Fréttablaðið um JARÐARFÖRINA MÍNA: Vetrar­sól­hvörf í lífi leiðin­legs manns

„Virki­lega vel gerðir, nota­legir og skemmti­legir þættir þar sem harmur og grín vega hár­fínt salt þannig að út­koman er eigin­lega bara ó­geðs­lega krútt­leg,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um þættina Jarðarförin mín í leikstjórn Kristófers Dignusar Péturssonar.

Þórarinn skrifar:

Karlar í kreppu hafa verið fyrirferðarmiklir í kvikmyndaskáldskap það sem af er öldinni og þá ekki síst fauskar sem komnir eru af léttasta skeiði og eru að sligast undan sjálfum sér og karlmennsku sem þarf ekki endilega að vera eitruð þótt hún sé klárlega úldin og menguð.

Benedikt í sjónvarpsþáttunum Jarðarförin mín, sem Sjónvarp Símans gerði aðgengilega rétt fyrir páska, er einn þessara sorglegu karla. Laddi leikur þennan 67 ára fausk sem má setja í samhengi við til dæmis Ingimund, sem Ingvar E. Sigurðsson leikur í kvikmyndinni Hvítur, hvítur dagur, og geðstirðan Svía sem margir kannast við og heitir Ove.

Benedikt er óhjákvæmilega um margt náskyldur þessum mönnum en um leið nógu ólíkur til þess að eiga fullt erindi á sínum eigin forsendum. Ekki síst vegna þess að hann er bráðfeigur og mögulega fær fegurðin sem af þessum þáttum stafar eitthvað af sínum ljóma frá þeirri von að með jarðarförinni hans Benedikts séum við mögulega að kveðja þessa ákveðnu karlmannsgerð.

Gamall fretur á síðasta séns

Þórhallur Sigurðsson, Laddi sjálfur, nýtur sín í hlutverki Benedikts þar sem hann er, hvernig sem því er snúið, „öðruvísi“ en við og kannski hann sjálfur eigum að venjast. Fyndinn og skemmtilegur er hann þó eins og venjulega en nær einnig að túlka angist og harm manns sem finnur lífsþorstann á ný þegar það er orðið of seint.

Auðvitað hljómar þetta kunnuglega og alls konar tilbrigði við þessa sögu hafa verið sögð áður í öllum hugsanlegum tóntegundum þannig að þótt landslagið sé kunnuglegt leggur handritshöfundateymið síður en svo á öruggar slóðir.

Við hvert fótmál eru klisjupyttir sem væri svo auðvelt og jafnvel freistandi að stíga í þannig að það má virkilega hrósa mannskapnum fyrir að dansa listilega á mörkunum en sneiða þannig hjá öllum gildrunum þannig að útkoman er falleg og hjartnæm saga sem er laus við alla tilgerð og kjánahroll.

Mannlegur gleðileikur

Benedikt er rétt orðinn löggilt gamalmenni og nýhættur í leiðinlegu vinnunni sinni þar sem hann var leiðinlegastur allra þegar æxli finnst í heila hans og 80% öruggur dauðadómur er upp kveðinn. Þá hristir hann af sér klafa bælingar og þvermóðsku sem hann hefur burðast með í áratugi og ætlar að bruna á nýrri Teslu í gegnum gráa fiðringinn og hálfa mannsævi í sex 50 mínútna löngum sjónvarpsþáttum.

Glæsilegur hápunkturinn á svo að vera hans eigin jarðarför sem hann ætlar bæði að skipuleggja og vera viðstaddur. Þessi lífsneisti og fíflagangur í dauðvona manninum fer heldur illa í hans nánustu, einkasoninn, tengdadótturina og fyrrverandi eiginkonuna, þannig að óþægileg uppgjör verða

Jafnvægi lífs og dauða

Þessu hefði svo auðveldlega mátt klúðra en hér leggst allt á eitt í vandaðri framleiðslu þar sem feilsporin eru svo fá og smá að það tekur því ekki að rekja þau. Sagan er áhugaverð frá fyrstu mínútum og síðan líður þetta bara áfram á þægilegu tempói.

Grín og harmur vega salt þannig að hvorugt nær nokkru sinni að yfirskyggja hitt og skemmtilega útfærð tónlistaratriði vekja alls kyns hughrif á réttum augnablikum.

Laddi ber þættina uppi með sóma, dyggilega studdur af legíói af senuþjófum sem eflast eftir því sem á líður. Ævar Þór, best þekktur sem vísindamaður, tekur góða dramakippi sem sonurinn ringlaði. Einar Gunn er yndislegur sem eini vinur Benedikts og Ragnheiður Steindórsdóttir og Harpa Arnardóttir ljá þessu drama dásamlegan og alvöruþrunginn léttleika sem konurnar í lífi og væntanlega dauða Benedikts.

Hin níu ára gamla Birta Hall glansar síðan algerlega í hlutverki afastelpunnar þannig að skammt hrekkur að tala aðeins um senuþjóf þar sem hún stelur hjörtum og eiginlega bara seríunni allri.

Niðurstaða: Jarðarförin mín dregur merkilega dám af aðalleikaranum og er bara svolítill Laddi. Fyndin á yfirborðinu en undir niðri leynist tregi. Virkilega vel gerðir, notalegir og skemmtilegir þættir þar sem harmur og grín vega hárfínt salt þannig að útkoman er eiginlega bara ógeðslega krúttleg.

Sjá nánar hér: Vetrar­sól­hvörf í lífi leiðin­legs manns

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR