spot_img

Fréttablaðið um BROT: Gengið út í hléi

Björn Thors í Brot.

„Spennulausir og klisjukenndir spennuþættir sem valda margþættum vonbrigðum og vekja miklu frekar furðu en áhuga á persónum og leikendum,“ skrifar Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðið um glæpaseríuna Brot sem nú er sýnd á RÚV.

Þórarinn skrifar:

Þegar tveir þættir eru eftir af átta þátta glæpaseríunni Brot eru hverfandi líkur á að spennan nái slíkum straumi að seigfljótandi klisjusúpan sjóði upp úr. Miklar væntingar voru eðlilega gerðar til þáttanna enda fáheyrt að Netflix hendi peningum í íslenskt púkk af þessu tagi til þess að streyma því um víða veröld. Eðlilega hljóta því kröfurnar til þáttanna að vera talsverðar og því miður eru vonbrigðin umtalsverð.

Staðan í hálfleik var einfaldlega þannig að ef Brot væri bíómynd, en ekki íslenskir spennuþættir sem ætlað er að vekja heimsathygli, hefði maður gengið út í hléi. Það lofar ekki góðu þegar helsti spennuvaldurinn er hversu mörgum klisjum verði bætt við súpuna í næsta þætti og um hversu fáránlega heimsku aðalpersónurnar geta gert sig sekar um. Að vísu hafa þættirnir vakið slíka forvitni að óneitanlega er maður kominn með smá fiðring fyrir hvaða heimskupörum „metnaðarfulla rannsóknarlögreglukonan með augastað á stöðu yfirmanns rannsóknardeildarinnar“ tekur upp á næst.

Klaufaskapur og fúsk

Klisjur geta verið ágætar og góðar til síns brúks. Annars væru þær ekki klisjur. Hins vegar þarf að snúa þeim á einhverja kanta, finna þeim nýja fleti og samhengi og í öllum bænum fara sparlega með þær. Hér er einhvern veginn eins og allar klisjur glæpabókmenntanna, ef ekki gervallrar afþreyingarmenningarinnar, séu soðnar saman en kjötkrafturinn og sósuþykkirinn gleymst.

Það er víst þekkt staðreynd í kokkafræðunum að gúllassúpan getur orðið verri eftir því sem fleiri kokkar koma að gerð hennar og Brot er þannig súpa. Frá fyrsta þætti hefur ekkert komið raunverulega á óvart nema fádæma klaufaskapur og fúsk aðalpersónanna sem eiga að vera svaka klárar löggur. Persónusköpunin er líka átakanlega grunn og hvergi örlar á spennu eða alvöru tengingum milli þeirra Katrínar og Arnars sem Nína Dögg og Björn Thors sitja uppi með og neyðast einhvern veginn til að leika langt undir getu og alkunnum hæfileikum.

Þetta er þó ekki alslæmt og þannig er tónlist Péturs Ben stórgóð og af og til magnast upp drungaleg stemning án þess þó að spenna náist upp enda fjarar hún jafnóðum út í stirðum samtölum og flumbrugangi sem er með slíkum ólíkindum að maður þarf ekkert að vera Biggi lögga til að sjá að þetta bara getur ekki gengið upp.

Umdeild rækjusamloka

Aukapersónur og leikarar eiga góðu heilli á köflum betri daga og tilþrif en aðalpersónurnar og Arndís Hrönn Egilsdóttir er til dæmis í helvíti góðum gír sem réttarmeinafræðingurinn Hugrún. Að vísu er það gömul og góð klisja að einmitt sú stétt leggi til skemmtilegustu aukapersónurnar í glæpaþáttum í sjónvarpi.

Þá eru þær allt of sjaldséðu leikkonur Arnbjörg Hlíf Valsdóttir og Guðlaug Ólafsdóttir búnar að minna ánægjulega á sig. Sérstaklega Arnbjörg sem stal fyrsta þætti eins og hann lagði sig með nístandi túlkun fíkils í djúpum skít. Víkingur Kristjánsson er síðan enn eitt ljósið í klisjudrunganum en hann leikur sveitalögreglustjóra með slíkum tilþrifum, klisjukenndum að sjálfsögðu, að hrepparígur og kunnuglegt nöldur milli þétt- og dreifbýlis blossaði upp eftir að hann lét sjá sig með rækjusamloku á vettvangi.

Sagan, hvert sem hún fer eða var ætlað að stefna, stendur þó engan veginn undir átta þáttum og breytir þá engu þótt allir hafi örugglega reynt sitt besta. Súpan getur aldrei orðið góð ef uppskriftin er í kolröngum hlutföllum.

Sjá nánar hér: Gengið út í hléi

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR