Ásgeir H. Ingólfsson fjallar um sjöunda þátt Ráðherrans á vef sínum Menningarsmygl.
Ásgeir skrifar:
Eitt algengasta vandamálið við sjónvarpsseríur er að þær eru iðullega of langar. Að teygja lopann í marga klukkutíma, heila átta þætti, þýðir ósjaldan að það koma djúpar dýfur. Sem hefur sannarlega átt við um Ráðherrann. Fyrstu tveir þættirnir voru forvitnilegir, næstu tveir meingallaðir, áður en landið tók að rísa aftur í næstu tveimur – og sá sjöundi og næstsíðasti var langbesti þátturinn hingað til. Það er algeng sveifla – og enn algengara að síðasti þátturinn misheppnist, því alltof margir þræðir eru skyldir eftir og reynt er að hnýta þá alla – sem getur stundum þýtt að takturinn verður miklu hraðari en áður og þættirnir missa fótana. Við skulum vona að Ráðherrann sleppi við það.
Valdataflið bak við tjöldin virðist vera að færast nær endataflinu – og Framsóknarmaðurinn sannfærandi, sem maður var hálfpartinn búinn að gleyma, kom skemmtilega á óvart þegar hann fékk fréttirnar af veikindum Benedikts. Þá spyr hann, fullur alvöru hluttekningar, hversu alvarlegt þetta sé, hvernig Benedikt hafi það, hvernig konan hans hafi það – svona eins og manneskjur gera þegar þær frétta af veikindum. Í staðinn fyrir að hugsa strax um tækifærin sem þetta skapar. En svo héldu þeir auðvitað áfram að plottta.
Grímur plottar líka áfram af miklum móð, en maður er farinn að sjá að hann er búinn að stinga aðeins of marga í bakið – það hlýtur bara að kosta hann hnífstungu á móti á endanum.
Óþægileg kómíkin nær svo hæstu hæðum þegar hann rambar inná diplómatafund með Evrópusambandinu og gömul og klassísk kergja Íslendinga gegn Dönum nær vanstilltum hæðum – og svo vitnar Benedikt í Ólsen-bræður og biður danska erindrekann Hanne Möller að opna hjartað, en fyndnast er samt þegar honum fipast á annars ágætri dönskunni þegar hann þarf að nefna tölur, og er aftur kominn í barnaskóla að klóra sér í hausnum yfir hinu skrítna danska talnakerfi.
Undir lokin tekur svo skemmtilegt töfraraunsæi við. Hann hittir ferðalang í Hallgrímskirkju, túrista frá Ástralíu sem vill svo vel til að er fjárhirðir. Góði hirðirinn. Guðfræðingurinn í Benedikt virðist vera lykilhluti geðveiki hans og þeir taka forsetabílinn í næstu réttir – og þegar þeir eru komnir inn í bílinn fer sá ástralski að standa grunsamlega vel undir væntingum Benedikts um vitra fjárhirðinn. En þeir skiptast ítrekað á sætum í bílnum, einföld en góð myndræn brella af því tagi sem sést alltof sjaldan í jarðbundnu íslensku sjónvarpsefni.
Í réttunum er hann svo maður fólksins, þangað til partíið byrjar og hann heyrir af týndu sauðunum. Þá þarf hann að finna – og þá brestur á með söng, fyrst Benedikts og svo Megasar. Þeir syngja dúett af sálminum „Hærra minn Guð, til þín,“ sem smellpassar inn í atburðarás þáttarins og úr verður eitt magnaðasta atriði í íslenskri sjónvarpssögu, þar sem ráðherrann ráfar og við sjáum voldug fjöllin og þokuna og ráfið og söngurinn er jöfnum höndum sorglegur og glaður. Við rifjuðum lagið betur upp í föstudagslaginu, þar sem uppruni þess og saga er rakin.
Ljúkum þessu svo með bestu nýju Facebook-greiningunni um Ráðherrann síðustu vikuna, frá Gretu Ósk Óskarsdóttur bókmenntafræðingi:
„Ráðherrann. Skáldað efni sem nær vel utanum viðfangsefnin frekar en að sé eins og raunveruleikinn. Takið til dæmis eftir því að ef forsætisráðherrann fer í einu og öllu eftir því sem yfirleitt er talinn vilji meirihluta þjóðarinnar er það talið vitfirra innan stjórnkerfisins.“