[Plakat] „Gullregn“ frumsýnd 10. janúar 2020

Ómar Örn Hauksson hannaði plakatið.

Plakat kvikmyndarinnar Gullregn eftir Ragnar Bragason hefur verið opinberað. Myndin verður frumsýnd þann 10. janúar næstkomandi.

Ragnar skrifar á Facebook síðu sína:

Fyrir sléttum sjö árum frumsýndum við Gullregn, frumraun mína á sviði í Borgarleikhúsinu. Stundum ganga allir hlutir upp og í þessu tilfelli gerðu þeir það. Ekki síst vegna frábærs leikhóps og listrænna stjórnenda sem öll sem eitt lögðust á árar við að gera góða sýningu. Þáverandi Borgarleikhússtjóri Magnús Geir hafði verið óþreytandi að stinga upp á því að ég kæmi í húsið í hvert sinn sem við rákumst á. Hann sá eitthvað í mínum verkum sem hann taldi að ætti einnig heima á sviði, þó að ég sjálfur kæmi ekki auga á það í fyrstu. Taldi mig ekkert erindi hafa í miðil sem ég þekkti lítið meira en almennur áhorfandi. Í hvert sinn tók ég fyrir það en Magnús gafst ekki upp og á endanum lét ég undan, ekki síst þar sem hann gaf mér frjálsar hendur með mannaval, efnistök og stíl. Ég á honum miklar þakkir skildar fyrir það. Kom aldrei annað til greina en realískt verk um fólk hér og nú, unnið í nánu samstarfi við leikhópinn sem skapaði með mér persónur af holdi og blóði. Það er skemmst frá því að segja að sýningin sló í gegn, bæði hjá áhorfendum og gagnrýnendum. Hún gekk allan veturinn og til að anna eftirspurn var hún færð af Nýja Sviðinu upp á það Stóra. Uppselt var á allar sýningar og hætt fyrir fullu húsi. Sýningin hlaut á endanum átta tilnefningar til Grímuverðlauna og í kjölfarið tvo gripi. Leitað var leiða til að taka verkið aftur upp haustið á eftir en þar sem Halldóra var á leið í heimsreisu var staðar numið. Nú sjö árum siðar er ég að leggja lokahönd á kvikmynd byggða á þessu verki. Flestir úr upprunalega hópnum eru aftur með eins og Sigrún Edda, Halldóra, Hallgrímur og Halldór, en við Brynhildur tókum sameiginlega ákvörðun um að betur færi á því að fá pólska leikkonu í hlutverkið sem hún fór með upphaflega. Var mikill eftirsjá af Brynhildi en Karolina Gruzka sem kom í hennar stað stóð sig frábærlega. Verður myndin frumsýnd í bíóhúsum næstkomandi janúar. Fólk sem missti af sýningunni á sínum tíma getur þá tekið gleði sína að nýju og þeir sem upplifðu geta endurnýjað kynni við þessar skemmtilegu persónur (og þónokkrar nýjar). Meira um það síðar

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR