spot_img

Lilja Ósk Snorradóttir nýr formaður SÍK

Lilja Ósk Snorradóttir.

Aðalfundur SÍK, Sambands íslenskra kvikmyndaframleiðenda, fór fram (rafrænt) á dögunum. Lilja Ósk Snorradóttir hjá Pegasus var kjörin formaður samtakanna og tekur við af Kristni Þórðarsyni sem situr áfram í stjórn.

Á fundinum fór Kristinn Þórðarson, fráfarandi formaður, yfir stöðu kvikmyndaiðnaðar á Íslandi og lagði hann ríka áherslu á að til mikils væri að vinna fyrir stjórnvöld að leggja áherslu á að styrkja iðnaðinn nú en mörg erlend kvikmyndafyrirtæki hafa sýnt því áhuga að koma til Íslands til þess að taka upp kvikmyndaverkefni vegna góðs árangurs í baráttunni við kórónuveiruna. Hins vegar sagði hann að til þess að tryggja komu þessara verkefna til landsins væri nauðsynlegt að hækka endurgreiðsluhlutfall vegna kvikmyndaverkefna. Þá fór Kristinn yfir störf stjórnar á liðnu ári en stjórnin vann ötult starf í þágu greinarinnar á árinu; barðist fyrir leiðréttingu á fjárheimildum vegna endurgreiðslna, gaf út skýrslu með hagtölum um kvikmyndagreinina, hannaði svokallaða B-sóttkví fyrir erlent kvikmyndafólk í samstarfi við Íslandsstofu og fleira.

Lilja Ósk Snorradóttir var kjörin formaður stjórnar fyrst kvenna síðan SÍK sameinaðist Framleiðendafélaginu árið 2000 og varð til í þeirri mynd sem það starfar í dag.

Lilja Ósk er meðeigandi kvikmyndaframleiðslufyrirtækisins Pegasus og hefur verið framkvæmdastjóri þess frá árinu 2010. Lilja hefur yfir tuttugu ára reynslu úr kvikmyndabransanum og er með BSc gráðu í viðskiptafræði. Hún hefur framleitt og meðframleitt fjölda kvikmynda sem margar hverjar hafa unnið til kvikmyndaverðlauna um allan heim. Sem dæmi má nefna Bergmál, Arctic og Þresti. Þá hefur Lilja einnig framleitt efni fyrir sjónvarp sem sýnt hefur verið á Íslandi og víðsvegar um Evrópu. Hjá Pegasus hefur Lilja komið að þjónustuverkefnum hér á landi fyrir nokkrar af vinsælustu sjónvarpsþáttaröðum í heimi; Game of Thrones, Succession og Fortitude.

Á fundinum voru einnig kjörnir í stjórn Hilmar Sigurðsson frá Saga Film, Inga Lind Karlsdóttir frá Skot Productions, Kristinn Þórðarson frá Biggest Deal og Anton Máni Svansson frá Join Motion Pictures. Fyrir í stjórn sátu Guðbergur Davíðsson frá Ljósopi og Hlín Jóhannesdóttir frá Vintage Pictures.

Sjá nánar hér: Lilja Ósk nýr formaður SÍK

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR