Héraðið eftir Grím Hákonarson mun taka þátt í Contemporary World Cinema hluta Toronto hátíðarinnar sem hefst 5. september. Þetta er alþjóðleg frumsýning myndarinnar en sýningar á henni hefjast í Senubíóunum 14. ágúst.
Héraðið gerist í litlu samfélagi og segir sögu Ingu, miðaldra kúabónda, sem gerir uppreisn gegn kaupfélaginu á staðnum. Hún reynir að fá aðra bændur í lið með sér en það gengur erfiðlega þar sem kaupfélagið hefur sterk ítök í sveitinni.
Með helstu hlutverk fara Arndís Hrönn Egilsdóttir, Sveinn Ólafur Gunnarsson, Sigurður Sigurjónsson, Hinrik Ólafsson, Hannes Óli Ágústsson og Edda Björg Eyjólfsdóttir.