„Þessi lúmskt fyndna tragikómedía úr alíslenskum raunveruleika springur út í dæmisögu sem á við alls staðar á öllum tímum,“ segir Þórarinn Þórarinsson í Fréttablaðinu um Héraðið Gríms Hákonarsonar og gefur henni fjórar stjörnur.
Grímur Hákonarson er einn áhugaverðasti kvikmyndaleikstjórinn sem sinnir list sinni af hugsjón á Íslandi. Hann hefur alltaf verið svolítið sér á parti og samkvæmur sjálfum sér í gegnum tíðina hefur hann mótað sín sterku höfundareinkenni.
Hann sló verðskuldað í gegn með Hrútum 2015 og heldur sig enn í sveitinni í Héraði en samt er rétt að halda vandlega til haga að þessi bráðsnjalla, litla sveitasaga er ekki Hrútar II. Því fer fjarri þótt hún fjalli öðrum þræði um hálfgerða hrúta sem manngerast í staðalmyndum af kaupfélagsbullum og Framsóknarmönnum sem skara grimmt eld að eigin köku í skálkaskjóli umgmennafélagsandans og samvinnuhugsjónarinnar.
[…]Arndís Hrönn Egilsdóttir er prímusmótorinn sem knýr þessa öskureiðu mjaltavél áfram og fer alveg á kostum í hlutverki Ingu. Dyggilega stutt úrvalsliði leikara í minni hlutverkum þar sem ekki verður hjá því komist að nefna sérstaklega Sigurð Sigurjónsson sem skilar býsna góðum skúrki í kaupfélagsstjóranum Eyjólfi.
Þá getur það varla verið helber tilviljun að í hlutverk helsta handrukkara og erindreka kaupfélagseinokunarinnar hafi valist Hannes Óli Ágústsson sem minnir skuggalega á persónu sem hann hefur slegið eign sinni á í skaupum síðustu ára. Bráðskemmtilegur að vanda.
Þótt þessi litla saga sé lyginni líkust í þessum efnum fer hún sorglega nærri kunnuglegum raunveruleikanum og er þannig helvíti hressileg hugvekja í öllum sínum einfaldleika.
Héraðið er snotur og einhvern veginn sérlega krúttleg baráttusaga þar sem saman fer örugg leikstjórn, sniðugt og á köflum drepfyndið handrit sem öflugur leikhópur afgreiðir í alíslensku sveitaumhverfi þar sem sérstaklega viðeigandi og skemmtileg tónlist Valgeirs Sigurðssonar svífur yfir túnum, stjórnar taktinum og fullkomnar heildarmyndina.
Sjá nánar hér: Góðir Framsóknarmenn! – Vísir