Ásgeir H. Ingólfsson heldur áfram að skrifa um Ráðherrann og fjallar nú um fimmta þátt á vefs ínum Menningarsmygl.
Ásgeir skrifar:
„Ráðherrann í sjónvarpsþáttunum er einskonar Anti-Trump. Allt sem honum dettur í hug að gera væri eitur í beinum Trumps. En þeir eru líkir í því að þeir gera og segja hvað sem þeim dettur í hug á hverri stundu, hundsa alla aðra enda hafi þeir alltaf rétt fyrir sér og eru báðir Ljós heimsins.“
Þessa prýðilegu greiningu á Ráðherranum kom frá Árna Bergmann á Facebook. Ég sótti einmitt tíma hjá Árna í slavneskum bókmenntum og staðleysubókmenntum í HÍ, þar sem hann kynnti okkur fyrir ýmsum misjafnlega vafasömum leiðtogum bókmenntasögunnar, í heimum sem áttu að verða góðir en urðu oftar en ekki skelfilegir.
Þetta kemur skýrar og skýrar fram í fimmta Ráðherrans; Benedikt spilar einleiki, fer á svig við reglur og skýtur fyrst og spyr svo – ákveður eitthvað og spyr svo eftir á: hvernig? Eða öllu heldur, aðstoðarkona hans spyr hann að því.
Benedikt kemur í veg fyrir að tveir hælisleitendur, úkraínskur öldrunarlæknir og sonur hennar, séu send heim. Áhorfandi sem styður slíkan mannréttindagjörning er samt settur í klemmu, sleppur þetta ef Benedikt hagar sér eins og einræðisherra, eltir allar sínar hugdettur eftir eigin hentisemi?
Hann er ekki að spila neina diplómatíska leiki, þótt hann neyðist ósjaldan að finna diplómatískar reddingar – en helsti veikleiki hans, og raunar flokksins alls, virðist vera að fólk talar ekki saman. Hann sendir Hrefnu til að ræða við sam-ráðherra sinn í stað þess að fara sjálfur – og fer svo sjálfur þegar allt er komið í kaldakol.
Þetta er líka þátturinn sem varaformaðurinn Grímur stígur fram sem sá Machíavelíski plottari sem hefur verið ýjað að í fyrri þáttum – og hann er farinn að verða helvíti skemmtilegur sem slíkur, sem erki-smjörkúkurinn sem lærir öll trikkin í bókinni og spilar á gömlu risaeðlurnar eins og slagverk. Sem og Benedikt, sem bregst dálítið mannþekkingin þegar hann segir að við „getum treyst Grími, ég treysti engum betur en honum.“
Hrefna og blaðasnápurinn Óttar eru svo loksins komin í rómans, en þau eru bæði bara farin að virka aðeins of hrekklaus og vanhæf í sín störf. En vonandi rætist úr Óttari í næstu þáttum, þar sem hann er núna svo sannarlega á milli steins og sleggju, að vinna fyrir konu Benedikts og í sambandi við aðstoðarkonu hans – og farinn að fá meira og meira af innherjaupplýsingum sem eru bæði risaskúbb en munu líka bara koma honum í klípu, bæði í vinnu og einkalífi. Og væri alveg forvitnilegt að grafa upp gömul dæmi um álíka samkrull fjölmiðla og stjórnmála á Íslandi.
Ritstjórinn hans, hún Katla, virðist hins vegar alveg gleymd núna, kannski ákvað hún bara að vera einn af þessum ritstjórum sem er bara heima að skrifa leiðara?
En aftur að Benedikt. Jú, hann er egómanískur einleikari, ekkert sérstaklega tillitssamur í sjálfhverfu sinni og virðist á hraðri leið í maníu. Geðhvarfasýki fæst staðfest af bróður eiginkonunnar.
En hann er forsætisráðherra að berjast gegn kerfinu, kerfi sem birtist okkur sem trénað, ónýtt. Kerfi sem er ekki hannað til að tryggja lýðræði heldur til að hindra það. Og hann finnur bara þá leið að haga sér sem einræðisherra.
Við bætist hundurinn, sem birtist á ólíklegustu stundum, og maður er farinn að sannfærast um að sé ekki til, aðeins myndbirting sjúkdómsins. Svo flytur hann drungaleg ljóð við hvert tækifæri, sem er auðvitað afskaplega vafasamt.
Í afmæli frúarinnar bíður hann svo tveimur hælisleitendum – og eiginkonan Steinunn tekur á móti þeim og þar að halda aftur að tárunum. Hvað er hann Benedikt að draga svona útlenskt almúgafólk inní hennar afmæli? Og slettir svo barbarísku máli í þokkabót.
Í kjölfarið fylgir eitthvað sem hefði endað sem hressilegur samsöngur í öðru partíi, en endar sem óþægileg þögn í þessu. Steinunn sakar hann eftirá um að vera „löngu hættur að hlusta á allt sem ég segi“ – og hefur alveg rétt fyrir sér í því, en hann svarar á móti:
„Ef það var eitthvað af þessu afmæli þá er það þitt fólk, sem getur ekki sungið og er bara aldrei í stuði. Helvítis Sjálfstæðispakk.“
Sem staðfestir ýmislegt sem mann hafði grunað. Steinunn gekk kannski út úr fjölskyldunni – en hún gekk aldrei úr flokknum. Að sama skapi gekk Benedikt aldrei raunverulega í flokkinn, hann giftist bara inn í hann. Ef hann hefði endað með leiklistarstelpunni Salóme hefði hann örugglega endað í öllu vinstri sinnaðri flokki. Sem sýnir að jú, hann hlustar á konurnar í lífi sínu, jafnvel of mikið, þangað til hann hættir því.
Eftir standa óþægilegar spurningar. Hvað er félagslega viðurkennt? Að breyta kerfinu innan frá, í gegnum þingið og flokkana, eða er það mögulega ómögulegt eilífðarverkefni – og þarf kannski bara forsætisráðherra í geðhvörfum til þess að hreyfa eitthvað við þessu rótgróna kerfi rasisma og flokkræðis?
Sjá nánar hér: Forsætisráðherrann gegn kerfinu