Stórmynd um vestur-íslenska Olympíumeistara í íshokkí í undirbúningi

Snorri Þórisson hjá Pegasus undirbýr ásamt forsvarsmönnum kanadíska fyrirtækisins Buffalo Gal Pictures í Winnipeg gerð kvikmyndar um íshokkílið Fálkanna en beðið er eftir grænu ljósi frá Kvikmyndasjóði Íslands. „Gangi fjármögnun eftir hér geta tökur hafist á næsta ári og frumsýning yrði þá um ári síðar,“ segir Snorri í viðtali við Morgunblaðið.

Í frétt Morgunblaðsins segir:

Ísknatt­leik­ur var fyrst keppn­is­grein á Ólymp­íu­leik­um í Antwerpen í Belg­íu 1920. Fálk­arn­ir frá Winnipeg kepptu fyr­ir hönd Kan­ada og liðið, sem var skipað fyrstu kyn­slóð Kan­ada­manna af ís­lensk­um ætt­um að ein­um manni und­an­skild­um, kom, sá og sigraði.

Dav­id Square sendi frá sér bók­ina When Falcons Fly 2007 og skömmu síðar gerði Snorri samn­ing við hann um að styðjast við bók­ina við gerð kvik­mynd­ar. Ekki tókst að gera kvik­mynd í fyrstu til­raun. Snorri seg­ir að verk­efnið hafi verið geymt en ekki gleymt. „Mér fannst það svo spenn­andi og tók því þráðinn upp aft­ur nokkr­um árum síðar,“ seg­ir hann. „Þótt kvik­mynd­in sé um stráka sem hafa brenn­andi áhuga á að leika ísknatt­leik er þetta ekki mynd um ísknatt­leik, held­ur að þurfa að sigr­ast á fé­lags­legu órétt­læti í nýju heimalandi.“

Kost­ar liðlega millj­arð

Vinnu­heiti mynd­ar­inn­ar er Falcons For­ever eða Fálk­ar að ei­lífu. „Þetta er kvik­mynd um „strák­ana okk­ar“ sem unnu gull­verðlaun á Ólymp­íu­leik­un­um fyr­ir einni öld,“ seg­ir Snorri. „Það var um kráku­stíg að fara vegna þess að lengi vel fengu þeir ekki aðgang að liðum í Winnipeg því þar var litið niður á Íslend­inga á þess­um tíma. Eft­ir að ég fékk aft­ur rétt­inn á bók­inni samdi ég við kanadísk­an hand­rits­höf­und sem skrifaði fyrsta hand­rit sem ég varð því miður að segja skilið við vegna þess að út­kom­an var týpísk ísknatt­leiks­mynd en ekki um per­són­ur og leik­end­ur, sem alltaf er áhuga­verðast í kvik­mynd­um.“

Snorri Þórisson stjórnarformaður og eigandi Pegasus | Mynd: Haraldur Sigurjónsson/Viðskiptablaðið.

Hann seg­ist því hafa leitað annað en allt farið á sama veg. Í kjöl­farið hafi hann ásamt Nínu Peter­sen skrifað grunn að hand­riti og fengið hand­rits­höf­und­inn Shawn Lind­en í Winnipeg til að full­komna verkið. „Tals­menn Buffalo Gal Pict­ur­es í Winnipeg eru mjög ánægðir með út­kom­una,“ seg­ir hann.

Frank Frederickson.

Óskar Þór Ax­els­son hef­ur verið feng­inn til að leik­stýra kvik­mynd­inni. Frank Frederickson (Sig­urður Frank­lín Jóns­son), fyr­irliði Fálk­anna, er aðal­per­són­an og Snorri seg­ir að Frank og fjöl­skylda hans verði þunga­miðja kvik­mynd­ar­inn­ar. Gert sé ráð fyr­ir að Jó­hann­es Hauk­ur Jó­hann­es­son og Sara Dögg Ásgeirs­dótt­ir leiki for­eldra hans og Elín Sif Hall­dórs­dótt­ir syst­ur hans.

Áætlaður fram­leiðslu­kostnaður er liðlega millj­arður ís­lenskra króna, sem er mjög mikið miðað við ís­lenska kvik­mynd. „Að koma þessu á kopp­inn hef­ur verið langt og dýrt ferli og ekki marg­ir fjár­fest­ar sem setja pen­inga í menn­ingu og kvik­mynd­ir, en Ró­bert Wessman hef­ur stutt okk­ur vel.“ Spurður hvort öll sund lok­ist án stuðnings KMÍ seg­ir Snorri: „Ég hef alltaf verið frek­ar bjart­sýnn og trúi að KMÍ veiti þessu verki braut­ar­gengi en ef ein­ar dyr lokast þá opn­ast aðrar.“

Sjá nánar hér: Kvikmynd um Fálkana

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR