RÁÐHERRANN, þáttur 8: Á meðan þú svafst

Ásgeir H.Ingólfsson skrifar um lokaþátt Ráðherrans á vef sínum Menningarsmygl.

Ásgeir skrifar:

Lokaþætti Ráðherrans tókst að gera vel það sem hafði ávallt misheppnast fram að þessu: þátturinn virkaði þegar Benedikt var fjarverandi. Björgunaraðgerðirnar voru helvíti sannfærandi og náðu bæði að fanga ákveðna spennu en koma því samt um leið vel til skila að aðstæður væru ekki það slæmar, en svona er samt alltaf taugastrekkjandi fyrir aðstandendur sem eru ekki vanir svona aðstæðum.

Síðan hefst vitaskuld mikið plott og leynimakk á meðan Benedikt liggur meðvitundarlaus á spítala. Steinunn og Hrefna vilja honum báðar vel, en eru á öndverðum meiði um hvað sé best fyrir hann. Fyrir utan auðvitað að Hrefna þarf að vinna úr kynferðisáreitninni sem hún loksins trúir einhverjum fyrir.

Ef við endum á framhaldi gæti maður raunar alveg ímyndað sér að Steinunn yrði þar í forgrunni, eða eins og Svanfríður Jónasdóttir fyrrum þingkona orðar það í Facebook-kommenti:

„Það situr líka eftir að Steinunn er heilinn á bak við stjórnmálaferil Benedikts, hún ætti að vera gerandinn en spurning hvað heftir hana. Hún er jú kona, alin upp í fjölskyldu sterks íhaldskarls og kann alla klækina. Ef gerð verður ný sería væri áhugavert að sjá Steinunni fara í pólitíkina og ögra karlveldinu í flokknum og fjölskyldunni.“

Það hvar hún stendur er hins vegar enn óljóst – hún er í aðra röndina algjör Sjalli en um leið glittir líka í smá uppreisnarsegg og önnur gildi. En Steinunn þekkir klíkuna af biturri reynslu, hún er að reyna að skáka þeim í þeirra eigin leik – á meðan Benedikt endar á að spila allt annan leik. Svo er líka spurning hvort hjónabandið lifir þennan lokaþátt af – kannski flytur Benedikt bara norður og tekur aftur saman við gömlu kærustuna og klárar Melódíu með henni?

Grímur lendir svo sömuleiðis í því að stinga aðeins of marga í bakið og er kominn út í horn með öll plottin sín, en virðist þó eiga þónokkur líf eftir ennþá. Þegar hann mætir til Hrefnu og skrúfar frá strákslega sjarmanum þá birtist okkur allt annar Grímur – sem hefði raunar verið gaman að sjá fyrr, það var lengi búið að trufla mann hvernig þau Hrefna enduðu eiginlega saman til að byrja með. Þau eru samt að drekka Egils Gull, þótt þau ættu nú alveg að eiga efni á alvöru bjór – það er auðvitað slíkur plebbaskapur sem skilar fólki í Sjálfstæðisflokkinn.

En Grímur er helvíti magnaður þegar hann verður skyndilega hlýr og segir að hann lofi því að leysa málin. Sem hann gerir vissulega, en þá er plott-Grímur mættur aftur. Tvö andlit fyrir tvær senur, skiptir um ham eftir hentugleik.

Í persónugalleríinu eru samt aðeins of margar persónur sem týnast löngum stundum. Pabbinn er búinn að gera fátt annað en að afsaka sig undanfarna þætti og pilsklæddur sonur Gríms og Hrefnu virðist löngu týndur. Þá veldur blaðamaðurinn Óttar vonbrigðum enn og aftur. Ég veit ekki alveg hvort handritshöfundarnir séu að reyna að sýna okkur hvað það sé búið að ráða miklar gufur í lykilstöður á íslenskum dagblöðum eða hvort þeir gleyma honum hreinlega – hann er að minnsta kosti ítrekað kominn með skúbb lífsins upp í hendurnar en glutrar því niður í hvert einasta skipti, venjulega án nokkura mikilla átaka, það virðast sjaldnast nein svakaleg ljón í veginum. Þó er mögnuð senan þar sem Steinunn ógnar bæði honum og Hrefnu atvinnuleysi og ærumissi með mínútu millibili – en sá þráður er ekki spunnin neitt lengra og stórkarlalegar yfirlýsingar Óttars virðast orðin tóm. Og ritstjórinn Katla er enn önnur persóna sem gleymist alveg, þótt á tímabili virtist hún vera á fullu að vinna sér leið aftur í valdastöðu hjá flokknum.

En svo vaknar Benedikt. Er er ekki líklegur til afreka til að byrja með, en þarna vinnur Ólafur Darri enn einn leiksigurinn í þáttunum; hann fær það hlutverk að púsla leyfunum af sjálfum sér saman – og þarf að ákveða hvernig hann lagar það sem aflaga hefur farið. Hann er brotinn og aumur – en þarna sést samt glitta í stálið sem kom honum alla þessa leið, stálið sem fær hann til að biðjast afsökunar, gagnvart Hrefnu og svo gagnvart þjóðinni.

Það er reisn yfir ráðherranum í lokin, hann er brotinn maður en samt sterkur. Ýmsir hafa einmitt gagnrýnt geðveikina í þáttunum – Oddný Eir Ævarsdóttir rithöfundur segir meðal annars að henni finnist „Líka sorglegt til þess að vita að við sem þjóð skulum ræða svo lítið um geðheilbrigðismál að framvegis verði orðið „geðhvarfasýki“ líklega órofa tengt „berrassaða ráðherranum.“

Ég á frekar eftir að muna einlægnina og reisnina yfir þessu ávarpi. Þetta er vissulega snúið, en við komumst held ég skammt áleiðis með umræðu um geðsjúkdóma ef allar birtingarmyndir þeirra sem eiga við sjúkdóma að stríða sé að gera þá alla að einhverjum englum. En Benedikt er sannarlega viðkunnalegri en flestir – ég held að stjórnmálamenn og blaðamenn hafi frekar ástæðu til að vera ósáttir við þá mynd sem er dregin upp af þeim. Tja, nema þeir gangist við að svona týpur séu aðeins of algengar í stéttinni.

Einkunnin sem stjórnmálamönnum er gefin er einfaldlega þessi, samkvæmt Hallgrími Helgasyni rithöfundi:

„Stjórnmálamaður þarf að vera geðhvarfasjúkur til að segja hlutina eins og þeir eru og þjóðinni sannleikann. Sorglegur en sár sannleikur auðvitað, stjórnmál snúast jú fyrst og fremst um lygar og leynimakk, eins og sást líka svo vel á þáttunum.“

Þættirnir eiga líka hrós skilið fyrir að eiga alvöru endi – en um leið opna á ýmsa möguleika á framhaldi, þannig að ekkert er eyðilagt. Svanhvít virðist vera á leiðinni í forsætisráðherrastólinn og jafnvel Grímur líka, ef marka má lokasenuna, en hvað þýðir hún í raun? Verður Benedikt metinn í ástandi til að skrifa undir svona plögg – og hvað ef þau eru tvö? Gabbaði einhver Grím eða var það hluti af plottinu hans að gera Svanhvíti að forsætisráðherra? Gæti forsetinn jafnvel skorist í leikinn?

En kannski gæti verið forvitnilegt að fylgjast með Benedikt gera eitthvað allt annað. Og finna um leið við þá iðju hvernig er að þurfa að eiga allt sitt undir misvitrum pólitíkusum.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR