Tökur standa nú yfir á fyrstu bíómynd Tinnu Hrafnsdóttur, Stóra skjálfta, sem byggð er á samnefndri bók Auðar Jónsdóttur. Rætt var við Tinnu um verkefnið og annað í þættinum Segðu mér á Rás 1.
Á vef RÚV segir:
Fyrsta kvikmynd leikstjórans Tinnu Hrafnsdóttur í fullri lengd byggist á bókinni Stóra skjálfta eftir Auði Jónsdóttur. Í henni rannsakar aðalpersónan sjálfa sig og eigið líf, eftir að hafa misst minnið að hluta til, og kemst að ýmsum leyndardómum sem fjölskylda hennar hefur reynt að þagga niður. Tinna segist sjálf tengja við margt í bókinni.
Tinna Hrafnsdóttir, leikkona og leikstjóri, hefur í nógu að snúast um þessar mundir bæði fyrir framan og fyrir aftan myndavélina. Hún er hálfnuð með tökur á sinni fyrstu kvikmynd í fullri lengd sem nefnist Skjálfti og er hún byggð á bók Auðar Jónsdóttur, Stóra skjálfta. Það er þó ekki það eina sem hún er að fást við þessa dagana því á milli þess sem hún hrópar „Gjörið svo vel,“ og „takk fyrir,“ á kvikmyndasettinu flýgur hún til Prag og leikur aðstoðarkonu drottningar í nýrri seríu á móti stórleikkonunni Trine Dyrholm. Þar reynir á dönskukunnáttu Tinnu.
Tinna hefur auk þess brugðið sér í fleiri hlutverk upp á síðkastið því hún lék hlutverk í spennuþáttunum Broti sem sýndir voru á RÚV í vetur. Hún fer einnig með hlutverk innanríkisráðherra í nýjum þáttum sem nefnast Ráðherrann og verða frumsýndir í haust. Hún hefur því í ýmsu að snúast en segist hún njóta þess vel að hafa mörg járn í eldinum og að takast á við spennandi áskoranir. Tinna var gestur Viðars Eggertssonar í þættinum Segðu mér þar sem hún sagði frá fyrstu kvikmyndinni sem hún leikstýrir og hvernig hún samsamar sig Sögu, aðalpersónu Stóra skjálfta eftir Auði Jóns, sem varð til þess að sú saga varð hennar fyrsta stóra leikstjórnarverkefni.
Átti sjálf erfitt með að treysta
Þegar Tinna fór þess á leit við Auði að hún myndi leikstýra mynd sem byggðist á Stóra skjálfta leist höfundinum strax vel á samstarfið enda eru Saga, aðalpersóna bókarinnar, og Tinna ekki ólíkar. „Ég átti sjálf erfitt með að treysta á árum áður og fannst ég þurfa að treysta bara á sjálfa mig. Ég fór að vinna með það, og komst að því að það væri ekki þannig að traustið væri svona vanfundið í heiminum. Ef maður kemst á þann stað að sleppa tökunum og treysta, þá líður manni strax betur,“ segir Tinna um bókina sem hafði mikil áhrif á hana. „Kjarni sögunnar snart mig djúpt og ég fann leið að henni sem hentar forminu.“
Í sögunni fer Saga í ákveðið rannsóknarferðalag, en ekki til að rannsaka glæpi eða elta morðingja, heldur að leita að brotum úr fortíð sinni, atburðum sem hún sjálf man ekki og átta sig á því hvað kom fyrir hana. Til að byggja upp spennu í myndinni ákvað Tinna að halda áhorfendum í myrkrinu með Sögu og fá að vera samferða henni að sannleikanum. „Við fylgjum henni alfarið og fáum aldrei að vita meira en hún. Ég sá að það gæti verið skemmtilegt svo handritið er byggt upp eins og spennusaga,“ segir hún.
Rannsóknin hefst þegar Saga fær fyrsta flogakastið í tólf ár. Hún er á þeim tímapunkti nýskilin einstæð móðir með sex ára barn. Hún er að reyna að skrifa skálfsögu sem henni gengur ekki vel að klára. Bókina byggir Auður að hluta á sjálfri sér og sinni reynslu en Tinna aðlagar söguna að kvikmyndaforminu með leyfi höfundar svo að Saga er framkvæmdastjóri í sjálfstæðu leikhúsi í myndinni, eins og Tinna hefur sjálf verið.
Margra ára gamalt leyndarmál og duldar minningar
En líkt og í bókinni fær Saga, sem stórleikkonan Aníta Briem leikur, heiftarlegt flogakast á Klambratúni og týnir í kjölfarið syni sínum. Eftir atburðinn missir hún að hluta minnið eins og stundum gerist eftir að fólk fær flog. Hún stendur því frammi fyrir því að púsla saman lífi sínu og þarf að leita svara með því að kafa inn á við. Í leiðangri sínum kemst hún að ýmsu sem hana óraði ekki fyrir um sjálfa sig og fortíð sína sem leiðir hana að áfalli sem hún varð fyrir þegar hún var sex ára en bældi niður á meðan fjölskyldan þagði um það.
Kjarni sögunnar snýr því að umdeildu sálfræðilegu fyrirbæri sem kallast duldar minningar þó sagan taki ekki afstöðu með eða á móti tilvist þeirra. „Sumir læknar segja að þetta sé ekki rétt,“ áréttar Tinna. „Engu að síður þá er komið þarna inn á minnið og hvað við búum til af okkar veruleika sjálf. Mín skynjun er alltaf bara mín skynjun, við erum alltaf að túlka raunveruleikann, búa til, skálda og fylla í eyðurnar.“
Leyndarmálið sem hún kemst að hefur verið þaggað niður í fjölskyldunni í áraraðir og allir láta eins og ekkert hafi í skorist. Tinna segir slíkt ástand algengt í fjölskyldum. „Mér fannst svo sterkt að segja sögu um þöggun og að fást við afleiðingar hennar. Við fylgjumst með henni komast að þessu og hvernig hún vinnur úr því. Í raun má segja að flogaveikin sé myndlíking fyrir þær aðstæður þegar fólk hleypur á veggi og missir tökin,“ segir Tinna sem segir að margir ættu að geta tengt við efni sögunnar. „Þetta gæti verið saga um konu sem er óvirkur alki og dettur í það, eða manneskju sem brennur út út af álagi.“
Þegar áfallið rifjast upp fyrir Sögu fara púslin loksins að passa saman því þar liggur svarið við því af hverju hún missti tökin og fær þetta flog. „Eftir samtal mitt við taugalækni hef ég komist að því að það er staðreynd að andlegi þátturinn getur haft veruleg áhrif á þessa veiki. Ef það er ekki í lagi andlega getur það verið eldsneyti á svona köst.“
Ættgeng leiklistarbaktería
Sjálf á Tinna ekki langt að sækja leikhús- og kvikmyndabakteríuna. Faðir hennar er leikstjórinn og rithöfundur Hrafn Gunnlaugsson og amma hennar Herdís Þorvaldsdóttir leikkona. Hún segir ætternið þó ekki hafa gert útslagið þegar kom að starfsvali. Þvert á móti hafi hún alltaf ætlað að gera eitthvað allt annað, en örlögin nánast teymt hana í leikhúsið og kvikmyndabransann sem hún hefur nú starfað í um árabil, bæði á tjaldinu og fjölunum.
Kvikmyndin Skjálfti ætti að vera tilbúin á næsta ári og fara kvikmyndahátíða á milli víða um heim áður en áhorfendur á Íslandi fá að kynnast fortíð Sögu og leyndardómum fjölskyldu hennar.
Sjá nánar hér: „Þöggun er svo algeng í fjölskyldum“