þótti heldur ekki ná að sanna fjárhagslegt tjón sitt eða meintan hagnað borgarinnar af notkuninni svo bætur væru dæmdar 350 þúsund að álitum en frá því var dregin greiðsla upp á 158 þúsund sem borgin hafði þegar reitt af hendi.
Bæturnar þykja heldur lágar miðað við það sem gengur og gerist í nágrannalöndum okkar og skýrist það af dómahefð hér á landi.