Menntamálaráðherra segir ótvírætt hvað sé sjálfstæður framleiðandi í nýjum þjónustusamningi

Upphæðir sem renna til sjálfstæðra framleiðenda í nýjum þjónustusamningi við RÚV lækka en skerpt er á skilgreiningu hugtaksins. Ráðherra segir sinn skilning á hugtakinu ótvírætt þann sem er í nýja þjónustusamningnum. Þetta kemur fram í Fréttablaðinu.

Í frétt Fréttablaðsins stendur meðal annars:

Í fyrri samningi þurfti Ríkisútvarpið að verja 8 til 11 prósentum af heildartekjum sínum til kaupa á efni, 756 milljónum króna árið 2019. Í nýja samningnum þarf að verja 12 prósentum af innheimtu útvarpsgjaldi, miðað við innheimt útvarpsgjald árið 2019 yrðu það tæpar 553 milljónir króna.

„Sjálfstætt starfandi eru að fá meira samkvæmt nýjum þjónustusamningi út frá hlutdeild, það er prósentuhlutfalli. Hins vegar er heildarfjárhæðin lægri sökum þess að tekjur RÚV hafa dregist saman í núverandi árferði,“ segir Lilja.

„Viðmiðunargrunni var breytt til að tryggja meiri fyrirsjáanleika, en hlutfallstalan hækkuð, þar sem markmiðið var að svipuð upphæð færi til kaupa af sjálfstæðum framleiðendum og raunin var á fjögurra ára gildistíma fyrri samnings. Auglýsingatekjur RÚV hafa lækkað um hátt í milljarð á aðeins tveimur árum og því er betra að miða við traustari tekjugrunn.“

Ótvírætt skilningur ráðherra

Líkt og greint var frá fyrr á þessu ári rann stór hluti af þeim greiðslum Ríkisútvarpsins í þætti sem framleiddir voru af Ríkisútvarpinu og verktakagreiðslur. Í viðtali í sumar vísaði útvarpsstjóri í viðauka samningsins þar sem stóð „og fleira“. Töldu kvikmyndaframleiðendur þær greiðslur ekki í anda samningsins. Þá hefur Fjölmiðlanefnd einnig gert athugasemd við skilgreiningu Ríkisútvarpsins.

Í nýja samningnum er sérstaklega tekið fram að greiðslur til þáttarstjórnenda, sjálfstætt starfandi tæknimanna, handritshöfunda, ráðgjafa, leikara o.s.frv., auk greiðslna vegna leigu á búnaði eða öðrum aðföngum vegna dagskrárefnis sem Ríkisútvarpið ber ábyrgð á, teljir ekki greiðslur til sjálfstæðra framleiðenda. Þá segir einnig að gætt skuli að því að samningar við verktaka séu gerðir eftir opnu, faglegu og gagnsæju ferli.

Aðspurð hvort ákvæðið í nýja samningnum sé viðurkenning á því að túlkun Ríkisútvarpsins hafi ekki verið í anda þess sem lagt var upp með, segir Lilja að skilningur sinn á hugtakinu sé ótvírætt sá sem komi fram í samningnum. „Skilningur minn er ótvírætt sá sem birtist í þessum nýja samningi. Fyrri samningur tók ekki af allan vafa um þetta en skilningur nú er skýr í þessa veru.“

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR