Ásgeir H. Ingólfsson gerir upp bíóárið síðasta í Stundinni og ræðir meðal annars íslenskar kvikmyndir sem hann segir loksins hafa uppgötvað pólitík.
Ásgeir skrifar meðal annars:
Bankahrunið 2008 olli mikilli pólitískri vakningu og listirnar fóru ekki varhluta af henni, fyrstu hrunbækurnar komu út nánast samstundis og höfðu margar raunar verið tilbúnar löngu fyrir hrun. En íslensku bíómyndirnar fylgdu ekki tímunum heldur flúðu í sveitina. Vissulega mátti finna fáeinar undantekningar, eins og Boðbera og Rokland, tvær rækilega pólitískar myndir sem gengu illa í miðasölunni, og heimildamyndagerðarmenn hafa verið duglegir að takast á við hrunið.
Það var meiri pólitík í mörgum ofurhetjumyndum en flestum leiknum íslenskum bíómyndum – þangað til í fyrra. Árið 2018 var árið sem pólitíkin varð fyrir alvöru umfjöllunarefni í íslenskum bíómyndum.
Í byrjun árs kom Andið eðlilega, frumraun Ísoldar Uggadóttur, þar sem sósíal-realismi var notaður til að segja fallega og manneskjulega sögu um tvær konur sem áttu það sameiginlegt að vera fórnarlömb aðstæðna sem þyrfti ekki mikinn pólitískan vilja til að breyta. Myndin fjallar um tvær konur, Láru og Ödju, landamæravörð og flóttamann. Sú fyrri er nýbyrjuð í starfi, er á götunni sökum blankheita og með dótið sitt í bílnum, sem sagt í sömu stöðu og sífellt fleiri Íslendingar í þessari miklu húsnæðiskreppu, að hafa hreinlega ekki efni á að búa í eigin landi. Adja fær svo ekki að búa í þessu sama landi, óháð fjárhag, en hún fær ekki heldur að yfirgefa það, og er um leið óvært í eigin landi. Myndin tvinnar því saman tvær manneskjur sem fæstir myndu flokka saman, en eiga það sameiginlegt að vera heimilislausar í ómanneskjulegu kerfi heimskapítalismans og ósveigjanlegra landamæra.
Sögur flóttamanna sem birst hafa í fjölmiðlum hafa hins vegar augljósa möguleika á að verða gott bíó. Loftslagsmál eru hins vegar annar handleggur; ísjaki að bráðna er alvarlegt mál en verður seint gott bíó.
Benedikt Erlingsson fann hins vegar leið til þess að gera þrælskemmtilega mynd um loftslagsbreytingar með Kona fer í stríð og leynivopnið þar er hún Halla, sem Halldóra Geirharðsdóttir leikur fantavel. Galdurinn við Höllu er að hún er lúði og hún fær að vera það og okkur er leyft að öðlast samúð með þessum lúða, þótt vissulega sé hún ansi töff með bogann á lofti.
Myndin hefði vissulega getað orðið vatn á myllu þeirra sem stagla um góða fólkið, hreinlega með því að vera óbærilega réttsýn og húmorslaus – en þótt persónurnar séu í sjálfu sér passlega húmorslausar þá hefur myndin hlýlegan og góðlátlegan húmor fyrir þeim. Halla og tvíburasystir hennar eru gömlu hippafrænkurnar sem við könnumst mörg við; hlýjar, vel meinandi og stundum aðeins of fullar af réttlætiskennd … eða kannski bara aðeins of einlægar í einhverju sem okkar sjálfhverfa kynslóð gat ekki lifað sig inn í, kannski af því við höfðum misst trúna á að slíkt virki.
Halla er Hrói höttur okkar daga, reynir að gelda stórfyrirtækin og færa náttúruna aftur til fólksins. Umhverfisofurhetja um helgar og virðulegur kórstjóri á daginn.
Sjá nánar hér: Bíóárið 2018 – Stundin