Skjaldborg 2019: „Vasulka áhrifin“ fær áhorfendaverðlaunin, „In Touch“ dómnefndarverðlaunin

Rammi úr In Touch.

Vasulka áhrifin eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur hlaut Einarinn, áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar, sem lauk í gærkvöldi. Pólsk/íslenska heimildamyndin In Touch eftir Pawel Ziemilski hlaut dómnefndarverðlaunin.

Vasulka áhrifin fjallar um vídeólistafólkið Steinu og Woody Vasulka, en þau voru heiðursgestir Skjaldborgar fyrir nokkrum árum. Þau eru frumkvöðlar í vídeólist sem hafa haft ótvíræð áhrif á þróun seinni endurreisnar tímabilsins í listum. Fyrir tilviljun eru þau enduruppgötvuð af listaheiminum sem þau töldu sig aldrei hluta af og skjótast aftur upp á stjörnuhimininn. Hrafnhildur Gunnarsdóttir leikstýrir myndinni og framleiðir fyrir hönd Krumma Films en Margrét Jónasdóttir er framleiðandi fyrir hönd Sagafilm.

In Touch er saga fólks frá smábæ í Póllandi sem heitir Stary Juchy (Gamla blóð). Bærinn er staðsettur í norður Póllandi á stað sem er oft kallaður „land hinna þúsund vatna“. Atburður í kringum 1980 leiddi til þess að um 400 manns frá þessum bæ fluttu til Íslands. Ekkert þeirra hefur snúið til baka. Pawel Ziemilski stýrir myndinni, en framleiðendur eru Haukur M. Hrafnsson og Lukasz Dlugolecki, auk Antons Mána Svanssonar meðframleiðanda.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR