„Myndin fer vel af stað en líður fyrir veikt handrit og slaka persónusköpun“, segir Marta Sigríður Pétursdóttir gagnrýnandi Lestarinnar á Rás 1 um Undir halastjörnu Ara Alexanders.
Marta Sigríður skrifar meðal annars:
Þetta er önnur spennumyndin sem kemur út á Íslandi í ár sem fjallar um burðardýr sem veikist en kvikmyndin Vargur sem var frumsýnd í sumar fjallar um unga konu frá Póllandi sem kemur til Íslands með eiturlyf innvortis og veikist svo. Í báðum tilvikum fellur það í hlut taugaveiklaðra smákrimma að reyna að fá burðardýrið til þess að skila af sér og svo fást við dramað þegar það gengur ekki eftir. Í bæði Vargi og Undir halastjörnu úir og grúir af siðblindum hrottum sem svífast einskis til þess að fá sinn gróðahlut og í báðum myndum eru burðarkarakterar lægra settir smákrimmar sem verða einhvers konar móralskir vegvísar þegar það fellur í þeirra hlut að fást við deyjandi burðardýr. Mér finnst áhugavert að í báðum myndum er gert nokkuð mikið úr sambandi þeirra við börn sín og mæður, í þeirri viðleitni að gera þá manneskjulegri. Bóbó, leikinn af Tómasi Lemarquis, er í þessu hlutverki í Undir halastjörnu. Bóbó er undir hælnum á Jóhanni, sem leikinn er af Atla Rafni Sigurðssyni, Ingvar E. Sigurðsson leikur svo yfirmann hans og tengdaföður, auðmann sem er með tengingar við ógeðfelldan rússneskan auðkýfing.
[…]
Undir halastjörnu líður fyrir veikt handrit en mörg af samtölunum eru stirðbusaleg og myndatakan og klippingin á köflum þess eðlis að það truflaði upplifun mína af sögunni. Hljóðið var líka óþægilega áþreifanlegt á köflum en hljóð hefur löngum verið stórt vandamál í íslenskri kvikmyndagerð. Þó svo að forsendur myndarinnar, sagan af líkinu sem finnst og enginn saknar, jafnvel fall Sovétríkjanna og samband Íslands og Eystrasaltsríkjanna, séu áhugaverðar og grípandi þá þarf meira til að gera góða spennumynd með trúverðugum karakterum. Undir halastjörnu var því nokkuð endaslepp bíóupplifun að mínu mati. Búningahönnun, sviðsmynd og tónlistin í myndinni eru til fyrirmyndar og sama má segja um förðun og gervi í myndinni, en það var allt mjög vel gert. Það er synd með myndir eins og Undir halastjörnu og Varg sem mikið er lagt í, að ekki sé meira gert til þess að þróa og vinna áfram með betri persónusköpun, sérstaklega kvenpersónurnar sem í báðum myndum voru afskaplega takmarkaðar og tvívíðar, og leggja meiri áherslu á vel skrifuð samtöl og frásagnarfléttur. Annars situr lítið eftir er ég hrædd um.
Sjá nánar hér: Kvikmynd um líkfundarmálið helst ekki á floti