„Hvítur, hvítur dagur“ framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2020

Ingvar E. Sigurðsson í Hvítum, hvítum degi.

Hvítur, hvítur dagur verður framlag Íslands til Óskarsverðlauna 2020. Hlaut hún afgerandi sigur í rafrænni atkvæðagreiðslu um framlag Íslands, en það eru meðlimir í ÍKSA, Íslensku kvikmynda og sjónvarpsakademíunni sem hafa kosningarétt.

Hlynur Pálmason leikstýrði og skrifaði handritið að Hvítum, hvítum degi sem var heimsfrumsýnd á Critics‘ Week, hliðardagskrá kvikmyndahátíðarinnar í Cannes, í maí sl. Þar var aðalleikari myndarinnar, Ingvar Sigurðsson, jafnframt valinn besti leikarinn fyrir leik sinn í myndinni. Ingvar var einnig valinn besti leikarinn á kvikmyndahátíðinni í Transylvaníu fyrir sama hlutverk, auk þess sem Hvítur, hvítur dagur var valin besta mynd kvikmyndahátíðarinnar í Motovun í Króatíu. Myndin hefur einnig verið valin inn á fjölda annarra stórra hátíða, þ.á.m. Karlovy Vary, Toronto, Busan og Hamptons og hefur nú þegar verið seld til yfir 30 landa víðsvegar um heiminn.

Hvítur, hvítur dagur er enfremur sú íslenska kvikmynd sem tilnefnd er til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs í ár og keppir þar með við fjórar aðrar myndir frá Danmörku, Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. Þá hefur myndin hefur einnig verið valin sem ein af 46 kvikmyndum í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin í ár.

Hvítur, hvítur dagur er önnur kvikmynd Hlyns Pálmasonar í fullri lengd á eftir hinni dönsk/íslensku Vetrarbæðrum sem kom út 2017 og fór sigurför um heiminn í kjölfar heimsfrumsýningar í aðalkeppni Locarno kvikmyndahátíðarinnar í Sviss í ágúst 2017. Sú mynd hefur unnið til yfir þrjátíu alþjóðlegra verðlauna, þar af níu Robert verðlaun og tvenn Bodil verðlaun í Danmörku. Hlynur Pálmason vann einnig til Dreyer verðlaunanna á síðasta ári fyrir framúrskarandi listræna hæfni.

Hvítur, hvítur dagur er framleidd af Antoni Mána Svanssyni fyrir Join Motion Pictures, en helstu leikarar eru Ingvar E. Sigurðsson, Ída Mekkín Hlynsdóttir, Hilmir Snær Guðnason, Arnmundur Ernst Backman, Björn Ingi Hilmarsson, Elma Stefanía Ágústsdóttir, Haraldur Ari Stefánsson, Laufey Elíasdóttir, Sara Dögg Ásgeirsdóttir, Sigurður Sigurjónsson, Sverrir Þór Sverrisson og Þór Tulinius.

Stjórn kvikmyndatöku var í höndum Mariu von Hausswolff og Julius Krebs Damsbo sá um klippingu myndarinnar. Hljóðhönnuður myndarinnar var Lars Halvorsen, leikmyndahönnuður Hulda Helgadóttir og tónlistin er eftir Edmund Finnis.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR