Víðsjá um „Vasulka áhrifin“: Stórmerkileg saga

Steina og Woody Vasulka.

„Merkileg heimildamynd sem kemur eflaust mörgum á óvart,“ segir Gunnar Theodór Eggertsson í Víðsjá um Vasulka áhrifin eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur.

Gunnar Theodór skrifar:

Vasulka-áhrifin eða The Vasulka Effect, er ný heimildamynd eftir Hrafnhildi Gunnarsdóttur um myndlistarhjónin Steinu og Woody Vasulka, frumkvöðla í vídeólist sem höfðu mótandi áhrif á þróun myndlistar á seinni hluta 20. aldar. Þau hafa unnið sjálfstætt að sinni listsköpun áratugum saman, og aldrei beinlínis talið sig hluta af hræringum listheimsins, en á efri árum má segja að þau hafi hlotið almenna viðurkenningu sem brautryðjendur á sínu sviði. Heimildamyndin veitir okkur innsýn í líf þeirra, bæði í gegnum gamlar upptökur – og nóg er til af þeim – og ný og lífleg viðtöl við hjónin þar sem þau gera upp ferilinn, lífið, fortíð og samtíð.

Myndin hefst á stuttri kynningu á Vasulka-hjónunum og upptökum af þeim á yngri árum, en snýr sér fljótlega að þeim saman í ellinni í ævintýralegu húsi í Santa Fe sem virkar eins og skorið út úr vísindaskáldsögu, gamalt og framtíðarlegt í senn, yfirfullt af raftækjum og listfræðilegum minjum, hörðum diskum, gömlum myndbandsræmum og „merkilegum maskínum“. Á löngum ferli hafa þau framleitt mikið af efni og nú er verið að vinna með gamla tækni og færa listina yfir á nýtt form – að safnvista listaverkin stafrænt. Snemma kemst Steina svo að orði að fólk hafi almennt meiri áhuga á varðveittri list heldur en því sem á sér stað í núinu, sem er mjög áhugaverð yfirlýsing í heimildamynd sem fjallar að miklu leyti um arfleifð – þá arfleifð sem þau hjónin skilja eftir sig, sem þau sjá sem sitt ævistarf og framlag; þá arfleifð sem listheimurinn sér, sem er á fullu að „enduruppgötva“ og í raun kanónísera hjónin sem hluta af listasögunni; og svo auðvitað þá arfleifð sem heimildamyndin skapar með því að skjalfesta sögu þeirra.

Og þetta er auðvitað stórmerkileg saga, sem Hrafnhildur leikstjóri leyfir þeim hjónum að segja að langmestu leyti sjálf, því þótt aðrir viðmælendur séu vissulega til staðar erum við mestmegnis í félagsskap Steinu og Woodys og það er afar góð nærvera út í gegn. Þau hafa frá mörgu að segja og eru skemmtilega létt og kumpánleg þegar kemur að því að ræða bæði listsköpunina og listheiminn, taka sig ekki of alvarlega, enda gefur Steina í skyn að þau hafi sloppið vel með því að fá að vera í friði frá meginstraumnum og unnið utangarðs öll þessi ár.

Steina Vasulka, öðru nafni Steinunn Briem Bjarnadóttir, flutti til Prag í fiðlunám undir lok sjötta áratugarins og kynntist þar Woody Vasulka, sem þá lærði kvikmyndagerð, en báðar listgreinar áttu eftir að hafa áhrif á vídeólist þeirra síðar meir, enda samspil myndar og hljóðs stór hluti af tæknilistinni. Hún kom úr íslenskri millistéttarfjölskyldu, hann úr kommúnískri verkamannafjölskyldu, og saman fluttu þau til Bandaríkjanna árið 1965, leigðu sér loft við Union Square í New York og enduðu þar í hringiðu framúrstefnulistar og tilraunamennsku, rétt fólk á réttum stað og réttum tíma. Af nægu myndefni er að taka, enda myndbandsvélin aldrei fjarri í lífi þeirra, og á þessum tíma má sjá mikið lista og partílíf, við sjáum Warhol og Dali bregða fyrir, Jackie Curtis og Patti Smith, Hendrix og Stones, og blómstrandi grasrótarmenningu sem gat af sér vídeólistina sem listform í kringum árið 1970. Sá kafli er skemmtilegur, en ívið of langur miðað við heildina, þótt hann sé auðvitað mikilvægur til að sýna þann frjóa og inspirerandi jarðveg sem þau hjónin fundu þegar þau fluttu vestur. Eitt það merkilegasta við þann tíma er stofnun þeirra á frjálsa sýningarrýminu Eldhúsinu, The Kitchen, sem stendur enn og hefur fyrir löngu orðið samofið grasrótarmenningunni í New York, eitt af mörgum dæmum um lifandi arfleifð þeirra.

Þó er jafnvel merkilegra að fylgjast með árunum eftir New York, þegar hjónin fara til Buffalo og að lokum til Santa Fe, og halda áfram að þróa sína list og aðferðafræði, smíða sín eigin tæki, nota rafboð, hljóð og myndir og gera ótal tilraunir. Framleiðsluferlið er óaðskiljanlegur þáttur verka þeirra og það er reglulega gaman að sjá hjónin að störfum, enda leynir tilraunamennskan og tilraunagleðin sér ekki og ótrúlegt að hugsa til þess að þau hafi getað unnið saman svona lengi og á jafnsvipaðri bylgjulengd. Kannski er það einmitt þessi utangarðsmennska sem dregur fram leikinn og gleðina í því að teygja á mörkum listformsins, enda voru þau stundum ásökuð um að vera bara að leika sér, en ekki að gera list, nokkuð sem Steina tekur að sjálfsögðu sem hrósi.

Vasulka-áhrifin segir bæði persónulega sögu um hjónin sjálf, en líka listfræðilega sögu, og stendur sem hugleiðing um listaverk í sjálfu sér og togstreituna á milli viðurkenningar og sköpunargleði. Jafnframt er myndin hluti af víðara samhengi sem snýr að ákveðinni upphafningu, eða að minnsta kosti meginstraumsumfjöllun, um verk þeirra hjóna, enda fer ekki á milli mála í síðari hluta myndarinnar að þeim hefur verið tekið opnum örmum af yngri kynslóðum listafólks og listunnenda, en í myndinni eru þau bæði sögð vera herðarnar sem vídeólistin stendur á og amma og afi geirans. Hvað það varðar saknaði ég þess á köflum að sjá meira af listaverkum þeirra, eða öllu heldur lengri brot en birtast, því myndin er ansi þétt og nokkuð hröð í sambandi við upplýsingaflæði og viðtöl – mögulega hafa réttindamál komið í veg fyrir það, en sjálfur hefði ég gjarnan viljað dvelja lengur við vídeóverkin sjálf, sérstaklega á svona stóru tjaldi. Vasulka-áhrifin er annars bæði skemmtileg og merkileg heimildamynd sem mun eflaust koma mörgum á óvart, eins og mér, sem kannaðist við Vasulka nafnið, en þekkti lítið til þeirrar sögu, og var afar ánægður að hafa fengið að kynnast þeim betur.

Sjá  nánar hér: Stórmerkileg saga Vasulka hjónanna | RÚV

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR