Þórarinn skrifar:
Leikstjórinn og þjóðhetjan Hannes Þór Halldórsson og liðið sem hann stýrir í Leynilöggu virðist heldur betur hafa hitt í mark og fólk hefur hrúgast á myndina frá frumsýningu.
Þessi mikli áhugi kann að koma einhverjum á óvart enda auðvelt að hrapa að þeirri ályktun að bíómynd byggð á tíu ára gömlu flippi Sveppa og Audda myndi enda eins og langt og dýrt árshátíðarmyndband FM 957. Útkoman er hins vegar allt annað og meira þótt myndin sé vissulega krydduð ákveðnum lókalhúmor.
Annars er Leynilögga nákvæmlega það sem hún gefur sig út fyrir að vera þannig að fólk ætti að hafa góða hugmynd um að hverju það gengur og viðtökurnar benda eindregið til þess að fjöldinn er til í galsafenginn Hollywood-hasar, stílfærða töffarastæla og mátulega galið grín.
Stóri brandarinn
Auðunn Blöndal leikur aðalpersónuna, Bússa, sem auk þess að vera besta löggan í Reykjavík er einnig holdgervingur allra helstu lögguklisjanna frá Hollywood undanfarna áratugi með sterkustu áhrifunum frá Bruce Willis í The Last Boy Scout.
Leynilögga snýr þó aðeins upp á harðhausaklisjuna með stóra brandaranum sem hverfist um að Bússi engist í skápnum og breiðir yfir ótta sinn við kynhneigðina með töffarastælunum. Stórar sprungur koma síðan í harðan skrápinn eftir samstuð við klárustu og flottustu lögguna í Garðabæ. Hinn pankynhneigða Hörð Bess, sem Egill Einarsson leikur.
Flottræfillinn sá vísar skýrt í jakkafataklæddan Sylvester Stallone í Tango&Cash og vísunin teygir sig jafnvel út fyrir myndina þar sem nálgun þeirra félaga á harðjaxlaklisjurnar bergmálar í sjálfsháði Stallone þegar hann lýsti því fjálglega yfir í jakkfötum Ray Tango að þekktasta alter egó hans, sjálfur Rambó, væri „pussy.“
Síðan má vitaskuld endalaust velta sér upp úr því hvort stóra írónían í myndinni lendi ekki í innbyrðis mótsögn við sjálfa sig þegar Hörður bendir Bússa á að árið er 2021 og það sé enginn að pæla í kynhneigð hans.
Glott út í annað
Hasarinn, grínið og fjörið yfirgnæfir að vísu slíkar pælingar enda hvergi dauðan punkt að finna í myndinni sem Hannes Þór keyrir áfram af krafti og umtalsverðu öryggi þannig að þessi heldur ódýra, íslenska framleiðsla er alveg á pari og vel það við margan fokdýran Hollywood-hasarinn.
Fyrir utan fyndna og vel útfærða skotbardaga, bílaeltingaleiki og annan djöfulgang sækir myndin fyrst og fremst styrk sinn í hversu öll sem að henni koma eru meðvituð um að þau eru að busla í kröftugri klysjusúpu. Hér glotta allir út í annað og verða yfirleitt betri eftir því sem hert er á ofleiknum.
Hlutverk vonda kallsins í hasarmyndum getur verið ákaflega þakklátt eins og til dæmis Alan Rickman (Die Hard), Tommy Lee Jones (Under Siege), Gary Oldman (Leon) og Nicholas Cage (Face/Off) geta borið sannfærandi vitni um. Og mögulega einnig Björn Hlynur sem er ferlega skemmtilegur og slær hvergi af ýktri illsku stórhuga glæpaforingjans og bókstaflega útbrunnu fyrirsætunnar Rikka sem er svo svalur að hann talar alltaf ensku. Meira að segja með rödd Donalds Trump.
Töffaraskapur og gríntoppar
Steinunn Ólína er önnur atvinnumanneskja sem gefur myndinni aukna vigt þegar hún tekur staðla lögregluforingjann, sem hefur enga stjórn á mótþróaþrjóskuraskaðri ofurlöggunni þrátt fyrir að standa á garginu, sínum föstu tökum.
Leiguþý Rikka er heldur ekki af verri endanum og þar er Vivian Ólafsdóttir lang svölust og reynist ekki síður öflugur senuþjófur en bankaræningi í hlutverki illkvendisins Stefaníu. Hún er einfaldlega mesti töffarinn í myndinni og hinn undurfagri Rúrik Gíslason nær ekki einu sinni að skyggja á hana þótt hann fái að láta ljós sitt skína í tilkomumiklu Jean Claude Van Damme mómenti.
Sveppi, Jón Gnarr, Gunnar Hansson og síðast en engan veginn síst, Steindi Jr. afreka það síðan ítrekað að standa upp úr sem „comic relief“ í mynd sem gengur öll út á grín og ýkta stæla og leggja þannig sín lóð á vogarskálarnar þannig að Leynilögga stendur efir sem sá þétti grínhasarpakki sem hún gerir sig út fyrir að vera og er.
Niðurstaða: Auðunn Blöndal og Egill Einarsson skemmta sér áberandi vel í byssó í Leynilöggu og ljóst að sama á við alla sem mættu í partíið sem heldur dampi í hasar og djóki þannig að þversagnakenndar tilraunir með íróníu týnast í dekkjareyk og kúlnahríð.