Börkur Sigþórsson leikstýrir „Babtiste“ fyrir BBC

Börkur Sigþórsson (mynd: RÚV).

Sýningar á BBC spennuþáttaröðinni Babtiste hefjast í kvöld, þriðjudag á RÚV. Börkur Sigþórsson (Vargur, Ófærð) leikstýrir þremur af sex þáttum í þessari fyrstu syrpu og Árni Filippusson er tökumaður þeirra.

Rætt var við Börk í Mannlega þættinum á Rás 1:

Þegar Börkur er að klára MH byrjar hann af alvöru að spá í kvikmyndagerð. Um tvítugt skaut hann bíómynd sem Björn Thors og Unnur Ösp leikstýrðu. „Ég hef áhuga á svo mörgu. Mér finnst líka gaman að skrifa og kvikmyndagerðin er allherjarform. Þar er pláss fyrir allt.“

Börkur hefur gert fjöldan allan af tónlistarmyndböndum og mörg þeirra hafa vakið mikla eftirtekt. Meðal annars hefur hann starfað með æskuvinum sínum í hljómsveitinni Mínus við gerð tónlistarmyndbanda fyrir þá. „Fyrsta leikstjórnarverkefnið sem ég geri er myndband fyrir lagið Romantic Exorcism með Mínus. Fljótlega í kjölfarið komast þeir á samning hjá Sony í Bretlandi og ég geri myndband við lagið Long Face. Þar má sjá Ingvar E. og Björn Thors og fleiri þar sem þeir eru að gleðjast yfir hálfberum meðlimum Mínus.“

Enginn bjóst við að þetta yrði svo mikill smellur
Fyrsta kvikmynd Barkar í fullri lengd er spennutryllirinn Vargur. Í kjölfarið fær hann sem fyrr segir tækifæri til að leikstýra Ófærð og síðar Baptiste sem einnig eru spennuþættir. Hann segir spennumyndaformið eiga ágætlega við sig en sem kvikmyndagerðamaður reiðir hann sig meira á myndmál en talmál.

En hvernig kemur svo gríðarstórt erlent tækifæri eins og Baptiste til hans? „Þetta eru samvirkandi þættir. Ég bjó í Bretlandi í tíu ár næstum og vann þar sem leikstjóri og gerði tónlistarmyndbönd.“ Samhliða þessu gerir Börkur nokkrar stuttmyndir og þá fer boltinn að rúlla fyrir alvöru. „Ég kom heim árið 2013 til að gera Varg, hóf þar samstarf með Baltasar Kormáki sem framleiðir myndina. Þannig kemur Ófærð til mín.“

Börkur segir að gífurleg velgengni Ófærðar hafi að mörgu leyti komið honum á óvart. „Enginn bjóst við að þetta yrði svona rosalegur smellur í Bretlandi til dæmis. Allt í einu er maður með eitthvað sem sýnir að maður geti tekið að sér ólík verkefni.“

Í kjölfarið byrjar hann að vinna að Baptiste og íslenskir áhorfendur fá tækifæri til að njóta afraksturs þeirrar vinnu næsta þriðjudag. Þættirnir eru hliðarsaga úr hinum geysivinsælu bresku sjónvarpsþáttum The Missing, þar sem persónan Baptiste var fyrst kynnt til sögunnar, en hann er lögreglumaður sem leitar uppi fólk sem hefur horfið og er sannkallaður spennutryllir eins og Börkur hefur sannað að hann kann að skapa.

Sjá nánar hér: Leikstýrir spennuþáttum fyrir BBC | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR