Jón Bjarki Magnússon var fluga á vegg á heimili ömmu sinnar og afa á síðasta hluta æviskeiðs þeirra. Úr varð heimildarmyndin Hálfur álfur, þar sem dramatík hversdagsins hjá hverfandi kynslóð kemur berlega í ljós. Jón Bjarki ræddi við Morgunútvarpið á Rás 2, en myndin er frumsýnd í Bíó Paradís 25. mars.
Á vef RÚV segir:
„Í stuttu máli fór ég í meistaranám í sjónrænni mannfræði í Berlín og þegar ég fór að hugsa um lokaverkefni þá kallaði þetta mikið á mig, að fylgja þeim gömlu eftir,“ segir Jón Bjarki í samtali við Morgunútvarpið á Rás 2.
Þegar hann fór af stað með verkefnið var afi hans, Trausti Breiðfjörð Magnússon, 99 ára gamall og amma hans, Hulda Jónsdóttir, 96 og taldi hann sig verða að hrinda af því af stað áður en tækifærið rynni úr greipum.
„Þarna fylgi ég þeim eftir á þeirra síðasta æviskeiði. Ég var eins konar fluga á vegg með myndavélina á lofti og dvaldi hjá þeim langdvölum þar til þau vöndust myndavélinni og mér. Ýmislegt sem kom fram þeirra í milli og annað sem ekki hefði gerst ef ég hefði ekki gert það.“
Á ákveðnum tímapunkti fór afi hans að ræða um það að taka upp nýtt nafn, um sama leyti og hann skipulagði í senn eigin jarðarför og 100 ára afmæli. Amma Jóns Bjarka var ekki sátt við nýja nafnið. „Þau rifust heiftarlega yfir þessu, henni þótti þetta vera óttaleg vitleysa á gamals aldri, að breyta um nafn.“
Afi Jóns Bjarka vildi taka upp nafnið Álfur. „Hann lýsti því stundum að hann dreymdi álf þegar hann var ungur drengur. Afi er fæddur norður á Ströndum 1918 og pabbi hans reri til fiskjar og fleira. Álfurinn sagði við hann að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því að fara á sjó því hann myndi ekki drukkna. Álfurinn var verndari afa um alla tíð og hann vildi koma því á framfæri að álfurinn væri með honum. Þegar það kom í ljós að hann mundi ekki ná að breyta nafninu sínu fannst honum að það væri kannski nóg að fólk yrði látið vita að álfurinn væri með honum,“ segir Jón Bjarki. „Eftir því sem hann eldist fara álfar að koma meira upp hjá honum, bæði í draumum og jafnvel veruleika.“
Hlín Ólafsdóttir, unnusta Jóns Bjarka, er meðframleiðandi myndarinnar og tónskáld. Hún segir að myndin hafi náð að ferðast víða þrátt fyrir heimsfaraldurinn, þökk sé stafrænum lausnum á kvikmyndahátíðum. „Við gætum ekki verið hamingjusamari með áhugann sem henni hefur verið sýndur víða í Evrópu,“ segir hún. Nú stendur loksins til að sýna hana hér á Íslandi, í Bíó Paradís, en sýningum hefur verið frestað ítrekað vegna ástandsins.
Jón Bjarki segir að sambandið við afa sinn og ömmu dýpkaði mjög við gerð myndarinnar en það hafi líka tekið á tilfinningalega. „Þetta var langur tími og margar stundir og í rauninni virkilega nærandi að hafa fengið þetta tækifæri til þess að vera með þeim á þessum tímum. Auðvitað var þetta að mörgu leyti erfitt, sérstaklega þegar afi veiktist heiftarlega. Þá þarf maður bara að leggja myndavélina til hliðar og sinna því að vera barnabarn og aðstandandi. Þannig að það er margt sem kemur ekki fram í myndinni, það er ferli á bak við. Svo uxum við Hlín saman inni í þessu verkefni.“
„Nú erum við búin að erfa pælinguna með Álf,“ segir Hlín. „Vegna þess að sá gamli náði ekki að breyta nafninu sínu að þá fæðist hugmyndin hjá Jóni Bjarka að ef við eignuðumst barn saman að þá yrði sá sonur að heita Álfur. Þá upplifi ég mig í sömu stöðu og Hulda. Ég minni hann reglulega á að hann Trausti sagði undir lokin að það væri kannski réttast að heita ekki Álfur. Að menn sem hétu Álfar, þeim myndi ekkert ganga vel með kvenfólk.“