VITJANIR: Læknir vitjar sjúklinga, drauga og álfa

Menningin á RÚV fjallaði um þáttaröðina Vitjanir og ræddi við aðalleikkonuna Söru Dögg Ásgeirsdóttur, handritshöfundana Völu Þórsdóttur og Kolbrúnu Önnu Björnsdóttur og leikstjórann Evu Sigurðardóttur. Þættirnir, sem Glassriver framleiðir, verða sýndir á RÚV næsta vetur.

Á vef RÚV segir:

Þáttaröðin fjallar um Kristínu, konu á miðjum aldri sem er nýfráskilin og flytur búferlum til bæjarins Hólmafjarðar. Tökum á seríunni lauk nýverið, en þær fóru fram á Grundarfirði og í Reykjavík. Höfundar Vitjana eru Kolbrún Anna Björnsdóttir og Vala Þórsdóttir. „Kristín er mjög mikil raunhyggjumanneskja, vísindakona og læknir en í þorpinu er mikið af fólki sem trúir á grasalækningar og andalækningar og það er svona gamla þjóðtrúin okkar, þannig að það er svolítið mikið verið að berjast þarna á milli,“ segir Vala.

Djúpt í mínu hjarta

Eva Sigurðardóttir leikstýrir þáttunum. „Vitjanir gerist í bæ sem við höfum búið til sem heitir Hólmafjörður. Við völdum Grundarfjörð sem er kominn djúpt í mitt hjarta. Við tókum upp allt sem gerist fyrir utan hús og úti í náttúru á því svæði. Svo svindluðum við og komum til Reykjavíkur til að taka inni í húsum og þess háttar. Þannig að í raun og veru gerist öll serían í Hólmafirði sem Íslendingar þekkja sem Grundarfjörð,“ segir Eva.

Klára korter í snjó

Auk Söru Daggar fara Edda Björgvinsdóttir, Katla Njálsdóttir og Jóhann G. Jóhannsson með burðarhlutverk í Vitjunum. Serían er framleidd af Glassriver og Askja films er meðframleiðandi. Nýverið tryggði danska dreifingarfyrirtækið Reinvent studios sér sölurétt á þáttaröðinni, og verður henni dreift til flestra Norðurlanda.

Heimsfaraldur þrengdi að vissu leyti að framleiðslunni, en með þolinmæði tókst verkið að lokum. „Það var nú ágætt að vera úti á landi þegar covid sumarið og haustið var í gangi en við náðum að klára bara korter í snjó á Grundarfirði og komum í bæinn eins og planið var þannig að þetta rétt slapp fyrir horn. Þetta auðvitað hægir á okkur en maður er bara þakklátur fyrir að geta verið í tökum og geta verið að búa til bíó eða sjónvarp, þannig að ég kvarta ekki,“ segir Eva.

Leika og skrifa

Alls tók 6 ár að skrifa söguna og vinna handrit upp úr henni og að sögn Völu er áhugavert að sjá hana lifna við í tökum. „Alveg ótrúlega spennandi bara, svaka gaman. Svo erum við að leika í þessu þannig að það er búið að vera rosa skemmtilegt að vera á setti og kynnast því öllu saman frá a til ö – öllu ferlinu. Það er búið að vera alveg megagaman og líka held ég að það skipti máli upp á okkur sem höfunda að hafa tekið þátt í þessu ferli alveg og verið á settinu. Maður fær alla heildina.“

Huldufólk styður

Þema þáttaraðarinnar, togstreitan milli raun- og dulhyggju, hafði áhrif á þá sem að myndinni standa. „Þetta er búið að vera svolítill draumur og það eru galdrar í gangi í kringum okkur. Serían snertir á álfum, huldufólki, draugum og hinu ýmsu andlega og það er alveg magnað hvað manni finnst stundum eins og einhver sé að hjálpa manni. Í okkar rannsóknarvinnu var okkur sagt að það væri nú ákveðið huldufólk með okkur úti í horni að styðja okkur og ég var nú komin með einhvern álf sem átti að lofa mér góðu veðri, veit nú ekki alveg hvort það hefur staðist en ég held að kjarninn í verkefninu, þessi fegurð að tala um alvöru andlega hluti í bland við læknavísindin og þess háttar hafi smitast svolítið út í hópinn og við höfum tekið þetta svolítið með okkur í okkar daglega líf,“ segir Eva.

HEIMILDruv.is
Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR