Ólafur Darri verður forsætisráðherra

Ólafur Darri Ólafsson fer með aðalhlutverkið í þáttaröðinni Ráðherranum, sem verður tekin upp á næsta ári. Þar leikur Ólafur Darri óhefðbundinn stjórnmálamann sem verður forsætisráðherra Íslands, hvers ákvarðanir verða sífellt óvenjulegri eftir að hann tekur við embætti. Sagafilm framleiðir þættina sem hafa verið í þróun í nokkur ár.

Nanna Kristín Magnúsdóttir og Arnór Pálmi Arnarson leikstýra þáttaröðinni í sameiningu en þau hafa unnið mikið við kvikmyndagerð síðustu ár. Arnór Pálmi hlaut meðal annars Edduverðlaunin fyrir gamanseríuna Ligeglad og árið 2017 vann Nanna Kristín  sömu verðlaun fyrir stuttmyndina Ungar.

,,Við Nanna höfum unnið mikið saman síðustu ár en þetta er í fyrsta sinn sem við leikstýrum verkefni saman. Þegar við lásum handritin þá vorum við eiginlega seld. Það er frábært að fá Ólaf Darra í hlutverk forsætisráðherra. Það eru fáir leikarar sem eigna sér hlutverk jafnvel og Darri,“ segir Arnór Pálmi. ,,Undirbúningur Ráðherrans hefur verið skemmtilegt sköpunarferli og ég er afar spennt fyrir framhaldinu. Ég og Arnór erum ólíkir leikstjórar en myndum traust teymi,“ segir Nanna Kristín. ,,Við Ólafur Darri höfum unnið alloft saman, leikið hvort á móti öðru bæði í kvikmyndum og leikhúsi. Hann lék aðalhlutverk í stuttmynd minni Ungar þar sem samstarf okkar sem leikstjóri og leikari var sérlega gott og reyndist farsælt“ bætir Nanna Kristín við.

Handritaskrif eru í höndum Birkis Blæs Ingólfssonar, Bjargar Magnúsdóttur og Jónasar Margeirs Ingólfssonar. Tökur hefjast næsta vor og verður sögusviðið Reykjavík.

RÚV hefur tryggt sér sýningarréttinn á þáttaröðinni, sem hefur nú þegar verið forseld til allra Norðurlandanna.

Ólafur Darri mun fara með aðalhlutverkið í annarri syrpu Ófærðar sem frumsýnd verður á RÚV um jólin næstkomandi. Áður mun RÚV sýna þáttaröðina Flateyjargátu, sem Sagafilm framleiðir í samvinnu við Reykjavík Films.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR