Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, hefur skipað nýtt átta manna kvikmyndaráð. Sigurjón Sighvatsson, kvikmyndaframleiðandi og athafnamaður, er formaður ráðsins.
Þetta kemur fram á vef RÚV og þar segir einnig:
Varaformaður ráðsins er Margrét Örnólfsdóttir. Auk Sigurjóns og Margrétar sitja Anna Þóra Steinþórsdóttir, Ragnar Bragason, Lilja Ósk Snorradóttir, Lilja Ósk Diðriksdóttir, Birna Hafstein og Bergsteinn Björgúlfsson í ráðinu.
Samkvæmt kvikmyndalögum skal kvikmyndaráð vera stjórnvöldum og Kvikmyndamiðstöð Íslands til ráðgjafar um málefni kvikmynda. Ráðið gerir jafnframt tillögur til ráðherra um stefnu og markmið opinberra aðgerða á sviði kvikmyndalistar.
Ráðherra skipar kvikmyndaráð til þriggja ára í senn. Formaðurinn er skipaður án tilnefningar en hinir sjö eru skipaðir samkvæmt tilnefningum. Sigurjón tekur við af Áslaugu Maríu Friðriksdóttur, sem var formaður ráðsins frá 2016 til 2019.
Sjá nánar hér: Sigurjón Sighvatsson skipaður formaður kvikmyndaráðs