Guðrún Elsa Bragadóttir skrifar svargrein í Hugrás við grein Ásgríms Sverrissonar Hefur konum í leikstjórastól fjölgað á síðustu árum?
Guðrún skrifar:
Í septembermánuði flutti ég þrjá pistla um konur í íslenskri kvikmyndagerð í Víðsjá á Rás 1, en ég var beðin um að semja pistlana í kjölfar þess að kafli eftir mig birtist í erlendri bók um konur í alþjóðlegum kvikmyndaiðnaði, Women in the International Film Industry: Policy, Practice and Power (Palgrave, 2020). Eftir flutning annars pistilsins í röðinni birti Ásgrímur Sverrisson greinina „Hefur konum í leikstjórastól fjölgað á síðustu árum?“ sem telja mætti nokkurs konar svar við umfjöllun minni á vefsíðu sinni, Klapptré. Ástæður þess að ég er örlítið hikandi við að kalla grein hans svar við mínum pistlum, þótt hann vísi til annars þeirra áður en hann byrjar að svara spurningunni sem hann setur fram í titlinum, eru þrjár.
Í fyrsta lagi einblínir Ásgrímur einungis á kvenleikstjóra í umfjöllun sinni. Útgangspunktur pistils míns er vissulega mikilvægasta niðurstaða rannsóknar sem Hagstofa Íslands birti í febrúar 2018; að karlmenn hefðu leikstýrt 90% allra íslenskra frásagnarmynda í fullri lengd síðan sú fyrsta kom út árið 1949. Ég geng reyndar líka svo langt að uppfæra tölur Hagstofunnar svo að síðustu tvö ár áratugarins sem var að líða séu tekin með, en komst því miður að þeirri niðurstöðu að tölfræðin stendur óbreytt. Það sem mér finnst hins vegar langáhugaverðast við pistilinn minn—og er í raun meginviðfangsefni hans—er sú niðurstaða rannsóknarinnar sem ég vann fyrir kaflann minn: að konum hefur líka fækkað á öðrum sviðum hérlendrar kvikmyndagerðar. Ásgrímur fjallar hins vegar einungis um kvenleikstjóra í grein sinni.
Í öðru lagi fjallar hann jöfnum höndum um kvikmyndir og sjónvarpsþætti, en því miður hefur mér aðeins gefist rými til að fjalla um stöðu kvenna þegar viðkemur gerð frásagnarkvikmynda í fullri lengd. Rannsóknir á öðrum greinum kvikmyndagerðar og sjónvarpsefnis þurfa að bíða betri tíma.
Í þriðja lagi tekst hann ekki með beinum hætti á við niðurstöður mínar heldur handvelur tímabil sem hann býr til tölfræði um sem samræmist hans „tilfinningu varðandi stöðuga aukningu á þátttöku kvenna í lykilpóstum kvikmyndagerðar á þeim sjö árum sem Klapptré hefur komið út.“ En þess má geta að ég gef sterklega til kynna í pistli mínum að ég hafi takmarkaðan áhuga á tilfinningum fólks fyrir kvikmyndaiðnaðinum, enda hafi niðurstöður mínar stangast á við mína tilfinningu. Þær komu mér á óvart vegna þess að ég hafði ímyndað mér að staða kynjanna væri jafnari innan kvikmyndaiðnaðarins.
Hvort sem líta má á grein Ásgríms sem svar við pistlunum mínum eða ekki, er ástæða til að staldra við aðferðirnar sem hann beitir til að svara spurningunni sem brennur á honum varðandi fjölgun kvenna á leikstjórastóli undanfarin ár. Þar er það fyrsta sem stingur lesanda að hann kýs að taka fyrir tímabilið 2016–2020, þótt þrír mánuðir séu enn eftir af árinu, og bítur svo höfuðið af skömminni með því að taka árið 2021 með, þótt við getum flest (a.m.k. þau okkar sem ekki hafa spádómsgáfu) verið sammála um að við vitum jafnvel enn síður hvað á eftir að gerast á næsta ári en á síðustu mánuðum þessa árs. Þar að auki skilgreinir hann og skoðar sérstaklega tímabilið á undan frá 2006–2015, en það er vissulega dapurlegt tímabil, tölfræðilega séð, fyrir kvenleikstjóra. Þetta gerir honum þó kleift að mála upp mynd sem sýnir hversu slæmt ástandið var á þessum tiltekna áratug, 2006–2015, í samanburði við þá sprengingu sem virðist í samanburði hafa átt sér stað síðustu fimm ár, sem verður enn stórbrotnari ef árið sem ekki er enn upp liðið er tekið með í reikninginn.
Nú erum við byrjuð að greina mælskulist, svokallaða. Það sem er undir eru ekki upplýsingar, heldur það hvernig þær eru settar fram svo áhrifin verði sem mest. Vegna þess að stökkið úr 8% á áratugnum 2006–2015 yfir í 33% árin 2016–2021 er mun tilkomumeira en að konur hafi leikstýrt 16% kvikmynda á fyrsta áratug þessarar aldar en 9% kvikmynda árin 2010–2019. Hins vegar eru slíkar sveiflur, úr 16% í 9%, mun eðilegri og raunsæislegri en sveifla úr 8% í 33%, sem gæti gefið til kynna að með þessu áframhaldi taki kvenleikstjórar íslenska kvikmyndaiðnaðinn fulllkomlega yfir á næstu fimmtán árum eða svo.
Ég skil sjálf þá tilhneigingu til melódramatíkur sem birtist í stökkinu úr 8% í 33%—slíkar niðurstöður eru meira spennandi en tölur sem mjakast aðeins niður á við, úr 16% í 9%. Hins vegar verð ég í þessu tilfelli að taka mér stöðu með óspennandi veruleika, frekar en krassandi tölum um að framlag kvenleikstjóra sé að rjúka upp úr öllu valdi, eins og áramótaflugeldur sem er þegar búinn að springa og taka yfir allt næsta ár. Lykilatriðið hér er að hafa í huga að framlag kvenna getur alltaf aukist tímabundið og hrunið aftur. Tölfræðin fyrir síðasta áratuginn sýnir reyndar að sú aukning sem varð frá árunum 2017 til 2019 var ekki nógu stórkostleg til að laga kynjahlutföll áratugarins og jafna hann áratugnum á undan. Fyrir utan það er ekki nóg að konur geri fleiri myndir til að staðan jafnist innan kvikmyndaiðnaðarins, vegna þess að framleiðsla frásagnarmynda eykst með hverjum áratug—a.m.k. hefur hún gert það hingað til og kemur eflaust til með að vaxa enn meira með nýrri kvikmyndastefnu sem gildir til 2030.
Og kemur nú að árunum 2020 og 2021. Undir fyrirsögninni „2016–2021 – um 33% bíómynda leikstýrt af konum“ segir Ásgrímur að alls hafi „verið sýndar 26 bíómyndir (til dagsins í dag, 22. sept). Konur hafa leikstýrt 6 þeirra, eða tæpum fjórðungi“ og svo vísar hann til lista Kvikmyndamiðstöðvar Íslands yfir íslenskar kvikmyndir. Mér telst hins vegar svo til að 22. september hafi 31 íslensk kvikmynd verið frumsýnd síðan 2016.[1] Talning mín gæfi því til kynna að konur hafi leikstýrt um 20% mynda tímabilsins, en ekki tæpum fjórðungi eins og Ásgrímur skrifar þegar hann gengur út frá því að konur hafi leikstýrt 6/26 eða 23% mynda tímabilsins. Í kjölfarið bendir hann á að fjórar myndir sem teknar hafi verið upp fyrir 2020 séu enn ósýndar og tekur hann þá ákvörðun að búa til tölfræði sem gerir ráð fyrir að þrjár þessara íslensku frásagnarmynda í fullri lengd verði frumsýndar áður en árið er úti. Þar sem tvær myndanna er leikstýrt af konum og einni er meðleikstýrt af konu batnar tölfræðin enn frekar; talan fer upp í 9 af 29, eða um 30%.
Ein af myndunum sem hann telur þarna með, Skuggahverfið, eftir Karolinu Lewicka og Jón Gústafsson, var frumsýnd 29. september í Bíó Paradís og önnur er væntanleg 16. október, Hvernig á að vera klassa drusla eftir Ólöfu Birnu Torfadóttur. Ég gat ekki fundið neinar upplýsingar um að aðrar íslenskar myndir séu væntanlegar í bíó á þessu ári, hvorki á síðum kvikmyndahúsanna né annars staðar. En ef við tökum þessar tvær með telst mér svo til að um fjórðungur frásagnarkvikmynda í fullri lengd á tímabilinu 2016–2020 sé leikstýrt eða meðleikstýrt af konu, sem er vissulega fínt hlutfall, en spannar bara fimm ár. Ef við veljum handahófskennt tímabil til samanburðar mætti nefna að konur leikstýrðu 30% allra íslenskra frásagnarmynda á árunum 1990–1994. Þess má geta að sú tölfræði er fengin í krafti þess að íslenskar konur leikstýrðu eða meðleikstýrðu fjórum myndum árið 1992, en heildarfjöldi íslenskra frásagnarmynda í fullri lengd á tímabilinu 1990–1994 er þrettán.
Næsta skref Ásgríms er að taka árið 2021 með í reikninginn, en þar vísar hann hvergi í heimildir um áætlaðan frumsýningardag þeirra níu íslensku mynda sem hann gerir ráð fyrir að verði frumsýndar á næsta ári, en samkvæmt útreikningum hans munu fjórar þeirra verða eftir konur. Að vísu fylgdu titlar myndanna ekki með svo ég gat ekki flett upp eins nákvæmlega og ég hefði viljað. Þá bætir hann árinu við heldarútreikninganna og tekur þannig sex ár með í reikninginn, 2016–2021, og kemst að þeirri niðurstöðu að konur muni þá hafa leikstýrt þriðjungi allra mynda á tímabilinu (13 af 38). Við getum gert það sama við handahófskennda tímabilið 1990–1994 og bætt við árinu 1989, svo sex ár séu undir. Það herrans ár komu út tvær myndir hérlendis, Kristnihald undir Jökli (Guðný Halldórsdóttir) og Magnús (Þráinn Bertelsson). Ef það ár er tekið með í tölfræðina fæst nákvæmlega sama niðurstaða; konur leikstýrðu þriðjungi allra frásagnarmynda tímabilsins (5 af 15).
Nú er kannski eins og ég sé komin út í hártoganir. En Ásgrímur byrjaði. Og fór að rífa í hár sem hafa ekki enn sprottið, hvað þá farið í litun og permanent.
Ástæðan fyrir því að ég læt þessa tölfræði ekki vera og hugsa um eitthvað annað er hættan á því að fólk fari að ímynda sér að staða kvenna sé að lagast smám saman og að við þurfum ekkert að pæla í því meir. Í raun er það merkilegasta við grein Ásgríms að aðferðir hans hafi ekki málað stöðu kvenna enn bjartari og uppörvandi litum, vegna þess að sama hvað hann reynir— og hann seilist lengra en nokkur málefnaleg umræða þolir, þ. á m. að spá í spilin um mögulega framtíð og að taka með óútkomnar myndir, en frumsýning þeirra gæti frestast eins og oft er raunin—þá eru heimturnar furðu fátæklegar. Honum tekst bara að komast upp í það að konur leikstýri þriðjungi allra mynda á sex ára tímabili sem endar eftir ár og þrjá mánuði. Semsagt, alveg eins og á árunum 1989 til 1994.
[1] Hér gæti skilgreiningin á „íslenskri mynd“ haft áhrif, en ég kemst ekki niður í nema 29 ef ég tek út myndir sem leikstýrt er af erlendum karlmönnum en eru á íslensku, með íslenska leikara og framleiddar af Íslendingum og með Íslendinga í öðrum hlutverkum í tökuteymi og í framleiðslu (A Reykjavik Porno og Pale Star e. Graeme Maley og Vesalings elskendur e. Maximilian Hult). Þess má geta að ég tek myndir eftir íslenska leikstjóra sem eru á ensku, með erlenda leikara og framleiðslu- og tökuteymi ekki með íslenskum myndum (t.d. Child Eater (2016) e. Erling Óttar Thoroddsen).
Sjá nánar hér: Staðreyndir vs. mælskulist | Hugrás