spot_img

Andlát: Stefán Karl Stefánsson

Stefán Karl Stefánsson leikari er látinn, 43 ára að aldri, eftir um tveggja ára baráttu við krabbamein. Hann átti glæsilegan feril í sjónvarpi, leikhúsi, kvikmyndum og tónlist, bæði heima og á alþjóðlegum vettvangi, enda er hans minnst víða um heim.

Óhætt er að segja að Stefán Karl hafi verið alþjóðleg stjarna. Hlutverk hans sem Glanni glæpur (Robbie Rotten) í þáttaröðinni um Latabæ (2004-2014) gerði hann kunnan um veröld víða, enda horfðu tugmilljónir barna á þættina – og þeir eru reyndar enn í sýningum. Þá lék hann Trölla (Grinch) í sviðsuppfærslu á hinu sígilda leikverki Þegar Trölli stal jólunum (How the Grinch Stole Christmas) sem ferðaðist um öll Bandaríkin árum saman. 

Stefán Karl lék í fjölmörgum eftirminnilegum uppfærslum í íslensku leikhúsunum. Þá lét hann sig varða málefni barna sem lögð höfðu verið í einelti og stofnaði samtökin Regnbogabörn. Hann var sæmdur riddarakrossi í júní síðastliðnum fyrir framlag sitt til íslenskrar leiklistar og samfélags.

Hann fór með aðalhlutverkið í kvikmyndinni Kurteist fólk (2011) eftir Ólaf de Fleur Jóhannesson og kom meðal annars einnig fram í Harry og Heimi (2014), Jóhannesi (2009), Stellu í framboði (2002) og Regínu (2001).

Stefán Karls er minnst í fjölmiðlum og á samfélagsmiðlum víða um heim í gær og í dag. Hann skilur eftir sig eiginkonu, Steinunni Ólínu Þorsteinsdóttur og fjögur börn.

Hér að neðan má sjá samantekt á nokkrum eftirminnilegum atriðum með Glanna glæp úr Latabæ.

Klapptré
Klapptré
Klapptré er sjálfstæður miðill sem birtir fréttir, viðhorf, gagnrýni og tölulegar upplýsingar um íslenska kvikmynda- og sjónvarpsbransann. Ritstjóri er Ásgrímur Sverrisson.

TENGT EFNI

NÝJUSTU FÆRSLUR