„Magnað útlit og sterkur leikhópur ramma áhugaverða sögu svo vel inn að smávægilegir hnökrar hverfa sársaukalítið undir öskulagið,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um þáttaröðina Kötlu.
Þórarinn skrifar:
Spennan sem kraumaði undir sjónvarpsþáttum Baltasars Kormáks sem kenndir eru við eldfjallið Kötlu var orðin slík að Katla yfirgnæfði lúðrablástur og innblásin ræðuhöld þegar hún loksins gaus á Netflix á sjálfan þjóðhátíðardaginn.
Katla hefur síðustu viku að sjálfsögðu vermt efsta sætið á lista Netflix yfir mest streymda efnið á Íslandi og jafnvel látið þannig á sér kræla erlendis að segja má að ellefu ára hótun Ólafs Ragnars Grímssonar, þáverandi forseta, á BBC hafi loksins ræst: „Og það sem við höfum orðið vitni að er í raun lítil æfing fyrir það sem mun gerast, ekki ef, heldur þegar Katla gýs.“
Sameiningartáknið
Frumsýningardagsetningin var því vægast sagt viðeigandi ef ekki beinlínis táknræn, þar sem á þeirri sléttu viku sem þættirnir hafa verið í boði á efnisveitunni hefur Baltasar og hans fólk heldur betur þjappað þjóðinni saman. Allir eru að tala um Kötlu og allir hafa skoðun á Kötlu. Að því er virðist alveg óháð því hvort fólk hafi horft á alla þættina átta eða ekki.
Þannig að formsins vegna er vissara að bera í bakkafullan lækinn og skrá í annál þennan að þættirnir gerast ári eftir að eldgos hófst í Kötlu með afdrifaríkum afleiðingum fyrir friðsæla smábæinn Vík og þá fáu íbúa hans sem þar hafast enn við í öskukófinu.
Ofan á allt annað er jökullinn byrjaður að bráðna við gosopið og dularfull fyrirbæri taka að birtast undan honum og hrista með ófyrirsjáanlegum afleiðingum heldur betur upp í þegar truflaðri tilveru ringlaðra þorpsbúa og örfárra villuráfandi gesta þeirra.
Hægur bruni
Þótt mikil undur gerist í Vík og heilmikið sé í gangi hjá fjölskrúðugu persónugalleríinu, fer Katla hljóðlega af stað. Óþolinmóðum gætu því þótt fyrstu fjórir þættirnir heldur viðburðasnauðir og óneitanlega er atburðarásin undirbyggð með því mjög svo móðins stílbragði sem kennt er við hægan bruna.
Þetta lukkast með slíkum ágætum að vaxandi óvissa og áleitnar spurningar um hver djöfullinn sé eiginlega í gangi leita á áhorfandann og stigmagna og viðhalda spennunni þangað til byrjar að sjóða undir sögunni í fimmta þætti. Frá upphafi er nefnilega ofboðslega mikið í gangi og í raun er eiginlega kraftaverk að höfundum takist að halda þessu öllu saman, en ekki missa þetta í allar áttir og út í tóma vitleysu.
Það gerist hins vegar ekki þar sem Baltasar Kormákur hefur hér smalað saman einvala liði handritshöfunda, leikara og annars fagfólks sem sprengir með honum grunnhugmynd hans út í þessa marglaga og margbrotnu seríu, sem er slíkur suðupottur hugmynda, stemninga, kvikmyndagreina og tilfinninga, að Baltasar sjálfum virðist svo erfitt að skilgreina hana að hann hefur lýst Kötlu sem bræðingi þjóðsagna, vísindaskáldskapar og sálfræðilegrar rökkurráðgátu.
Katla er allt þetta og meira að segja miklu meira og ekki verður af Baltasar tekið að sem kvikmyndaleikstjóri er hann, óháð efnisvali, mikill handverksmaður og áhrifamikil og sterk heildarmynd Kötlu ber fagmennsku hans fagurt vitni.
Annarleg fegurð
Þótt sumt í Kötlu komi kunnuglega fyrir sjónir og þar bergmáli margt yfir ólíkum straumum og stefnum úr ýmsum höfuðáttum dægurmenningarsögunnar, þá er þáttaröðin óneitanlega tímamótaverk. Í það minnsta á íslenskan mælikvarða þar sem ekkert í líkingu við Kötlu hefur áður sést í íslenskri kvikmyndagerð.
Allt útlit og yfirbragð þáttanna er frábært. Tæknibrellur og öll grafík eru fyrsta flokks og hrá, köld og öskumenguð sviðsmynd Sunnevu Ásu Weisshappel er svakalega töff þar sem allt er stíliserað svo mjög í drasl að stundum er eins og allir þorpsbúar hafi keypt innbú sitt úr sama gáminum í Góða hirðinum.
Katla er því mikið fyrir augað og eyrað þar sem tónlist Högna Egilssonar harmónerar skemmtilega við drungann og annarlegt andrúmsloftið í bænum.
Kvikmyndataka þeirra Bergsteins Björgúlfssonar og Árna Filippussonar rammar þetta síðan allt inn. Ferlega smart og heillandi á köflum, þar sem sum skot og rammar eru hreint út sagt brjálæðislega falleg. Auk þess sem lýsingin og fimleikar með tökuvélina varpa skuggum tortryggni á persónur og leikendur.
Öskuklónar við Fjórdranga
Að ofansögðu má ljóst vera að Katla er enginn aukvisi en helsti styrkur hennar er þó fólginn í skemmtilegri samsuðu þar sem þjóðsagnaminni, útburðir, umskiptingar og huldufólk jarðtengja vísindaskáldskapinn og þiggja um leið trúverðugleika frá honum.
Þessi blanda mallar við hárrétt hitastig á mótum hryllings og vísindaskáldskapar og er svo görótt að í öskumekkinum má með góðum vilja greina áhrif, vísanir og hughrif í The Invasion of the Body Snatchers, Ringu, Stephen King, Kieslowski, The Omen, H.P. Lovecraft, Pet Sematary, The Shining, Svövu Jakobsdóttur, The Stepford Wives og Tarkovsky.
Yfir og allt um kring svífur svo andi Davids Lynch, hvort sem það er meðvitað eða ómeðvitað, með kröftugu bergmáli frá Mullholland Drive, auk þess sem Vík og furðulegir íbúar hennar minna óhjákvæmilega á Tvídranga.
Mannlegir harmleikir, for- og hliðarsögur þorpsbúanna smyrja síðan enn einu spennulaginu yfir Kötlu, í bland við freudískar pælingar, leik með tvífaraminnið, hið ókennilega og drauma, þar sem atburðarásin er fyrir einni persónu draumur sem hún vill aldrei vakna af á meðan önnur upplifir sig fasta í martröð. Að ógleymdri hinni eilífu grundvallarspurningu: Hver er ég?
Móðir, hvað er barnið þitt?
Leikhópurinn vegur ekki síður þungt fyrir heildarmyndina, en þættirnir eru gegnumsneitt feikilega vel leiknir þannig að hér er hvergi nærri pláss til þess að sýna öllum sem þar brillera sóma. Fyrsta ber þó að nefna nýliðann Guðrúnu Ýri Eyfjörð sem skilar erfiðu aðalhlutverki af aðdáunarverðu öryggi, ekki síst þegar á hana renna tvær Grímur.
Guðrún Gísladóttir klikkar heldur ekki og er nógu dularfull til þess að annarleikinn á hótelinu í Vík verður ansi þrúgandi. Sólveig Arnarsdóttir kemur líka sterk inn þegjandi og orðalaust og deilir mögnuðum senum með Þorsteini Bachmann sem er sjálfum sér líkur, auk þess sem hann fer mikinn með hinu þekkta Kubrick-augnaráði.
Sænska leikkonan Aliette Opheim fremur einhvers konar galdra þegar hún rís úr öskustónni og varla er hægt að lofa hinn unga Hlyn Harðarson nógsamlega fyrir frábæra túlkun á því sem sumir vilja kalla „djöflabarnið“. Líklega hefur ekki jafn óhugnanlegt barn komið fram síðan Damien Thorne var og hét.
Þrátt fyrir þessa lofrullu er Katla vitaskuld ekki gallalaus frekar en önnur mannanna verk, en misfellurnar eru merkilega fáar og aminn af þeim vart mælanlegur.
Samtölin eru þó á köflum undarlega stirð miðað við hversu vanur mannskapurinn er sem skrifar þau ofan í persónurnar og ítarlegar útskýringarnar ramba á barmi þess að verða of vandræðalegar þegar Víkurundrin eru sett í einhvers konar rökrétt samhengi í lokin. Þær ganga samt einhvern veginn upp eða halda innan ramma sögunnar og eru næstum óhjákvæmilegar, fyrst Lynch var ekki tekinn alla leið með því að skilja áhorfandann eftir í lausu lofti á eigin ábyrgð.
NIÐURSTAÐA: Katla er býsna tilkomumikil og vönduð þáttaröð og skemmtilega vel heppnuð þjóðsaga með hryllingsívafi og vísindatengingum. Magnað útlit og sterkur leikhópur ramma áhugaverða sögu svo vel inn að smávægilegir hnökrar hverfa sársaukalítið undir öskulagið.