Ásgeir H. Ingólfsson heldur áfram að skrifa um Ráðherrann og fjallar nú um fjórða þátt. Þættir 1 og 2 eru hér og þáttur 3 hér.
Ásgeir skrifar:
Guð í vélinni, deus ex machina, var skáldskapartrix sem var svo ofnotað í Grikklandi til forna að hugtakið varð fljótlega að hinu mesta hnjóðsyrði og til marks um letileg skrif. Samt dúkkar það alltaf við og við upp kollinum ennþá – og sjaldnast til bóta.
Upphaflega var stundum bókstaflega átt við Guð – en þegar á leið á þetta einfaldlega við um persónur sem dúkka upp eins og skrattinn úr sauðaleggnum og redda hetjunum úr að virðist ómögulegri stöðu eða gerbreyta öllu plottinu.
Þetta gerist snemma í fjórða þætti Ráðherrans, þegar Benedikt er bókstaflega í vél, flugvél, þar sem hann hittir gamla kærustu sem segir honum að samningarnir sem hann er að fara að undirrita um nýtt hótel séu nú ekki alveg nógu sniðugir. Þarna sé varpland fugla – og seinna kemur í ljós að mamma Benedikts, sem hingað til hefur ekki verið minnst á, hafi verið aðalstuðningsmaður þess að vernda svæðið.
Það er í raun margt gott í þessum Akureyrarþætti. Hér fáum við loks betri tilfinningu fyrir fortíð Benedikts og fjölskyldusögu, og það er ýmislegt sniðugt í uppbyggingu hennar. Siggi Sigurjóns fær virkilega að njóta sín í einu atriði og fáir túlka undirliggjandi harm betur en hann. Eins er gamla kærastan skemmtileg vísbending um meira bóhemlíf á Akureyri – og maður fær jafnvel á tilfinninguna, að jafn lítið og Benedikt virðist hlusta á annað fólk þá virðist konurnar í lífi hans merkilega lunknar við að stjórna því á hvaða braut hann fer. Þannig hafi hann sveigt af bóhemabrautinni þegar hann hætti með leikhússtelpunni og yfir á braut stjórnmálanna og flokksins þegar hann kynntist óstýrilátri tengadóttur Sjálfstæðisflokksins.
En þessi klaufalega frásagnartækni í upphafi klúðrað þessu öllu saman. Aðallega af því svona lagað heyra stjórnmálamenn ekki bara allt í einu í óspurðum fréttum, svona aðgerðum fylgja mótmæli og umræður alla jafna, ef þær eru jafn umdeildar og þarna virðist. Nema þetta sé til marks um að hann sé svona svakalega sjálfhverfur og í litlum tengslum við umhverfið? Gæti verið, en þá ætti einmitt aðstoðarkonan jarðbundna að skerast í leikinn.
Það er hins vegar farið að færast fjör í leikinn í valdabaráttu þingflokksins. Gömlu hundarnir bregðast svo sem við á fyrirsjáanlegan hátt – en það er eitthvað skítaglott komið á forseta Alþingis, varaformanninn Grím, sem segir manni að hann sé með eitthvað svakalegt plott á prjónunum.
Hann Grímur fékk einmitt skemmtilega greiningu hjá barnabókahöfundinum Bryndísi Björgvinsdóttur á Facebook í vikunni – kannski er þetta eitt lykilplott seríunnar? Kannski vísar titillinn Ráðherrann í allt annan ráðherra en við héldum?
„Það var nú gaman að sjá þessa freudísku geldingu á stjórnmálamanni sem gerður er að Forseta Alþingis og fer í tráma yfir því, og hvernig honum gengur síðan að endurheimta phallusinn aftur!“
Sjá nánar hér: Gamla kærastan í vélinni