Þórður Pálsson ræðir við Fréttablaðið um þáttaröðina Brot sem hann er upphafsmaður að. Þættirnir eru nú í sýningum á RÚV en verða aðgengilegir á Netflix í mars.
Í viðtalinu kemur meðal annars fram eftirfarandi:
„Næsta febrúar eru fjögur ár síðan ég byrjaði að leika mér með þessa hugmynd. Þá var ég nýútskrifaður úr meistaranámi við National Film and Televison School í Bretlandi og ég hugsaði: Hvað næst?“ segir Þórður í samtali við Fréttablaðið. Hann segir það gríðarlega erfitt að stimpla sig inn í bransann sem nýr leikstjóri og bendir á að í raun sé eina leið nýrra leikstjóra inn í bransann að skapa sér verkefni sjálfir.
„Ég kom til Íslands sumarið eftir útskrift og fer á fund með Truenorth framleiðslufyrirtækinu og hitti meðal annars Leif [innskot blaðamanns: Leifur Dagfinnsson, stjórnarformaður Truenorth] og kynnti fyrir þeim hugmyndina. Þeim leist vel á þetta og vildu skoða verkið nánar og þá fór boltinn að rúlla.“
Eftir að Þórður fangaði athygli Truenorth fóru fleiri, bæði hér heima og erlendis, að sýna verkefninu áhuga Þá hófst handritsvinna með Margréti Örnólfsdóttur og Óttari M. Norðfjörð en aðrir sem komu að handritaskrifum voru Mikael Torfason og Otto Geir Borg. Þóra Hilmarsdóttir leikstýrir tveimur þáttum, Davíð Óskar Ólafsson leikstýrir tveimur og framleiðir og Þórður leikstýrir fjórum.
„Ég hélt að ef ég yrði heppinn myndi ég kannski ná að gera einhverja ódýra, litla íslenska kvikmynd. Það er nógu erfitt,“ heldur Þórður áfram.
„Maður sér að fólk er í basli hér heima að koma sér á framfæri og meirihluti listamanna á sjálfstæðu senunni er að fjármagna eigin verkefni. Það er alltaf erfiðast að fá fólk til að trúa á þig.
Ég var bara ótrúlega heppinn að Kristinn Þórðarson og Davíð Óskar Ólafsson höfðu trú á mér. Ég mun alltaf vera ótrúlega þakklátur þeim fyrir að segja já við nýútskrifaðan leikstjóra sem var bara búinn að gera stuttmyndir,“ segir Þórður.
Sjá nánar hér: Tímamótabrot í íslenskri þáttagerðarsögu