Hvernig við gerðum „Þvert á tímann“

Sigurður Sverrir Pálsson og Erlendur Sveinsson.

Sigurður Sverrir Pálsson og Erlendur Sveinsson frumsýna heimildamynd sína Þvert á tímann þann 16. desember, en myndin fjallar um dag í lífi Matthíasar Johannessen skálds og fyrrum ritstjóra Morgunblaðsins. Hér segja þeir frá því hvernig myndin var gerð og hversvegna tók næstum tvo áratugi að klára hana.

Það ætti ekki að þurfa að kynna Matthías Johannessen fyrir Íslendingum. Matthías var ritstjóri á Morgunblaðinu í 41 ár, og lét af störfum þar í árslok 2000. Á ritstjórnarferli sínum stóð Matthías dyggan vörð um íslenska menningu og bar hag bókmennta og lista mjög fyrir brjósti. Á sama tíma gaf Matthías út fjölda bóka, bæði ljóðabækur, skáldsögur og viðtalsbækur. Og eftir að hann hætti sem ritstjóri, hefur bókaútgáfa hans aukist til muna.

Það var frá upphafi ljóst, að við undirritaðir, framleiðendur myndarinnar, vildum ekki gera sögulega kvikmynd um Matthías og reyna að lýsa lífi hans og starfi í 40 ár. Yfirlýst markmið okkar var að búa til mynd, sem lýsti Matthíasi eins og hann kom okkur fyrir sjónir á þeim tíma, sem myndin er gerð.

Grunnhugmyndin var sú, að Matthías fengi að vera eins mikið hann sjálfur og hægt væri.

Verkefnið skiptist í tvo megin efnisþætti, “heim ritstjórans” og “heim skáldsins”.

Tímalína myndarinnar var einföld. Myndin byrjaði snemma morguns og endaði undir miðnætti. Hugmyndin var að draga upp eins skörp skil, bæði myndlega og efnislega eins og hægt væri á milli þessara tveggja heima, þó að þessir heimar tvinnist svo saman í gegnum alla myndina. Þess vegna var hugmyndin árið 1999 að myndin yrði tekin með tvennskonar tækni: Á super 16mm filmu annars vegar (“skáldið”) og með digital-tækni hins vegar (“ritstjórinn). Og til þess að undirstrika muninn enn frekar ákváðum við skipta stjórn myndarinnar á milli okkar, þannig að Erlendur stjórnaði skáldhlutanum og Sigurður Sverrir ritstjórahlutanum.

Ætlunin var að kvikmyndatakan á Morgunblaðinu færi fram í apríl -maí, 2000 og skáldhlutinn um sumarið, en vegna erfiðleika í fjármögnun seinkaði myndatökunni. Það var fyrst undir lok ársins 2000, að Sigurður Sverrir byrjaði að kvikmynda inni á ritstjórn Morgunblaðsins og fylgja Matthíasi við dagleg störf. Í 17 daga á tímabilinu  27.okt. til 24.nóv. 2000, var Sverrir eins og fluga á vegg inni á ritstjórn Morgunblaðsins. Til þess að valda sem minnstu ónæði og láta sem minnst fyrir sér fara, vann Sverrir að mestu einn að þessum upptökum, stundum með 2 myndavélar og sá bæði um hljóðupptöku og lýsingu. Þessi aðferð skilaði þeim árangri að eftir nokkra daga voru starfsmenn farnir að venjast þessum þögla, langa manni sem sniglaðist um í bakgrunninum og reyndi að láta lítið fyrir sér fara og hann varð þannig hluti af daglegu lífi þarna inni.

Skáldhlutinn var síðan tekinn upp árið eftir, 2001. En vegna skorts á fjármögnun tókst okkur ekki að framfylgja þeirri hugmynd okkar að taka skáldhlutann á filmu. Af sömu ástæðum, peningalegum vanefnum, drógst endanlegur frágangur myndarinnar á langinn. En á þessum tíma gerðust atburðir, sem okkur þótti nauðsynlegt að bregðast við, þannig að árið 2012 tókum við upp viðbótarefni, sem síðan hefur verið tvinnað inn í myndina. Með þessu brjótumst við úr úr þeirri spennitreyju eins dags, þar sem ritstjórinn og skáldið slást um tímann og bætum við nýjum efnisþætti, þar sem skáldið eitt ræður ríkjum.

Eins og komið hefur fram var fjármögnun verkefnisins mjög erfið og varð til þess að frágangur myndarinnar hefur dregist úr hömlu. Myndin var styrkt af Árvakri, útgáfufélagi Morgunblaðsins, Vali Valssyni hjá Íslandsbanka, Menningarsjóði Reykjavíkur og Menningarsjóði útvarpsstöðva. Án stuðnings þessara aðila hefði myndin aldrei orðið að veruleika.

f.h. framleiðenda

Kvikmyndaverstöðin ehf.

Erlendur Sveinsson

Sigurður Sverrir Pálsson

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR