Hér birtist fyrri pistill Ásgeirs H. Ingólfssonar um Berlínarhátíðina síðustu, þar sem hann fjallar um Himininn yfir Berlín eftir Wim Wenders, River’s Edge eftir Isao Yukisada og Isle of Dogs eftir Wes Anderson.
Við erum stödd í gömlu Austur-Berlín. Ljótir steypuklumpar eru til beggja hliða en svo rís gullfallegt kvikmyndahús upp úr steinsteypufrumskóginum. Kino International. Fólkið í hverfinu þarf kannski að búa í ljótum húsum en það getur komist í fallegt bíó þegar ljótleikinn ber það ofurliði.
En við erum snemma á ferð, það er tími fyrir einn bjór. Hið sögufræga Café Moskva er lokað – en hinum megin við götuna sjáum við glitta í ljós. Og erum skyndilega komnir inná tyrkneskan bar þar sem vatnspípur eru á hverju borði og við erum einu hvítu mennirnir þarna inni, á barnum hans Tony. En Tony og allir hans gestir eru afskaplega vinalegir og við hefðum örugglega verið lengur og fræðst betur um tyrkneskar vatnspípur og hlerað hvað þeim fyndist nú um Erdógan kallinn – en við vorum á leiðinni á uppáhaldsbíómyndina mína. Der Himmel Über Berlin. Himininn yfir Berlín. Ég sá hana um aldamótin í litlu vídjóteki í annarri borg og gekk út breyttur maður, í leiðslu – svona var hægt að gera í bíó!
En núna er ég staddur í aðalpersónunni miðri. Myndin mun umlykja okkur – og hún verður betri en nokkurn tímann áður, ný tækni hefur leyft leikstjóranum Wim Wenders að laga alls konar hluti sem að tækni ársins 1987 réði ekki við. Ég veit samt ekki hvort hún er í alvörunni betri, mér er alveg sama – hún er alltaf fallegasta mynd í heimi, það breytist ekkert. Þetta er mynd um borg sem er horfin – og þetta var líka mynd um borg sem var horfin þá.
Í einu atriði myndarinnar gengur gamall maður fram hjá múr í eyðimörk og spyr: Hvar er Potzdamer Platz? Hvar er Café Josti og hvar er besta tóbaksbúðin í bænum? Hún var þarna fyrir einni heimstyrjöld og einum Berlínar-múr síðan, núna er þarna bara eyðimörk með múr. Þetta var árið 1987, 31 ári síðar er Potsdamer Platz háhýsaeyðimörk með öllum helstu okurbúllum Berlínar og ég spyr Wenders leikstjóra eftir sýninguna: „Hvað myndi sá gamli segja um Potsdamer Platz núna?“ Wenders hristir hausinn mæðulega og svarar: „Hann væri örugglega bara ennþá að leita.“
Svart-hvítur heimur kalda stríðsins
Á leiðinni út geng ég nánast í flasið á Nick Cave. Ég vissi ekki að hann yrði þarna í eigin persónu – en auðvitað vissi ég að hann yrði í myndinni. Árið 1987 var Nick Cave rétt að byrja að meika það og lögin hans höfðu bara einu sinni áður hljómað í bíómynd, í lítilli íslenskri bíómynd sem hét Skytturnar og fjallaði um smákrimma í Reykjavík. En þetta var fyrsta hlutverkið hans, hann leikur sjálfan sig á tónleikum og við heyrum hann hugsa: „I‘m not going to tell you about a girl, I‘m not going to tell you about a girl.“ En hann segir okkur samt af stúlkunni, gengur upp að hátaralanum og segir: „I‘m gonna tell you about a girl.“
En hvernig getur maður heyrt hvað Nick Cave hugsar? Maður getur það ef maður er engill. Himininn yfir Berlín fjallar um tvo engla í Berlín. Þeir eru ekki með vængi og minnast aldrei á Guð almáttugan, en þeir lesa hugsanir fólks og reyna að hjálpa því með því að leggja arminn um axlir þess og hugga það. Það dugar samt bara stundum. Englarnir eru góðir sáluhjálparar en þeir eru ekki almáttugir heldur ósýnilegir, þeir geta ekki talað beint við fólk og geta ekki snert það. Og Cassiel er farinn að dreyma um að verða mennskur.
Heimur englanna er svart-hvítur en heimur hinna mennsku er í lit. Rétt eins og við ímynduðum okkur sum að heimurinn væri í kalda stríðinu, hinum megin múrs var allt svart-hvítt og hérna megin var allt í lit, grasið var barasta ekki einu sinni grænt hinum megin. Berlín var klofin borg – og núna er Berlín allt önnur borg, allt breytist og við breytumst og skiljum og gleymum, en alltaf er Berlín englanna jafn falleg og harmræn, ljóðræn og skáldræn og Nick Cave heldur áfram að segja okkur sögur af stúlkum og englum og djöflum.
1994: Árið sem allt breyttist
Berlínarmúrinn féll árið 1989 og heimurinn breyttist. Þoturnar flugu á tvíburaturnana ellefta september 2001 og heimurinn breyttist. Geir H. Haarde bað Guð að blessa Ísland árið 2008 og við vissum að það væri út af því að heimurinn var að fara að breytast. Það kom skammlíft arabískt vor veturinn 2010 til 2011 og um sumarið stráfelldi morðóður byssumaður saklaus ungmenni á norskri eyju og heimurinn breyttist. Stundum var þetta heimurinn allur, stundum var þetta bara Ísland eða bara Noregur eða bara Japan. Ég þekki þetta allt vel og örugglega þið líka – nema ég hafði ekki hugmynd um að í Japan hefði allt breyst árið 1994.
Ekki fyrr en leikstjórinn Isao Yukisada stendur fyrir framan fullan sal af fólki og segir okkur að árið 1994 hafi hann verið ungur og saklaus og bjartsýnn á lífið. Í janúar 1995 kom hins vegar jarðskjálfti sem kostaði meira en sexþúsund manns lífið og sýruárás var gerð á neðanjarðarlest og unglingar fóru að fremja fleiri og ofbeldisfyllri glæpi. Skyndilega var sakleysið horfið og allir voru að hugsa um dauðann.
En árið 1994 kom líka út myndasaga sem hét River‘s Edge. Við árbakkann. Við árbakkann í Tókýó þar sem líkin eru grafin. Hún var vinsæl og það var barist um kvikmyndaréttinn – en skyndilega hættu allir við, sagan var um horfinn tíma, hún þótti ekki lengur við hæfi þegar allir voru að hugsa um dauðann. Núna, löngu seinna, var hún tákn um horfið sakleysi, árin áður en maður byrjaði að hugsa um dauðann.
Eða það segir leikstjórinn okkur fyrir myndina. Auðvitað var heimurinn aldrei svona saklaus. River‘s Edge gerist mestöll í gagnfræðaskóla einhvers staðar í miðri Tókýó. Yamada er laminn á hverjum degi af svalasta stráknum í skólanum. Haruna dáist að honum fyrir að lifa öll höggin af og halda reisn sinni og langar að vita meira um þennan strák og fljótlega verða þau bestu vinir, þótt að það sé kærasti Harunu sem er að berja Yamada. Hún er í ástlausu sambandi og veit ekki hvernig hún á að ljúka því á meðan Yamada segir engum nema henni frá samkynhneigð sinni – og líkinu við árbakkann. Kozue veit líka af líkinu, hún er stelpan sem borðar hádegismatinn á klósettinu og ælir honum svo öllum svo hún geti haldið áfram að vera barnastjarna í kjánalegri sjónvarpsseríu. Þau þrjú sameinast svo í kringum líkið við árbakkann, líkið sem verður vinur þeirra allra á einhvern dularfullan hátt. Líkið sem er betri vinur en margir þeirra sem lifa.
Þetta er ljóðræn og harmræn og gullfalleg og skelfileg og hryllileg mynd um það að vera ungur í grimmum heimi, en dreyma samt um að finna einhvers konar ást einn daginn. Flestir eru krakkarnir gallagripir að einhverju leyti, týnd og ringluð – en jafnvel vondu hrekkjusvínin virðast ekki alslæm þótt þau séu andstyggileg. En manni þykir samt vænst um þau sem gefa litlu flækingsköttunum mjólk og gráta þegar þeir eru myrtir. Og um kærustuna sem veit ekki að kærastinn hennar er hommi og hringir óttaslegin í foreldra hans til að spyrja hvort það sé í lagi með hann eftir að hann var barinn til óbóta.
Þetta er mynd um það hvernig jafnvel friðurinn er grimmur, en um leið um það hvað heimurinn er samt fallegur, líka í blokkarhverfum í Tókýó þar sem næturljósin glitra við árbakkann þar sem líkin bíða. Þetta er svona mynd sem er bara tveir tímar en manni finnst hún vera fimm tímar. Ekki út af því hún sé langdregin, heldur af því maður lifir sig svo ótrúlega inní hvert einasta augnablik að það hægist á tímanum og maður er kominn aftur í gagnfræðaskóla bernskunnar þar sem æskan virtist vera endalaus.
Hundaeyja í Japan framtíðarinnar
Auðvitað eru unglingsárin erfið. En hvað með árin á undan, þegar maður er tólf ára? Eru það kannski síðustu árin sem maður getur upplifað eitthvað barnslegt áhyggjuleysi? Kannski, en ekki ef ríkisstjórnin tekur hundinn manns og setur hann á dularfulla eyju. Hundaeyjuna.
Isle of Dogs gerist líka í Japan þótt hún sé í rauninni bandarísk. Þetta er teiknimynd fyrir fullorðna, unnin með stop-motion brúðutækni, um hunda og börn og fasisma. Þetta er Japan í óljósri framtíð þar sem sturlaður einræðisherra ætlar að útrýma öllum hundum landsins til þess að auka á eigin vinsældir. Dularfull hundaveiki geysar og þótt vísindamenn séu við það að finna lækningu þá vill hann ekki bíða, hann vill nota hundana til þess að ala á hatri, hann vill búa til sameiginlegan óvin úr þeim – og svo vill hann á endanum útrýma þeim.
Manneskjurnar tala allar japönsku, að frátöldum amerískum skiptinema og nokkrum túlkum. Hundarnir hins vegar tala allir prýðilega ensku, enda tala leikarar á borð við Bryan Cranston (úr Breaking Bad), Edward Norton, Bill Murray, Jeff Goldblum, Scarlett Johansson og Tilda Swinton fyrir hundana. Þetta þrælvirkar að því leyti til að við vesturlandabúar skiljum hundana fullkomlega en mennirnir eru okkur flestir ráðgáta. En inní þessum frásagnarmáta er innbyggður sá veikleiki að ameríski skiptineminn verður sjálfskipuð aðalpersóna úr mannheimum. Sem er hálf asnalegt, maður hefði viljað hafa öflugri japanska persónu sem fulltrúa mannkynsins í myndinni.
Þetta er þó sjaldgæfur galli á annars frábærri mynd – af því hundarnir eiga þessa mynd. Stórleikarar í hundalíki. Við fylgjumst með þeim, sjúkum og svöngum, á skítugri eyju sem virðist vera einhvers konar ruslahaugur mannkynsins. Ef mannkynið ákveður ekki að tortíma þeim öllum þá virðast allar líkur á að þeir deyji þarna allir. Það er að segja, þangað til tólf ára strákur brotlendir á lítilli flugvél og spyr þá: hvar er hundurinn minn? Upp hefst undurfurðulegt og spennandi ævintýri á öskuhaugaeyjunni þar sem fyrrum besti vinur mannsins reynir að lifa af hatur hans. En þótt hundarnir séu skemmtilegar persónur þá er samt það stórkostlegasta við myndina heimurinn sem er skapaður. Wes Anderson er leikstjóri sem hingað til hefur oftast byggt upp ýkta heima, heima sem minna helst á gamla Austurrísk-ungverska keisaradæmið. Hann leikstýrir iðullega veröld sem var en nú er hann að leikstýra veröld sem verður. Ruslahaugum framtíðarinnar – og þegar þetta auga hættir að horfa á gullið og fer að horfa á ruslið gerist eitthvað göldrótt.
Síðan hlaupum við á blaðamannafundinn þar sem maðurinn á bak við mig spyr Bill Murray hvernig hund hann eigi eiginlega. Mig langar að spyrja Wes Anderson um úlfana. Hann hefur gert teiknimynd um refi og núna um hunda, er ekki kominn tími á úlfamynd? En hvernig sem ég veifa fæ ég aldrei hljóðnemann en þegar fundinum líkur er ég að skrælna í kverkunum en þarf að bíða eftir vini mínum ljósmyndaranum, mér líður eins og hundi sem hefur labbað í marga daga á ruslauhaugaeyjunni og velti fyrir mér hvar ég get fengið mér vatnssopa áður en ég örmagnast af þorsta. Kem svo auga á vatnsflöskuna sem Bill Murray skildi eftir og gerist svo kræfur að stela henni, maður verður að kunna að bjarga sér í þessum heimi. Ég er viss um að Bill fyrirgefur mér þessa ósvífni einn daginn. Ég held nefnilega að Bill Murray sé góður maður. Hann er að minnsta kosti góður hundur.
Pistillinn birtist upphaflega hér: Englarnir hans Nick Cave – Menningarsmygl